3.4.2008 | 21:41
Annasamir dagar
Það hefur margt á daga mína drifið síðan ég kíkti hér við síðast.
Um páskana fórum við vestur á firði. Þar var hátíðin Aldrei fór ég suður, skíðavikan og víkin fagra sem heilluðu. Í fyrsta sinn í 10 ár fór ég á skíði og komst að því að formið á bodíinu er ekki gott. Lærin á mér hreinlega brunnu í fyrstu ferðinni...... Ég skil ekki alveg hvernig stendur á þessu slappa ástandi. Ég labba upp og niður svona 15 tröppur OFT á dag.... drekk mitt kók og fæ mér stundum súkkulaði með. Labba út í bíl og keyri um bæinn að sækja börnin, fara í búð, fatahreinsun,bókasafnið og annað sem þarf að skutlast. Svo ég skil þetta hreinlega ekki.
Víkin fagra var falleg heim að sækja... nema á skírdag, þá sáum við ekki á milli ljósastaura á leiðinni úteftir.
En aðal málið er hátíðin aldrei fór ég suður. Frábært framtak hjá þeim feðgum. Það var gaman að troðast í skemmunni og drepast úr hávaða, færast með mannfjöldanum, og rekast á vini og vandamenn sem maður hefur ekki séð í ár og öld. Hápunkturinn hjá mér var sjálfur Mugison og hljómsveitin Hraun. Þar fór góðvinur okkar Jón Geir hreinlega á kostum. Eins og hann er rólegur maður að eðlisfari - þá greinilega umbreytist hann á sviðinu. Svo hitti ég að sjálfsögðu nemendur mína, sem voru að upplifa alvöru rokktónleika!
Hins vegar var svolítið önnur ásýnd á bænum en hefur verið á meðan skíðavikan ein var til staðar. Ef maður rölti út á laugardögum mætti maður fjölskyldufólki á leið í bakaríið og svo á skíði. Núna mættum við draugþunnum (eða ennþá fullum) hátíðargestum. Sem annað hvort voru ekki sofnuð eða rétt að vakna eftir stuttan svefn.
Vinnan kom of snemma.... hefði viljað fá einn dag í viðbót. En það þýðir ekki að tala um það. Nú er loka spretturinn og France er í augnsýn. Alls konar próf og fundir í gangi núna.
Vorið er að koma í Greninu. Ég þarf að fara að drífa mig út að hreinsa beðin og gera vorverkin.
Ég var búin að heita mér alls konar dugnaði með vorinu, hreyfa mig meira, vera betri við börnin (og manninn!)..... en eitthvað stendur á þessu. Ég er nú sæmileg við börnin held ég (og jafnvel manninn líka) en þetta með hreyfinguna er eitthvað erfitt í framkvæmd. Ég er þó komin í gönguhóp Mosfellsbæjar, og rölti ég með Höllu Heimis upp um fjöll og dali..... þegar ég kemst
Alla veganna ætla ég að standa við eitt. Að drífa mig í sund eftir vinnu - svo ég verði ekki hvítust í Frakklandi!
Farin í bólið....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.