21.4.2008 | 21:12
Fertugsaldurinn....
Er kominn til mín.
Honum var tekið fagnandi, með smá þjófstarti, á laugardagskvöldið. Ég sagði vinum mínum að ég væri örugglega sú eina sem byði hann velkominn og væri bara spennt. Hins vegar fann ég daginn eftir að aldurinn væri að færast yfir, því ég var svo þreytt í gær að það hálfa væri nóg. Og LÍKA í dag... hefði þurft frí í vinnunni til að jafna mig.
Ég hef tröllatrú á fertugsaldrinum. Trúi því að það besta sé að byrja. Ég er farin að sjá út úr smábarna pakkanum sem hefur fylgt mér síðustu 4 ár, stanslaust. Og meira og minna síðustu 9 ár. Það þýðir að ég hef meiri tíma fyrir mig sjálfa og get leyft mér að draga fram saumadótið að nýju.... Eða byrjað að hreyfa mig reglubundið..... hmmm... Hef alltaf talið mér trú um að ég hafi ekki tíma í það.
Ég hef ákveðið að setja mér markmið sem ég ætla að ná á næstum 10 árum (um að gera að hafa þau opinber!). Nota bene eru þetta markmið næstu 10 ára og því munu þau koma HÆGT í framkvæmd .
Ég ætla að fara í líkamsrækt og byrja að hreyfa mig reglubundið. Ná af mér fæðingarskvapi.. og styrkja magavöðvana svo ég geti verið í flegnum bolum og stuttum pilsum (eru það ekki örugglega í tísku hjá konum á fertugsaldri!!).
Ég ætla að hugsa meira um útlitið. Er farin að færa mig upp á skaftið í þeim efnum. Fer reglulega í klippingu og litun og á snyrtistofur. En þarf að huga að fatnaðinum meira, vil vera skvísulegri til fara (erum við ekki skvísur á fertugsaldrinum!)..... Og kveðja þreytta húsmóður útlitið, íþróttabuxurnar og taglið í hárinu, ásamt morgunmat barnanna á peysunni.
Ég ætla að hugsa um sjálfa mig andlega líka. Styrkja sjálfið og hlú að innri hliðinni. Það fyrsta sem ég get gert þar er að gefa sjálfri mér tíma og hætta að ergja mig á smámunum. Ásamt ákveðnu prógrammi sem ég ætla að stunda.
Það mun örugglega bætast meir á þennan lista. En svona lítur hann út í dag.
Ég vil þó taka það fram að ég hef engin grá hár fundið........ Og fyrir nokkrum vikum síðan sá ég nauðsyn þess að eiga sléttujárn! Hef verið síðustu vikur í æfingarbúðum hárblásara og sléttujárna. Er orðin voða flink.. öðru megin. En hin hliðin hlýtur að koma fyrir rest.
Annars segi ég bara við vini mína og fjölskyldu, takk fyrir mig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.