6.2.2007 | 14:46
Dagur 1
Það var tekin sú ákvörðun á heimilinu að hætta með Stöð 2. Húsmóðirin var svolítið treg í taumi en samþykkti þessa tillögu - til reynslu.
Dagur 1 er í dag, reyndar var hann formlega í gær en ég var ekki heima svo það telst ekki með.
Í morgun þegar allir voru farnir í vinnu og skóla og eftir hefðbundin skyldustörf heimilisins kveikti ég á sjónvarpinu af vana. Í stað þess að mér mæti Sirrý og Heimir var á skjánum Vörutorg skjás eins. Þetta var nú ekki sjónvarpsefni við mitt hæfi. Þar var verið að selja hnífa, sem voru svo góðir að það þurfti bara rétt að renna hnífnum í gegnum fituna á lambafille ef þú vilt sleppa henni (fitunni þ.e.a.s.). Á RÚV var útsending frá Alþingi. Af hverju ætli RÚV sé ekki með sjónvarp á morgnanna,þó það séu endursýndir þættir. Guiding Light yrði betra en ekki neitt!
Eftir smá umhugsun fór ég af stað og ákvað að baka.... Voða dugleg og hreykin af sjálfri mér! En þegar mér var litið yfir stofuna mætti mér mikið ryk upp um allt og út um allt. Sólin er komin í Grenibyggðina og er hún sjálfboðaliði í að benda mér á rykið sem safnast hefur upp í vetur á strimlum, veggjum og myndum.
Eftir að hafa bakað var sonurinn vaknaður og farið að styttast í næsta son að koma heim. Því var ákveðið að bíða með þrif á gardínum og öðru til morguns.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig næstu dagar og vikur verða. En í stað þess að horfa á sjónvarp er ég farin að hlusta á útvarp. Nokkuð sem ég hef gert lítið af síðan ég flutti hér uppeftir - því útvarp næst ekki vel hérna!
A.m.k. gengur dagur 1 ennþá vel. Ég finn fyrir smá eirðarleysi en ekkert sem ég held að drepi mig.
Það mætti halda að ég væri að hætta að reykja
Athugasemdir
Dagný, ég vorkenni þér ekki rassgat. Það er hægt að gera svo margt annað en að glápa á imbann.
En ef í harðbakkann slær þá má benda á Skjáinn. Getur horft á grilljón stöðvar fyrir minna verð en stöð 2 ein og sér.... Ég er húkt á nördaþáttunum á discovery stöðvunum og national geographic. Ég gæti lært flugvirkjann eftir alla air crash investigation þættina sem ég hef horft á
erlaperla (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 12:53
Alltaf hugsar þú jafn fallega til systur þinnar
Dagný Kristinsdóttir, 7.2.2007 kl. 14:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.