Tívolí og sumarfrí

Í tívolíNú er sumarfrí fjölskyldumeðlima farið að styttast í annan endann. Sá fyrsti fer til vinnu á mánudaginn. Næsti í vikunni þar á eftir. Svo fer húsmóðirin 14. ágúst.

Í dag ákváðu foreldrarnir að fara í tívolí með rollingana. Leyfa þeim greyjunum að eiga sína stund.

Ég sá mikið eftir þessari ákvörðun!

Við mætum á staðinn og það fyrsta sem við sáum var að það voru ekki tekin kort. Heldur var bent á hraðbanka í Smáralind (sem er nú spottakorn í burtu). Á meðan betri helmingurinn hljóp í Lindina beið ég með stóðið í tívolíinu.  

Þá tók ég eftir því að planið var ekki malbikað. Það voru grófir steinar um allt planið. Svo var vindur svo rykið dreif yfir mann í hverri hviðu. Það hefði nú mátt rykbinda og aðeins létt hefla yfir planið. Þó það væri ekki nema til að barnakerrur kæmust vel yfir. Ég hafði miklar áhyggjur af barninu í kerrunni svo mikill var hristingurinn.

Hávaðinn í tívolíinu var yfirgengilegur. Eins og á góðum dansleik. Ég skyldi núna af hverju fólk í SPK er ekki að hoppa hæð sína af gleði þessa dagana.  

Síðar þegar makinn var kominn til baka úr bankanum var komið að því að fara og prófa herlegheitin.  Miðinn kostaði 100 kall. Í góðu lagi, en að sjálfsögðu kostaði marga miða í hvert tæki (eins og maður gerði ráð fyrir). Því spændust upp peningarnir á meðan þessari stuttu heimsókn stóð. 

Heildartíminn sem tók að fara í gegnum þau tæki sem lítil hjörtu réðu við hefur verið korter - 20 mín til að vera sanngjörn!

Vissulega er gaman að gera eitthvað með börnunum sínum en ég held að í framtíðinni miði ég við að gera eitthvað sem skilur meira eftir sig og er dýrmætari minning í fjölskyldualbúminu.  

___________ 

Það var svo eitt sem ég tók eftir þegar ég sat í þessu tæki sem myndin er af. 

Er einhver sem sér um að taka út öryggi tækjanna? Vinnueftirlitið t.d. Í þessu tæki sem ég fór í tók ég eftir því að örygginu virtist ekki vera sett hátt undir höfði. Rörin sem tækið flaut áfram á var ekki traustvekjandi, á jörðinni, fyrir neðan mann, lágu stauranir upp í loftið. Svo ef svo óheppilega hefði viljað til að tækinu hefði hvolft hefðum við dottið beint á staurana og stórslasast. Engin áhöld voru til að festa tækið. 2 trékubbar voru notaðir til að balansera tækið. 2 gaskútar stóðu þarna í rólegheitunum hjá stjórntækjunum. Svo stendur starfsfólkið og reykir nánast við hliðina á þeim. 

Svo líka hvernig er með þetta tívolí apparat. Þau taka ekki kort, bara pening. Hvernig er með bókhaldslega hlið málanna. Þurfa þau að sýna fram á eitthvað hér á landi? 

Ég geri ráð fyrir að tívolíið sem slíkt taki ákveðinn pening fyrir að koma til landsins. En allur aðgangseyrir fari í þeirra hlut. Það er þá ekki gefið upp til skatts hérlendis (og leyfi ég mér að efa erlendis líka). Eigum við sem vinnum okkar vinnu og borgum okkar hlut til ríkisins að sætta okkur við að erlendir "farandsalar" og tívolí starfsfólk komi til landsins vinni hér og fari burt með peninginn?

Svo er verið að handtaka eitthvað grey fólk sem gengur í hús að selja myndir og annað dót.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband