16.5.2007 | 13:29
Pólitíkin í Mosó
Minnir um margt á pólitíkina heima í Víkinni. Hún er ansi óvægin, hörð og á köflum persónuleg með skítkasts ívafi.
Það sem á hefur gengið síðastliðið ár eftir að Varmársamtökin voru stofnuð er oft á tíðum með ólíkindum. Að fullorðið fólk láti svona.
Nú bý ég ekki langt frá þessum fræga stað, Álafosskvosinni. Ég hef skoðað þennan trjárunna sem öll lætin hafa verið út af. Ég hef kynnt mér málstað beggja aðila. Ég stóð heilsugar með þessum samtökum í upphafi - vegna þess að þau voru, að mínu mati, að kynna fyrir okkur hinum hvernig stjórnvaldinu hér í bænum er háttað. Það var þörf á að ræða þessi vinnubrögð ákveðinna aðila í meirihlutanum. EN það gerir fólk ekki með kjafthætt og asnaleg heitum.
Varmársamtökin vilja færa tengibrautina frægu hér uppeftir til mín. Það vil ég ekki sjá. Þeir vegir sem hér eru uppfrá eru á mörkunum að taka á móti þeirri aukningu bíla sem fyrirsjáanleg er. En Vesturlandsvegurinn er hins vegar betur til þess fallinn, auk þess sem bílarnir eru þá komnir strax út á stofnbrautir í stað þess að flækjast í hverfinu.
Nú er svo komið að ég á ekki til orð yfir ákveðna aðila í Varmársamtökunum. Þeirra barátta er komin út í rugl og vitleysu. Þeirra barátta hefur í auknum mæli færst inn á internetið með alls konar skrifum og skítakommentum undir nafnleynd í allar áttir.
Mér finnst Álafoss kvosin minna um margt á Grjótaþorpið. Það sómir sér vel innan um nýrri hús og nýrri hverfi. Þar er gaman að rölta um.
Í guðanna bænum byggið þetta hverfi, föndrum Álafosskvosina þar inn í og leyfum henni að dafna í návígi við íbúðarhverfi og skarkala mannlífsins. Það eykur aðdráttarafl hennar heldur en hitt.
p.s. Ég tek það skýrt fram að ég hef ekki Guðmund um það hverjir spellvirkjarnir eru. Vona að fullorðna fólkið sé saklaust af þeim
Skemmdarverk unnin á vinnuvélum í Helgafellshverfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ljóst að þú þekkir málið ágætlega og vona ég svo sannarlega að þeir sem frömdu skemmdaverkin náist og þurfi að svara til saka. Ég var stofnfélagið í Varmársamtökunum og var ánægð með hugmyndir samtakanna sem í upphafi snérust um fleira en að vera á móti tengibrautinni. En svo var ég tekin út af póstlistanum hjá þeim og var það ekki að minni beiðni.
Ég hef verið að lesa það sem fólk skrifar um málið í kvosinni og langar mig til að nota tækifærið og koma þessu á framfæri, en ég þekki málið ágætlega þar sem ég sit í bæjarstjórn og hef unnið að málinu.
Ég vil byrja á að taka það fram að þetta lagnaskurðamál tengist lögnum frá hverfinu sem senn rís á Helgafellstúninu. Þessar lagnir þurfa að koma hvort sem tengibrautin verður að veruleika eða ekki og er sú framkvæmd ekki háð deiliskipulaginu.
Ég vil líka nefna nokkra punkta um framkvæmdirnar fyrir ofan Álafosskvosina. Í skipulagmálum gilda lög sem bæjaryfirvöldum er gert að lúta og það hefur vissulega verið gert í þessu máli sem og haft samráð við íbúana. Bæði Helgafellshverfið og tengibrautin hafa verið á aðalskipulagi í um aldarfjórðung. Það hefur að mínu mati verið vandað til verka á undirbúningstímanum m.t.t. mögulegra umhverfisáhrifa, hámarkshraði lækkaður á tengibrautinni, brautin felld betur inn í landið og fjær Álfosskvosinnin en fyrra skipulag gerði ráð fyrir. Mosfellsbær kannaði einnig lögum samkvæmt hvort framkvæmdin væri háð mati á umhverfisáhrifum. Bæjaryfirvöld hafa í öllu fylgt leikreglum skipulagsmála og gildandi laga og stoppaði málið eftir að bæði Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra höfðu komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú niðurstaða var kærð til úrskurðarnefndar skipulags og byggingamála sem komst að þeirri niðurstöðu að ákæruatriði ættu ekki við, en taldi að samkvæmt nýjum lögum frá 2006 ætti að auglýsa deiliskipulagið með umhverfisskýrslu. Því var deiliskipulagið og framkvæmdaleyfið að 500 metra kafla tengibrautarinnar dregið til baka. Hér er hægt að sjá myndir af fyrirhugaðri tengibraut.
Það er svo annað mál hvort fólk vill láta byggja í nágrenni við sig og sérstaklega þar sem þetta svæði hefur verið landbúnaðarsvæði hingað til. En nú er komið að uppbyggingu á þessum fallega stað sem er að mínu mati eðlileg þróun byggðar, en ég tel að yfirvöld á hverjum stað verði að leita leiða til að lágmarka rask og óþægindi þeirra sem fyrir eru, en í þessu tilfelli þá verður það vart gert með því að færa veginn inn í annað íbúahverfi fjær kvosinni þar sem kaupa þarf upp fjölmörg hús til að koma tengingunni fyrir.
Nú er verið að ljúka við umhverfisskýrsluna sem auglýst verður með deiliskipulaginu eins og nýju lögin um umhverfismat áætlana gera ráð fyrir og hafa þá íbúar á svæðinu enn á ný tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Hér er samantekt um málið og m.a. um kynningar og samráðsferlið.
Herdís Sigurjónsdóttir, 17.5.2007 kl. 10:51
Takk fyrir þetta. Nauðsynleg rök fyrir málinu.
Ég var líka hlynnt þeim í upphafi og var betri helmingurinn líka skráður í samtökin í upphafi. Veit reyndar ekki betur en hann sé þar enn.
Ég er hlynnt þessum framkvæmdum og uppbyggingunni í Helgafellslandinu. Þó hávaðinn og sprengingarnar fari stundum í mínar fínustu. En ég veit að það gengur yfir.
Þar sem þú situr í bæjarstjórn væri ekki úr vegi að þú bryddaðir upp á þeirri umræðu hvernig hægt er að gera kvosina aðlaðandi, bæði fyrir okkur bæjarbúa og þá sem að koma. Hvort sem er með einhvers konar rekstri, kaffihúsi eða veitingastað. Þá er ég að horfa svolítið til Kristjaníu í því sambandi. Þar er gaman að rölta um og sýna sig og sjá aðra og einhver voða vinsæll og góður veitingastaður.
Dagný Kristinsdóttir, 17.5.2007 kl. 12:05
Heil og sæl. Já þetta er ekki skemmtilegt fyrir íbúana en slíkar sprengingar og rask er því miður óhjákvæmilegt á nýframkvæmdasvæðum. Ég bý sjálf í höfðahverfinu sem var svona þegar ég flutti þangað, en er nú orðið rólegt fallegt hverfi. Helgafellshverfið verður glæsilegt og hef ég hitt nokkra verðandi íbúa sem bíða með eftirvæntingu eftir því að flytja í bæinn.
Já varðand Kvosina sjálfa þá er búið að gera skipulag af svæðinu sem gerir ráð fyrir breytingum og töluvert meira íbúamagni en núverandi skipulag gerir ráð fyrir, en það er ekki hægt að ljúka því fyrr en tengibrautarmálinu verður lokið.
Herdís Sigurjónsdóttir, 17.5.2007 kl. 13:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.