28.10.2007 | 21:24
Vetrarfrí
Þessa dagana er ég í vetrarfríi. Munaður kennarans? Ég veit ekki. A.m.k. er þetta ósk meirihluta foreldra í Mosfellsbæ, svo skólarnir hlíta því. Ég er samt fegin að fá þessa þrjá daga. Veitti ekki af. Hef notið þess í botn að hugsa ekki um vinnuna, náði að vinna allt upp svo ég gæti verið í fríi. Kíki helst ekki á vinnupóstinn og spái lítið í skólamálum. Hitti nú reyndar ungana mína alls staðar í bænum, einn skaut næstum fótbolta í mig fyrir utan íþróttahúsið á föstudaginn, aðrir tveir voru á pizzastaðnum sem ég fór á og tveir eru með öðrum syninum í fimleikum. En það er bara gaman að hitta þau fyrir utan skólann. Held að það sé meðmæli með manni að þau heilsi manni.
Það hefur ýmislegt verið gert þessa frídaga, ég hef farið í IKEA (í fyrsta sinn á þessu ári). Hitti þar sjaldséðan hvítan hrafn. Afskaplega gaman að hitta hann (þú veist hver þú ert!). Við spjölluðum lengi og mikið. Svo er búið að taka til í fötum fjölskyldunnar og leyfa fátækum í útlöndum að njóta þess sem við viljum ekki nota lengur. Einnig hef ég aðeins kíkt á eldhús innréttingar, en nú fer að styttast í að við verðum að taka ákvörðun um svoleiðis. Þrifin hafa líka fengið sinn skerf, en aðal skerfurinn af því verður á morgun.
Eitt barnið er svo tillitssamt að vera með hita og verður því heima á morgun. Um að gera - þá þarf ekki að nota veikindadag barns. Hann fær, greyið,reyndar hita einu sinni í mánuði, svo við erum hætt að kippa okkur upp við þetta.
Annars fékk ég senda yndislega mynd af mér, sennilegast tekin haustið ´94. Held svei mér þá að ég lít betur út núna en þá!!
Sá að ég er í rauðu dúnúlpunni sem ég átti. Þessi rauði litur fylgir mér eins og skugginn. Einn daginn mætti ég í vinnuna í einhverjum öðrum lit. Einn strákurinn leit á mig og sagði " hvað ertu ekki í rauðu, þú ert alltaf í rauðu"! Ég varð hálf hvumsa og vissi ekki alveg hvernig ég átti að svara þessu. Fannst þetta yndislegt.
kv. húsmóðirin
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.