13.5.2007 | 13:33
Erfið kosninganótt
"Farin að sofa. Pabbi úti, ríkisstjórnin fallin. Serbnesk trukkalessa vann Eurovision(tilvitnun í Pál Óskar)".
Svona hljóðaði sms sem ég sendi makanum um kl 23 í gærkvöldi. Hann var á heimleið með stoppi í Boston.
Við sem stöndum að stjórnmálamönnum horfum allt öðruvísi á kosningakvöld en "almenningurinn". Þetta kvöld er því ekki eintóm skemmtun og sæla. Heldur oft stress og hnútur í maga.
Gærkvöldið var sko engin undantekning. Kallinn var alls ekki inni - heldur úti í móa. Eftir tvennar tölur úr villta vestrinu ákvað ég að fara bara að sofa. Hafði ekki taugar í þetta meir. Svefninn lét svo á sér standa - ásamt kikkum á klukkuna mjög reglulega. Þegar sá yngsti lét á sér bæra undir morgun fór ég á netið. Þar var kall úti í móa - ennþá. Um kl 6 var hann kominn í sjónmál en þurfti 1100 atkvæði og rúmlega það. Ég ákvað að bjóða honum starf við barnapössun
Þá fór ég með börnin til Keflavíkur að sækja makann. Það er svo þegar við erum að renna inn í Hafnarfjörð á heimleið sem að síminn hringir. Ég hélt að eitthvað hefði gerst (hugsar maður ekki svoleiðis þegar síminn hringir kl 7 að morgni?). Í símanum var mamma. Hálf æst - pabbi þinn var að detta inn!! Ég get alveg viðurkennt að æsingurinn fluttist í gegnum símalínuna. Ég hélt að hún væri að grínast í mér.
Árið 1995 var hann inn og út af þingi fram undir morgun, þessi nótt var engin undantekning. Hann sannaði sig um kl 9 í morgun.
En mikið mikið mikið er ég fegin. Við vissum auðvitað að þetta gæti brugðið til beggja vona, og hann má eiga það að hann tók þessu öllu af miklu æðruleysi og var með báðar fætur á jörðinni allan tímann. Hann sannaði mál sitt gagnvart Framsókn. Tók af þeim fylgi og þingsæti.
Innilega til hamingju pabbi minn..... þú passar bara eftir 4 ár
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.