18.11.2008 | 21:22
ABBA
Þegar ég var yngri átti ég ömmu og afa sem bjuggu langt í burtu (miðað við Bolungarvík, nafla alheimsins!). Þau voru öðruvísi afi og amma, að mínu mati byggði afi Perluna (með berum höndum!) en það var ekki alveg svoleiðis, heldur var hann hitaveitustjórinn og kom að verkinu svoleiðis. Amma mín var, að mínu mati, stórskemmtileg kona, sem átti nammi í fötu og talaði rosalega mikið og hátt. Var alltaf að flýta sér og hefur örugglega verið góðkunningi lögreglunnar í hraðasektum mælt (veit þá hvaðan hmm hmm hefur það)!
Þau höfðu gaman af veislum og að vera í kringum fólk. Amma hafði engan áhuga (eða tima) í að baka eða prjóna. Þannig að hún keypti bara kökurnar.
Þessi mikilvægu einstaklingar í mínu lífi kvöddu þennan heim fyrir 8 árum með nokkurra mánaða millibili. Á þessum tíma var annað erfitt tímabil í mínu lífi og því enn erfiðara fyrir mig að höndla alla sorgina (en hún var í raun margföld).
Það er svo skrítið þegar maður gengur í gegnum svona tímabil hvað litlir hlutir skipta miklu máli.
Amma mín var ABBA aðdáandi. Og var m.a. eitt lag þeirra spilað í jarðarförinni.
Ég hef alltaf haft gaman af ABBA. En á meðan þessu tímabili stóð gat ég ekki hlustað á ABBA án þess að hreinlega bresta í grát. Hvað þá lagið sem var spilað í jarðarförinni. Það gat ég ekki hlustað á í mörg ár.
Í sumar fór ég á Mamma Mia og óvænt þurfti ég að þurrka tárin í loka atriðinu því þar var jarðarfarar lagið komið.
Fyrir rúmri viku síðan fór ég á ABBA showið sem var í Valsheimilinu. Allan tímann var hugurinn hjá ömmu, sérstaklega þegar lög voru sungin sem ég vissi að hún hélt upp á.
En það sem mér fannst gaman að sjá hversu margir úr minni fjölskyldu voru komnir á showið og allir örugglega hugsað til kellu á einum eða öðrum tíma á showinu.
Afi og amma voru fólk sem maður minnist með gleði. Og er ég voða fegin að ég get nú í dag hlustað á ABBA og glaðst, sungið með og séð kellu fyrir mér við hliðina á mér að taka snúning. Að ég tali ekki um veiðistöngina sem hefur fengið að rykfalla í bílskúrnum, hana hef ég ekki getað snert í nokkur ár. En kúnstina að veiða lærði ég hjá þeim. Nú í sumar gat ég tekið stöngina fram, strokið henni og hugsað - jú nú byrja ég aftur.
Þannig er lífið svo skrítið. Maður fer í gegnum eitt skeið og annað tekur við. Sorgin gengur yfir, örið situr eftir - en minningarnar verða fallegri og fallegri, dýrmætari og dýrmætari.
Voðalega er ég djúp í kvöld
Athugasemdir
Nú féllu tár,frænka litla. Yndsilegt að lesa þínar minningar um þau bæði og áhirf ABBA á fjölskylduna. Afi þinn hafði lúmskt gaman af þessari tónlist líka, átti reyndar sitt uppáhalslag sen æu nefnir úr jarðaför ömmu þinnar.
Það er gott að þessum erfiða kafla er lokið hjá þér mín kæra. Ég hef ekki enn treyst mér á sýninguna. Nú muntþú njóta ABBA og þess að veiða. Það verður ljúft að ylja sig við miningarnar og brosa út í annaðmeðglampa í augum. Amma þín var dugleg við það á meðna afi þinn brosti í kampinn og hugsaði þess meira.
Takk fyrir að deila þessum hugsunum þínum með okkur hinum, tusund tak
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 19.11.2008 kl. 23:27
Njóttu þess. Ég er líka ægilega fegin að þessi kafli er búin! Vil aldrei aldrei endurtaka hann...
Farðu vel með þig.
kv. Dagný
Dagný Kristinsdóttir, 20.11.2008 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.