20.12.2007 | 21:43
Jólafrí og jólastress og jóla.....
Það er ekki hægt að segja annað en að desember hafi gengið ansi hratt yfir.
Ég er komin í jólafrí, ótrúlegt en satt. Ég man þegar ég sat í ágúst í stofunni minni í skólanum og taldi mánuðina í jólafríið!
Ég er farin að skilja þetta jólastress sem fólk talar um. Þegar ég horfði á Spaugstofuna á laugardaginn minnti Örn mig á sjálfa mig. Allt tilbúið, en samt átti eftir að gera allt!
Þessi undirbúningur er soldið mikill pakki. Maður er í fullri vinnu, með 3 lítil börn, þarf svo að baka, skrifa jólakort, kaupa gjafir, þrífa, pakka inn o.s.frv. Ásamt því að sjá um daglegt heimilishald.
Hvernig fer fólk að þessu án þess að fara yfir um?!
Ég hef síðustu viku lært margt sem ég get nýtt mér á næsta ári. Látið gera kortin fyrir mig hjá Hans Petersen, keypt smákökurnar tilbúnar hjá honum Jóhannesi í Bónus, fengið konu til að þrífa. Svo held ég svei mér að það séu til jólagjafa ráðgjafar. Spurning um að fá þær til að redda gjöfunum!
Annars hef ég mikið pælt í vinnunni minni. Hugsað til baka og velt fyrir mér upphafinu og nú í dag. Í ágúst var ég dauð stressuð man ég. Svitnaði eins og svín. Voða fín í pilsi, máluð og í of háum hælum. Þið vitið - maður gengur eins og önd, farinn í mjöðmum og baki! Gleymdi helmingnum af því sem ég ætlaði að segja krökkunum og gat varla horft á foreldrana, man ekki enn hverjir komu með börnunum sínum!
Svo fór þetta að sjóast. Ég gat farið að mæta í tíma og tíma án undirbúnings, þ.e. öryggið fleytti manni aðeins af stað.
Það sem ég er hins vegar ánægðust með í dag eru foreldrarnir. Þau standa ótrúlega vel með mér, allir svo jákvæðir og samvinnufúsir. Jafnvel þeir sem halda mér á tánnum og vilja allt það besta fyrir börnin sín. Ég get ekki neitað því að ég hef gert margt til að efla þessi tengsl og hef, að ég held, tekist vel upp.
Annars ætla ég ekki að pæla í vinnunni næstu 2 vikurnar. Heldur horfa á verkefnalistann og reyna að vinna á honum...
Eitt veit ég - jólin koma án þess að eldhúsið sé þrifið
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.