20.10.2007 | 22:09
Langur tími er liðinn og margt gerst
Það eru nokkrar vikur síðan ég leit hér við síðast. Kennarastarfið tekur mest af orkunni og börnin mín rest. Því hef ég ekki orku til að setjast niður og semja einhverja pistla um daginn og veginn. Mér hefur þó oft dottið ýmislegt skondið og skemmtilegt í hug sem er að sjálfsögðu gleymt og grafið núna.
Það styttist í vetrarfríið, en það hefst næstk. fimmtudag. Það verður kærkomið frí. Ég verð heima fyrir með elsta stubbinn, en hann er í fríi líka. Ég þykist ætla að skúra,skrúbba og bóna ásamt því að rölta Laugaveginn og fara í laaaanga göngutúra. Ég hefði aldrei trúað því hvað maður saknar þess að hreyfa sig, labba úti í góðu veðri hér í dalnum og skoða fellin.
Yngsti stubburinn fagnaði eins árs afmælinu 3.október. Þetta ár hefur liðið ansi hratt. Ég var hálf klökk og bjóst nánast við gráum hárum þann daginn. Honum er alveg sama, var feiminn við gestina - en vildi fá að borða af þeirra diskum. Hann er matmaður með eindæmum.
Fyrir viku síðan ákvað ég að fara í sjónmælingu. Er búin að vera í allt haust illt í augunum, pínu í hausnum og fannst alltaf eins og ég væri þreytt. Svaf og svaf en samt breyttist þessi tilfinning í augunum ekki. Ég datt inn með yngsta stubb í fanginu, mæld í hvelli. Maðurinn leit á mig ósköp rólega og spurði hvort ég sæi ekki illa. Ég leit á hann og bara júúúu´, sko eiginlega. En er alltaf þreytt í augunum, skil þetta ekki alveg. Hann sagði það ekki skrítið, því ég væri fjarsýn með mismunandi styrk á augunum og sjónskekkju. Augun voru því alla daga að reyna að stilla sig inn á góða sjónvídd. Ég dreif mig og mína í þessa búð svo á síðustu helgi og labbaði út hálftíma síðar með gleraugu. Ferlega skrítið. Þessar brillur mínar hafa vakið mikla athygli, ungarnir mínir í skólanum þurftu að fá söguna í smáatriðum á mánudaginn
. Og töluðu reglulega um það að það væri skrítið að sjá mig við kennaraborðið með gleraugu.
Það er einn galli að fá svona dót, ég gleymi þeim heima þegar ég er komin í vinnu. Þegar rignir sér maður allt í einu ekki út, ég get ekki opnað pottana lengur, nema taka þau af. Þá sé ég akkúrat ekki neitt og maturinn brennur við. Svo er aðal gallinn sá að þetta er ekki ókeypis og kennaralaunin duga varla fyrir svona gripum. Ég ætla ekki út í kjaraumræður og kennaralaun. Er búin að ákveða að vera jákvæð (eftir MIKLA niðursveiflu um síðustu mánaðamót), fyrirvinnan mín borgaði hins vegar brúsann.
Byrjað er að byggja viðbygginguna hér í Greninu. Sökklar og platan komin, timbur mætt á svæðið í veggi og loft. Vonandi verður komið upp fokhelt hús hér eftir viku eða tvær.
Ég þarf að passa mig núna þegar ég kem úr sturtu því karl eða tveir gætu verið á glugganum að smíða.....
Í dag þurfti kennarinn að fara aðeins í Rúmfatalagerinn (alltaf í vinnunni)... ákveðið var að fara í Smárann. Snilldar hugmynd - not! Held að allir Reykvíkingar og nærsveitamenn hafi fengið þessa sömu hugmynd. Ástæðan var einföld - Toys ´R´Us! Sá elsti var súr og til að múta honum buðu foreldrarnir smá heimsókn í þetta fyrirbæri. Það voru mikil mistök, þarna fór út geðheilsa foreldranna næstu tvær vikurnar...... mannmergðin og hávaðinn var yfirgengilegur. Helst hefði ég viljað labba út, en þegar við sáum (á leiðinni út) að röðin var ekki til &%$%&/(/ þá fengu pjakkarnir að kaupa einn bíl á mann. Þarna fer ég ekki ótilneydd aftur nema kl 10 á virkum degi!!
Þó það hafi verið rólegt í Rúmfó var geðheilsan farin og ekki skánaði skapið þegar jólasveinar mættu okkur þar!! Er ekki alveg örugglega 20.október. Held að ég hafi farið öfugu megin fram úr rúminu í morgun.
Annars mun ég gera afspyrnu skemmtilegan hlut í nóvember. Ætla ekki að segja um hann fyrr en ég er búin að láta vita á ákveðnum stöðum, en það tengist ekki blaðaskrifum eða svoleiðis!
Nú er ég orðin ansi framlág, búin að skoða námsefni á netinu í allt kvöld. Á vaktina í fyrramálið (örugglega afspyrnu snemma) og ætla að skríða í rúmið með eina rauða sögu......
kv. húsmóður kennarinn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.