5.8.2007 | 13:43
Síðasta vikan
Nú er sumarfríi miðjubarnsins að ljúka. Hann er líflegur með eindæmum og á það til að ergja þreytta móður sína með uppátækjum sínum. Ef mamman er ekki þreytt þá má endilega reyna á hjartastöðvarnar.
Einn hlutur gerðist nú í vikunni sem reyndi á þessa stöð. Við fórum út að borða og á veitingastaðnum datt hann og fékk gat á hausinn. Fyrsta gat á haus hjá okkar börnum. Ótrúlegt en satt. En kemur ekki á óvart að hann sjái fyrir því. Það er rétt ár síðan við fórum með hann á heilsugæsluna eftir að hann flýti sér aðeins of mikið í tröppunum hér og skallaði þær. Hlaut að launum þessa fínu kúlu á ennið(ef hnullunginn skyldi kalla kúlu).
Þessi pjakkur minn er stundum líkur honum Emil í Kattholti. Það sem mér sýnist verra er að yngri bróðir hans ætlar að verða eins. Þeir hafa verið góðir hérna í vikunni að rífast og slást og arga hver á annan. Goggunarröðin er einföld, miðjubarnið er borið út úr herbergi þess elsta. Á meðan sá yngsti er borinn út úr herbergi miðjubarnsins.
Hann á það til að gala eitthvað á bræður sína og reka svo upp hrossahlátur. Ótrúlega háan miðað við stærð búksins!
Nú er þessi gormur minn að veiða með bróður sínum og pabba. Ég ætlaði að vera voða dugleg og reyna að taka til á meðan. Hef séð það nú í fríinu að það er eiginlega ekki gerandi að taka alltaf til eftir börnin, þeir rusla þá helmingi hraðar út. Ég hef því farið yfirferð á kvöldin......
Það hefur ýmislegt vakið athygli mína þessa vikuna.
Það fyrsta er þetta viðtal við fjármálaráðherra. Hvurslagt hrokagikkur er þetta? Eiga ríki og sveitafélög ekki að vinna saman? Síðan hvenær eru þetta tvær andstæðar fylkingar sem eigast við? Ég hef greinilega misst eitthvað af í þeim umræðum. Mér finnst bæjarstjórinn í Víkinni fögru bara snillingur að færa þetta fram í umræðuna og gerði það vel.
Eins fannst mér hugmynd eins föðurbróður míns stór sniðug - hvort ekki væri hægt að fá fólkið til að borga þjónustugjöld. Þessir einstaklingar sem eiga ehf. hlutafélög nýta sér þá smugu sem ríkið býður upp á. En, eins og Grímur benti á, nota þjónustu sveitafélagana, t.d. skóla, heilsugæslu og annað sem til staðar er. Þessi hugmynd um þjónustu gjöld finnst mér afar athyglisverð. Hvernig svo hægt er að útfæra hana.
Húsmóðirin fór af bæ eitt kvöld í vikunni. Það var afskaplega gott. Fór og hitti nokkrar mjallhvítar. Það er mikil hvíld að sleppa við að svæfa, skera niður perur og taka til eitt kvöld.
Það sem kom mér mest á óvart í vikunni var símtal sem ég fékk þegar ég stóð yfir grjónagrautnum eitt kvöldið. Það var afar ánægjulegt og kom virkilega á óvart. Þar var í símanum manneskja sem hafði dottið hér inn og vildi fá afnot af þessum penna á nýjum vettvangi- alveg nýjum! Ég átti ekki til orð og var smástund að ná áttum eftir það. Að sjálfsögðu samþykkti ég beiðnina og er spennt að vinna í þeim málum núna. Hvað þetta er segi ég nánar frá síðar.
Við hér í Greninu erum heimapúkar þessa helgina. Höfum ekki farið af bæ þessa helgi í nokkur ár. Fórum í gær í Smáralind og héldum að fáir yrðu þar. Það var mikill misskilningur!!
Nú er sá yngsti farinn að kvaka úti í vagni. Því segi ég yfir og út
Húsmóðirin - heimapúki.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.