29.12.2007 | 14:40
kennarinn....
Annars fékk ég athyglisverða spurningu um jólin. Það var verið að ræða skólamál,starfsdaga og frí í skólum. Spurt var hvort kennarar þyrftu nokkuð á mörgum starfsdögum í einu að halda. En svo virðist sem skólar á höfuðborgarsvæðinu byrji almennt á bilinu 7.-8. janúar. Ég varð hálf klumsa við spurningunni og finnst hún lýsa mjög vel því að fólk veit almennt ekki hvað felst í því að vera kennari. Annað en að fara með krökkunum í gegnum bækur og kenna þeim að skrifa og reikna.
Ég er kennari í 96% starfi. Kenni 24 tíma á viku (26 tímar er full kennsla, en ég fæ eina stund í afslátt þar sem ég er nýliði, svo minnkaði ég við mig um eina stund). Hver kennslustund telur sem ein klukkustund, þar sem 40 mín er kennslan og 20 mín í undirbúning. Það segir sig sjálft að ef þú ætlar að kenna svo vel sé, duga ekki 20 mínútur til að undirbúa kennslu. Búa til verkefni,próf, fara yfir vinnubækur, finna ítarefni og svo mætti lengi telja. Hvað þá að horfa á fræðslumyndir (sem skynsamlegt er að gera, svo maður geti svarað spurningum nemenda).
Eftir að kennslu lýkur á daginn er ég sem sagt í því að búa til verkefni, fara yfir próf og vinnubækur o.s.frv. Ásamt því að sitja fundi með öðrum aðilum vegna nemenda, senda tölvupósta og svara. Setja um nemendur inn í Mentor, sem heldur utan um mál nemenda. S.s. mætingu og hegðun í skólanum.
Ég er yfirleitt búin að kenna um kl 13 og hleyp út úr skólanum 15.45 til að ná í börnin á sínar stöðvar. Oftar en ekki fylgir mér poki með heimavinnu og verkefnum sem þarf að fara yfir, þar sem tíminn leyfir ekki að ég fari yfir þá hluti í vinnunni.
Ég yrði því alsæl ef skóladagatalið hjá mér væri uppsett þannig að ég næði 2 starfsdögum í röð. Þá næði ég að vinna mér í haginn þannig að pokinn góði væri eftir í skólanum í nokkrar vikur.
Svo fær maður að heyra að maður fái svo gott sumarfrí. Vissulega fáum við það. Við vinnum það af okkur yfir veturinn, svo ekki erum við að fá það af góðmennskunni einni saman.
Ég er farin að svara þessari sumarfrís spurningu með annarri - Viltu skipta um laun
Athugasemdir
Ágæta Dagný. Þessi umræða hefur ekkert breyst í 30 ár. Grunnskólakennarar (einna stétta, sbr, alþingismenn, leikarar, slökkvilið etc.) þurft ætíð að sanna það að þeir vinni vinnuna sína. Fyrir ári kostaði stéttarfélag þitt bækling inn á hvert heimili til að útskýra vinnutíma sinn. Augýsingarherferð fylgdi á eftir. Svipað var gert fyrir 25 árum. Þegar grunnskólakennarar fara í verkfall er það pössunarverðmætið sem almenningur sér. Samúðin með stéttinni nær að buddunni. Það eru hvorki horfur á því að til átaka komi né veruleg kjarabót fáist á næsta ári fyrir þessa stétt. Reyndar spái ég því að hugmyndir um víðtækara samstarf kennara og samráð verði tónninn í viðsemjendunum. Ef til vill er þetta ekki uppörvandi fyrir mig á hinum endanum að slá svona inn og vonandi vara nær hálfrar aldar nöldur. Vonandi hef ég ekki rétt fyrir mér. Megi næsta ár verða þér gott starfsár.
Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 15:23
Sæl frænka.
Gott að vekja máls á þessu. Aftur á móti langar mig að leiðrétta eitt. Kennarar vinna ekki af sér sumarfrí. Þeir vinna af sér jóla-og páskafrí með því að vinna rúmlega 42 klst. á viku í fullu starfi yfir skólaárið. Inn í sumarfríið á svo að koma endurmenntun sem skólar eru reyndar farnir að nýta meira á skólaárinu og þá utan vinnuramma.
Kv. að norðan....
Valdimar (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 21:22
Takk frændi - um að gera að leiðrétta mann. Ég hef ruglað saman þessum vinnuramma skyldum. Enda varla fyrir hvítan mann að skilja þetta allt saman.
Nú þekki ég alþingisstarfið aðeins. Ósýnilegi hluti starfsins er ótrúlega drjúgur. Þá er ég að tala um eeeendalaus símtöl, svara tölvupósti, skrifa greinar og tala við fólk, svo dæmi séu nefnd. Þetta er það sama með okkur kennarana.
Hvað varðar bæklinginn sem Gísli nefnir, þá var ég ekki par hrifin af honum (eins og hugmyndin sem slík er sniðug). Fannst hann ekki nógu vel unnin til að sýna fram á um hvað kennarastarfið snýst.
Ég er alveg sammála þér Gísli, er ekki viss um að eitthvað breytist á næstu árum. Tel nokkuð ljóst að ekki verði verkfall, frekar að fólk hætti og fari annað. Svo ekki tek ég þessu sem nöldri.
Dagný Kristinsdóttir, 30.12.2007 kl. 21:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.