11.3.2007 | 22:29
Gærkvöldið
Helgarnar hafa oft verið erfiðar þegar maður á fullt af börnum... allir þreyttir og tættir eftir vikuna - og ástandið eftir því.
Á síðustu helgi fékk makinn þá flugu í höfuðið að fara í Kringluna. Strákarnir voru eins og á rítalíni um allar jarðir. Miðju barnið endaði á að hlaupa á innkaupakerru í Hagkaup og steinliggja á gólfinu.... Mamman var orðin tæp eftir því. Það jákvæða við ferðina var að við hittum ljósuna sem tók á móti bæði miðju og yngsta börnunum. Yndislegt að hitta þá konu, enda þekki ég hana ágætlega fyrir.
Það var því á hreinu þessa helgina að engin Kringluferð yrði farin (eða þetta árið ef út í það er farið!). Ástæðan var einföld gamla settið var að fara á djammið. Í ANNAÐ skiptið á árinu!
Árshátíð Símans var í gær. Húsmóðirin tók þetta með trompi - fór í litun og plokkun,strípur og keypti kjól. Kom börnunum í pössun,skutlaði makanum í fyrirpartý og fór svo heim með yngsta stubbinn og hafði sig til á meðan sá stutti galaði á Söngvaborg. Móður eðlið gerði það að verkum að ekki var farið í fyrirpartý. Þegar búið var að sparsla í hrukkur, hífa upp rassinn í viðeigandi sokkabuxum var kominn tími til að fara með stubbinn í pössun. Pössunin var nú ekki langt undan - bara svona 4 hús!
Barninu var hent inn (í orðsins fyllstu). Hann brosti framan í Dagmar... og sagan segir að hann hafi gert það allt kvöldið. Hafi ekki einu sinni grátið. Sem húsmóðirin skilur ekki alveg, því á fimmtudaginn fór hún í strípur og hann galaði á föðurinn svo til allan tímann.
Alla veganna fór svo skvísan á árshátíð. Og er alveg óhætt að segja að þetta hafi verið bæði flottasta og stærsta árshátíðin sem hún hefur mætt á. Maturinn var æðislegur, borðfélagarnir mjög góðir og ekki var það til að skemma fyrir að tvö vinapör voru á svæðinu. Fólk sem við hittum ekki oft.
Þegar borðhaldi lauk var tjúttað við Todmobile þangað til gerð var tilraun til að skjóta dansfélaganum í gólfið (í orðsins fyllstu) en yours truly greip hana!! Þá hrökk húsmóðirin upp við að klukkan var orðin langt fram yfir háttatíma og því var makinn drifinn heim.
Það hafa því verið þreyttir foreldrar hér í dag. Yngsti stubbur var sóttur í nótt og borinn heim. Hinir eldri komu í morgun með ömmunni.
En það er fyrsta ellimerkið þegar maður fer seinna að sofa en vanalega og er þar með með ónýtan næsta dag. Þar sem húsmóðirin drekkur ekkert sterkara en malt er þynnkan ekki áfenginu að kenna.......
Eins og áður sagði spilaði Todmobile undir dansi.... og LayLow undir borðum - eins og kynnirinn sagði!! Ég fann hana hvergi þegar ég lyfti upp dúknum.
Eyþór Arnalds söng eitt gott lag - I´m still standing.......
Held að það sé mikið til í því - hann virðist vera eins og kötturinn kemur alltaf niður á fæturna.
Ég bíð spennt eftir árshátíð Símans á næsta ári ef Todmobile er standardinn sem þarf að miða við - ætli Sálin verði næst
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.