Bónus ferð!

Eftir vinnuvikuna var ég afspyrnu andlaus og þreytt. Hefði helst viljað fara heim að leggja mig. Enda framundan erfið helgi. Allt að þrífa, Skoppa og Skrítla á morgun, ásamt afmæli húsmóðurinnar. En á sunnudag fyllir hún einn tug og tekur á móti öðrum.

Þess vegna var á dagskrá dagsins að fara í Bónus á leið heim úr vinnu. Þegar ég gat ekki haldið augunum opnum lengur yfir verkefnum vinnunnar dreif ég mig af stað.

Galvösk (eða svona næstum) mæti ég í Bónus með lengsta innkaupamiða sem sögur fara af. Tek með mér kerru og byrja að raða í hana. Sýrður rjómi, beikon ostur, rifinn ostur, mjólk, jógúrt o.s.frv. var sett í af miklum móð. Þegar ég er loksins komin að gosinu sé ég að það kemst ekki í kerruna.... Ókei hugsa ég - kaupi það á morgun. Áfram hélt ég, snakkið, servíettur (því einhverju verður fólk að þurrka sér á), smá nammi, tortillur og fleira bættist í hópinn. Þegar kúfurinn á körfunni var orðinn það hár að fólk í námunda við mig tók smá sveig og horfði á kerruna ákvað ég að þetta væri orðið gott. Því næsti hausverkur var að koma þessu á bandið,borga og bera út í bíl.

Þegar ég ýti (helvíti þungri) kerrunni að bandinu og er byrjuð að raða upp á bandið sé ég að systir mín stendur við hliðina á mér og horfir stórum augum á hrúguna.

Fegin fæ ég hana til að raða á bandið svo ég geti sett í kassa (já kassa!) og poka. Svo ég teppi ekki kassann fram á kvöld. Eftir langa mæðu (fannst mér!) var allt komið framhjá afgreiðsludömunni og tími til kominn að borga. Stelpan sýnir mér gluggann (kann örugglega ekki svona stórar tölur) og brosir hálf vandræðalega. Mér verður svo mikið um að ég fer að hlæja. Hún horfir þá stórum augum á mig og spyr - max max?! Sem útleggst sem það mesta sem þú hefur borgað. Hlæjandi kinka ég kolli og segi já..... En upphæðin hljóp á tugum þúsunda.

Þegar búið er að púsla vörunum í kassa, poka og tvær kerrur er komið að því að drífa góssið út í bíl. Systirin fékk það hlutverk að ýta annarri kerrunni. Og saman dröslum við matnum í skottið. Þá var tvennt í stöðunni. Átti ég að fara aftur inn og klára..... eða átti ég að fara heim að pissa.

Mér fannst mikilvægara að fara heim og pissa..... því gosið, pestóið og brauðið verður líka til staðar á morgun.

En mikið svakalega var þetta gaman. Svo hér með tek ég að mér stórar Bónusferðir - ef þú borgarSmile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband