21.8.2008 | 22:32
Hasarinn byrjar á morgun.
Ég naut friðarins í morgun í vinnunni. Því á morgun er friðurinn úti á göngum skólans. Ef hægt er að orða það þannig. A.m.k. er mikill asi á göngum skólans þegar allir 670 nemendurnir rölta þar um. Mis hratt og mis hljóðlega. Held að ég sé spenntari að hitta krakkana en þau mig!
Það verður notalegt að koma öllu í rútinu, börnin fara fyrr að sofa og vakna vonandi ferskari en þeir hafa gert undanfarnar vikur.
Ég hef átt ansi erfitt með sjálfa mig undanfarnar tvær vikur. Einn strákurinn hjá mér er morgunsvæfur og fúll með eindæmum (dæmist á einhver Stekkjarflatargen). Hann hefur vælt og volað, nuddað og tuðað frá því hann vaknar og þar til honum er skilað á leikskólanum.
Í gær tók nú steininn úr. Við vorum tilbúin kl 8.15 að fara út á leikskólann (sem er met!). Það var gott veður og ég var búin að ákveða að hjóla í vinnuna. Þá tók sá í miðið eftir sprungu á plastinu á hjálminum. Og byrjaði að gráta og gráta og gráta og gráta. Ég var þá búin að festa hjálminn á hausinn á mér og þeim yngsta, með bónus poka á stýrinu (með auka fötum) og setja þann yngsta í stólinn. Og sá í miðið baulaði og baulaði. Úti í garði baulaði hann i 20 mínútur. Hann vildi ekki hjóla og vildi ekki neitt. Ég reyndi allar leiðir til að rökræða við barnið en ekkert gekk.
Þá varð mér hugsað til nýlegs dóms Héraðsdóms norðurlands vestra þar sem maður var sýknaður af því að hafa danglað í börn...... Hvaða foreldri hefur ekki verið við það að missa það og langað mest til að flengja barnið sitt... .... Ég skal vera fyrst til að rétta upp hendi!!
Allaveganna baulaði barnið og var orðið rautt og þrútið í framan. Eftir langt tuð og bænanöldur móðurinnar fékkst stráksi til að leiða hjólið yfir götuna. Og þar byrjaði nýtt streð. Hann neitaði að hjóla -ég átti að ýta honum. Það var ekki í stöðunni, þar sem ég var með einn aftan á. Þetta leysti ég með því að hjóla 2 metra ýta honum 2 metra o.s.frv. Og við það að missa það. En þegar við vorum komin langleiðina út götuna fór hann að hjóla af stað með fýlusvip, tár í augum og hor í nebba. Út á leikskóla komumst við hálftíma eftir að við lögðum af stað að heiman, leiðin tekur vanalega 3 mínútur. Þegar ég svo hjóla frá leikskólanum hringi ég í betri helminginn og hvæsi á hann að hann verði að fara með strákana á morgun (í morgun) því ég geti þetta ekki. Hann, mér til MIKILLAR gremju, skellihló í símann. Og sagðist tala við mig seinna (sem hann og gerði þegar mér var runnin reiðin).
En ég vil taka það fram að við sonur minn erum miklir vinir núna og hann fór í góðu skapi á leikskólann í morgun
Athugasemdir
Guð hvað ég er sammála þér, hvað þetta getur tekið á taugarnar þegar þessar elskur taka sig til. Ég á einn þriggja ára gaur sem er þrjóskari en ég sjálf og þá er nú mikið sagt. En það er gott að þau hafa sinn eigin vilja, þá bjarga þau sér í framtíðinni.
Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, 23.8.2008 kl. 14:40
Hahahah ég hefði líka hlegið En ég rétti líka mjög fljótt upp hönd!!!
Dagmar (IP-tala skráð) 29.8.2008 kl. 16:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.