20.5.2007 | 22:36
Mölbrotinn, pólitík og fimleikar
Ég var ekki lengi að lesa hann James Frey upp til agna.
Þessi bók er hrein snilld. Hún er mjög hrá, þ.e. textinn er beinskeittur og maður skynjar tilfinningar textans í gegnum bókina. Lýsingarnar eru þannig að í eitt sinn hryllti ég mig.....hef aldrei lent í því áður.
Hann gefur skít í ákveðna hugmyndafræði sem ölkum og fíklum er uppálagt að kynna sér. Og er enn á lífi í dag. Þessi höfundur er víst mjög vinsæll og hafa bækur hans fengið góða dóma. Ein bókin var m.a. valin í bókaklúbb Opruh vinkonu minnar.
Nú er Stella Blómkvist á náttborðinu (eða gólfinu, á ekki náttborð!). Stella er þar að rekja upp einhverja fléttu sem tengist morði í Rockville.
Ég er ekki hissa á viðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þetta var allt makkað í reykmettuðum bakherbergjum - eins og komið er á daginn. Framsóknarmenn sársvekktir. En ættu, að mínu mati, að líta í eigin barm og láta af valdgræðginni. Tjasla sér saman og mæta sterkir eftir 4 ár. Svo er bara kominn tími á sumarfrí í pólitíkinni. Held að þjóðinni veiti ekki af.
Í morgun fór húsmóðirin á einkar ánægjulega fimleika sýningu hér í sveitinni. Sonurinn er að æfa fimleika og í morgun var vorsýning Aftureldingar. Þarna voru fullt af litlum maurabörnum sem fóru í kollhnísa um öll gólf, beint, á ská, skakkt og liggur við afturábak. Hrikalega krúttileg!
Sonurinn er ekki frægur fyrir stórt hjarta. Hann stóð sig eins og hetja (að sjálfsögðu!). Skimaði um alla palla að leita að fólkinu sínu. Svo þegar hann sá okkur veifa þá birti yfir honum og hann fór af stað keikari en þegar hann gekk inn á völlinn. Hann var satt að segja greyið - skelfingu lostinn. Sem er í raun ekki skrítið því þarna voru mörg hundruð manns samankomin. Hann hefur hingað til varla þorað að syngja fyrir framan nokkra foreldra á samkomum í leikskóla og skóla.
Set inn myndir af honum á morgun. Svo fékk hann verðlaun. Ægilega stoltur.
En nú þarf húsmóðirin að fara í rúmið.Er þreytt eftir daginn og á morgun er Mjallhvítar hittingur. Þar er mikið talað og hlegið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.