2.7.2008 | 21:38
Fröken skipulögð.
Var búin að skrifa heljarins færslu, rak mig í takka og allt hvarf.
Alla veganna er ég í sumarfríi. Kennari í fríi - þá fær bloggið frí.
Maí var erfiður hjá mér, miklu erfiðari en ég átti von á. Hélt að þetta væri ekki mikið mál, semja nokkur próf, fara yfir og gefa einkunnir. Ég fór í fríið gengin upp að öxlum. Beina leið hélt ég til Spánar og Frakklands með skólanum í skólaheimsóknir og kom heim ekki mikið minna þreytt. Ferðasagan kemur einhvern rigningardaginn.
Hins vegar höfum við átt erfiðan dag hér í greninu. Við ákváðum í síðustu viku að auglýsa gamla eldhúsið okkar á "virtum" vef þessa lands. Settum inn auglýsinguna seint um kvöld og 18 tímum síðar var hún seld. Aaaaaðeins fyrr en við gerðum ráð fyrir. Því þurfti að spýta í lófana að klára nýja eldhúsið og hefur betri helmingurinn verið nótt og dag að klára það.
Í dag hefur því verið mikið að gera hjá okkur, smiðir til að klára þakkantinn voru hér, ásamt pípara til að tengja nýja eldhúsið og kaupandinn að innréttingunni til að taka hana niður.
Mitt hlutverk var að rýma gamla eldhúsið og flytja dótið yfir í það nýja. Framan af var þetta bara gaman.
Ég komst að því að ég stend mig vel sem innkaupastjóri heimilisins. Ekki mikið sem var útrunnið sem þurfti að henda. Hinsvegar stend ég mig afspyrnu vel í að huga að því að sumir hlutir séu örugglega til. Veit ekki alveg hvað ég hef við 7 dósir af niðursoðnum tómötum að gera, eða 4 dósum af tómatpúrru!
Framan af gekk þetta hratt og vel. Hins vegar er gamla innréttingin stór og skenkur sem fylgir henni. Því nóg pláss fyrir alls konar dót og drasl til að safnast saman án þess að eftir sé tekið. Því komst ég að í dag!
Samviskusamlega fer ég þrisvar á ári og hendi ofan af háaloftinu. En hef greinilega bara hreinsað "frontinn", því það sem leyndist í skenknum var svo mikið að mér féllust alveg hendur. Og horfði ég máttvana á alla hrúguna og velti fyrir mér hvernig í ósköpunum ég ætti að koma öllu fyrir. Svipurinn á mér var víst svo ráðvilltur að betri helmingurinn hló mikið að mér.
Þarna voru margir margir blómavasar (ekki hendi ég þeim, Haukur gefur mér blóm einu sinni á ári!). Kerti í kassavís í öllum regnbogans litum og mis mikið brennd (get reyndar sent það á Sólheima eða tekið mér rúnt). Servíettur í tuga (ef ekki hundraða vís) úr mörgum afmælum, dúkar, hnífaparasett (í fleirtölu), plastdiskar og glös, myndir - sem eiga að fara upp á vegg, alls konar bréfa drasl. Og síðast en ekki síst ein eplasnafs flaska (sem dæmist á Flétturima gengið). Með þessari upptalningu dreg ég aðeins úr hlutunum. Þarf alveg sér færslu í þetta.
Ég var alveg ráðþrota með þetta allt, svo ekki var að bæta það að ekki kom ég fyrir öllum vínglösunum, sparistellinu og skálunum. Því var tekin sú ákvörðun að hrúga inn í okkar herbergi og loka, og setja restina upp á loft. Skammtíma lausn ég veit. En á þessum tímapunkti var ekkert annað í stöðunni. Ég læt þetta bíða morgundagsins og ákveð þá hvað ég geri. Það er hins vegar nokkuð ljós að ég þarf að heimasækja hið sænska IKEA til að kaupa innvols í innréttinguna og því mun ég skoða veggskápa í leiðinni.
Við skötuhjú erum þreytt eftir daginn, en við skilum góðu dagsverki, þakkantur búinn, innréttingin farin, nýja komin upp og við hentum teppi á eldhúsið. Því næsta verk er að taka flísar af gólfinu og því má ekki flísaleggja eldhúsið til að fá allt gólfið í sömu hæð. Vonandi gerist það sem fyrst - a.m.k. áður en við missum dampinn.
Hins vegar er mín uppgötvun á sjálfri mér skuggaleg. Ég hélt að ég væri svo skipulögð!! En það sem var í skápunum felldi hana og það harkalega. Þetta verður örugglega framhaldssaga!
Ég er farin í bólið
Athugasemdir
Mér sýnist þú sverja þig í ættina, mín kæra. Sofðu rótt.
Kveðjur til ykkar allra
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 2.7.2008 kl. 22:43
Já svei mér, frænka, ef þetta eru ekki Stekkjarflatagenin að minna á sig. Mig minnir að ég hafi stundum ranghvolft augunum yfir henni og skápunum A.m.k. held ég að amma hafi setið og hlegið að mér!
Kveðja til ykkar sömuleiðis.
p.s. er svo ekki enn farin að sofa, er búin að sitja og dáðst að nýja eldhúsinu
Dagný Kristinsdóttir, 2.7.2008 kl. 23:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.