15.8.2007 | 21:50
Útivinnandi húsmóðir
Nú er aðal vikan hafin og hálfnuð. Það er vikan sem ég fer út að vinna. Kallinn kominn í fæðingarorlof og er eins og Bree Van De Kamp á heimilinu. Tekur þetta alveg með trompi. Ég varð reyndar pínu pirruð í kvöld þegar við vorum að setjast við borðið, það var ekki til smjör! Ég gerði lista fyrir hann með nokkrum atriðum og eitt af þeim var að fylgjast með hvort eitthvað væri að klárast..... Held að það atriði sé eitthvað sem þurfi að skoða betur - því hann ryksugar,þvær þvotta, brýtur saman og allt það. Kannski smá atriði hjá mér.
Annars ákvað ég á mánudaginn að taka dekurdag. Panta tíma í klippingu á tíma sem mér hentar - ekki öðrum o.s.frv. Það endaði reyndar ekki vel því í klippingunni veiktist ég svona heiftarlega að ég varð að fara heim með litað hár en ekki klippt. Undir sængur fór ég með hitapoka. Náði að sofna og dældi í mig verkjalyfjum. Var orðin þokkaleg seinnipart dags svo ég dreif mig á snyrtistofuna. Lagðist svo aftur þegar lyfin hættu að virka.
Í gær var fyrsti "vinnu" dagurinn, þ.e. námskeið, ekki formleg vinna. Ég komst ekki út úr rúmi fyrr en ég var orðin ansi sein. En lét mig hafa það - ekki smá lítill mórall að melda sig veika fyrsta daginn. Fór svo til læknis í gær og er kominn á sterkan sýklalyfjakúr.
Í dag var ég öllu brattari og fór bara hress í vinnuna (díses..... "fullorðinslegt" orð). Var ekki með hnút í maga en leið eins og feimnu barni í afmæli. Þekkti ekki neinn og vissi ekki alveg hvað ég átti af mér að gera. svo fór það skánandi þegar ég hitti aðra sem var líka byrja og þar með þekktum við báðar eina manneskju!! Alls konar fundahöld voru í dag og ég fékk stofuna. Líst bara rosalega vel á. Stofan er fín, með skjávarpa og klósetti (sem er munaður!). Samstarfsfólkið virðist rosalega fínt. Svo ég er bara mjög glöð og hamingjusöm með þetta.
Ég er alveg ekta "karlmaður" þegar ég kem heim úr vinnu, í hreint hús, þvottur á snúrunum og hendi mér í sófann og horfi á Dr. Phil......
þangað til næst
húsmóðirin (ég þyrfti kannski að finna nýja undirskrift).
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.