Hasarinn byrjar á morgun.

Ég naut friðarins í morgun í vinnunni. Því á morgun er friðurinn úti á göngum skólans. Ef hægt er að orða það þannig. A.m.k. er mikill asi á göngum skólans þegar allir 670 nemendurnir rölta þar um. Mis hratt og mis hljóðlega. Held að ég sé spenntari að hitta krakkana en þau mig!

Það verður notalegt að koma öllu í rútinu, börnin fara fyrr að sofa og vakna vonandi ferskari en þeir hafa gert undanfarnar vikur. 

Ég hef átt ansi erfitt með sjálfa mig undanfarnar tvær vikur. Einn strákurinn hjá mér er morgunsvæfur og fúll með eindæmum (dæmist á einhver StekkjarflatargenSmile). Hann hefur vælt og volað, nuddað og tuðað frá því hann vaknar og þar til honum er skilað á leikskólanum. 

Í gær tók nú steininn úr. Við vorum tilbúin kl 8.15 að fara út á leikskólann (sem er met!). Það var gott veður og ég var búin að ákveða að hjóla í vinnuna. Þá tók sá í miðið eftir sprungu á plastinu á hjálminum. Og byrjaði að gráta og gráta og gráta og gráta. Ég var þá búin að festa hjálminn á hausinn á mér og þeim yngsta, með bónus poka á stýrinu (með auka fötum) og setja þann yngsta í stólinn. Og sá í miðið baulaði og baulaði. Úti í garði baulaði hann i 20 mínútur. Hann vildi ekki hjóla og vildi ekki neitt. Ég reyndi allar leiðir til að rökræða við barnið en ekkert gekk.

Þá varð mér hugsað til nýlegs dóms Héraðsdóms norðurlands vestra þar sem maður var sýknaður af því að hafa danglað í börn...... Hvaða foreldri hefur ekki verið við það að missa það og langað mest til að flengja barnið sitt... Woundering.... Ég skal vera fyrst til að rétta upp hendi!!

Allaveganna baulaði barnið og var orðið rautt og þrútið í framan. Eftir langt tuð og bænanöldur móðurinnar fékkst stráksi til að leiða hjólið yfir götuna. Og þar byrjaði nýtt streð. Hann neitaði að hjóla -ég átti að ýta honum. Það var ekki í stöðunni, þar sem ég var með einn aftan á. Þetta leysti ég með því að hjóla 2 metra ýta honum 2 metra o.s.frv. Og við það að missa þaðDevil. En þegar við vorum komin langleiðina út götuna fór hann að hjóla af stað með fýlusvip, tár í augum og hor í nebba. Út á leikskóla komumst við hálftíma eftir að við lögðum af stað að heiman, leiðin tekur vanalega 3 mínútur. Þegar ég svo hjóla frá leikskólanum hringi ég í betri helminginn og hvæsi á hann að hann verði að fara með strákana á morgun (í morgun) því ég geti þetta ekki.  Hann, mér til MIKILLAR gremju, skellihló í símann. Og sagðist tala við mig seinna (sem hann og gerði þegar mér var runnin reiðin).

En ég vil taka það fram að við sonur minn erum miklir vinir núna og hann fór í góðu skapi á leikskólann í morgunTounge


Heimsbókmenntir.

Nú í lok sumarfrísins fannst mér kjörið að efla hugann með lestri stór góðra bóka. Þær eru tvær bækurnar sem hafa átt hug minn allan síðustu 10 daga eða svo (með öðrum verkefnum að sjálfsögðu, eins og að setja í vél og taka úr henni....) 

En þetta eru bækurnar Flugdrekahlauparinn og Áður en ég dey. 

Flugdrekahlauparinn er ein sú besta bók sem ég hef lesið. Lýsingarnar eru þannig að maður finnur lyktina sem er á markaðnum, þegar honum er lýst í bókinni. Þessi bók er snilld. Skilst að þessi maður hafi skrifað aðra bók, þarf að finna hana ekki spurning. 

Hin bókin, Áður en ég dey. Er líka mjög vel skrifuð. En fjallar um allt annað mál og menningu o.s.frv.  En mér finnst hún lýsa vel hugarheimi Tess og því sem hún gengur í gegnum. Þegar hún þeysist í gegnum listann sinn og að mér finnst gerir einhvern veginn upp þessi 16 ár ævi sinnar. 

Snilldarbækur - mæli með þeimSmile

Núna eru það Ein grjóthrúga í hafinu og english teaching books for 7th grade, sem eiga hug minn allan. Kennsluhugmyndir vel þegnar Errm


Líður að hausti.

Nú er verslunarmannahelgin að baki og farið að hausta (ef ekki í veðri þá í huganum).

Þessari helgi eyddum við á Akureyri. Erum svo heppin með vini að eitt par bauð okkur bústað sinn í Vatnsdalnum og annað par bauð okkur húsið sitt á Akureyri. Því vorum við eins og forstjórar á ferðinni. Heitur pottur á einum stað og einbýlishús með trampolíni á öðrum (ég veit að kröfurnar eru ekki miklar!). 

Eftir helgina má segja að ég sé að komast í vinnugír. Farin að hlakka til að mæta í vinnuna og hitta grísina mína þar. Eins er ég farin að fá kvíðahnút yfir kennslunni í vetur, námsefnið er í huga mér. Og er nettur hnútur þar. Við erum að skipta aðeins með okkur námsefninu og í minn hlut kom enska og samfélagsfræði. Hef ekki litið á enskubækurnar, en skoðað hina bókina í Kennó og er alveg grunlaus um það hvernig ég á að kenna hana. Mun velta því fyrir mér alla vikuna og þá næstu líkaSmile

Tók forskot á "sæluna" og kíkti í vinnuna á fimmtudaginn. Það var voða notalegt að rölta um tóma ganga skólans, vitandi það að eftir 2 vikur munu þeir fyllast (og meira en það) af börnum. 

Ég hef fengið nokkur skot með sumarfrí kennara, sum á þá leið að ég sé alltaf í fríi, sumarfríið vari í marga mánuði og að fríið sé of langt. Eftir síðasta vetur sé ég að þetta frí er nauðsyn. Kennarastarfið í dag er orðið það andlega lýjandi,streituvaldandi og mikið áreiti að fólk þarf þennan tíma til að hlaða batteríin.

Í vor var ég orðin það þreytt að það kom fyrir að ég leitaði dauðaleit að skónum mínum - fann þá ekki, fór heim á inniskónum og svo var skóparið sem ég var að leita að heima. Þá fór ég í öðrum skóm, en spáði ekkert í því pari í skóhillunni.  Þann 4.júní átti ég ekkert eftir af minni orku. Þegar krakkarnir mínir gengu út í sumarið má segja að ég hafi nánast lyppast niður. En það var í raun ekki í boði því 2 dögum seinna fórum við í skólanum í námsferð til Frakklands. 

Í Frakklandi var gaman að sjá og fá að bera saman mun á menntakerfunum.

Þar er sumarfrí kennara og nemenda 2 mánuðir, hjá okkur eru það nokkrum vikum lengur. Frakkarnir eru í fríi frá 2.júlí til 2.september. Ástæðan er sú að það er of heitt á þessum tíma til að vera innan dyra. 

Hér erum við kennarar í að kenna, athuga með forföll, láta hringja í heim (gera það jafnvel sjálf), reka úr tíma og fylgjast með að gemlingarnir skili sér á skrifstofuna (sem þeir gera ekki alltaf) o.s.frv.  Í skólanum sem ég fór í í Frakklandi var sér deild í því að athuga með krakkana, kennarinn kenndi. Aðrir sáu um að tala við þá sem t.d. voru reknir úr tímum, aðrir athuguðu með þá sem ekki mættu í tíma o.s.frv.  

Eins var aðstaða kennara, t.d. á kennarastofu mikið betri hér á landi. Reyndar var ýmislegt sem við hefðum getað tekið til okkar, t.d. súkkulaði veggurGrin, en þá komu kennarar með bréf utan af súkkulaði sem þau borðuðu og hengdu á vegg. Eins var ísskápur með fullt af öðru en mjólk(og giskið nú!).

Skólalóðin í skólanum úti var afgirt, annað en við þurfum hér. Skóladagurinn er öðruvísi, siesta um miðjan daginn hjá þeim. Kennt til 16.30 í stað 13-14 hér. 

Þetta var, fyrir mig, upplifun að sjá. 

En í vinnugírinn er ég að komast. Batteríin að verða fullhlaðin. Vikan verður þó annasöm. Að venju þarf að reita,tæta og lita hár. Aðlaga barn á leikskóla. Og svo er hin venjubundna hreiðurgerð. Þrífa og taka til í skápum, laga til á háalofti og annað "nauðsynlegt" sem til fellur. 

Í skólann fer ég á föstudaginn.. og veit að eftir 10 mánuði verð ég orðin afar þreytt aftur og tilbúin í sumarfríCool


Jahá

Ég er eiginlega orðlaus. 

Hversu langt þarf fólk að ganga áður en það fær dóm sem telst "við hæfi"??

4 ára fangelsisdómur finnst mér lítilsvirðing við fórnarlömbin sem þarna eiga í hlut. 

Hvers virði eru börnin okkar þegar eitthvað kemur fyrir þau og þau þurfa aðstoðar réttarkerfisins. Ekki væri vandamál að dæma hart ef smygl eða dómar varðandi eiturlyf ættu í hlut.

Vonandi mun fólk láta heyra í sér. 


mbl.is 4 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppákoma morgunsins!

Í morgun fór ég í Bónus og með í för voru yngsti og elsti. Við röltum gegnum búðina, hittum "tengdadótturina",kanínuungann hennar og svo móður tengdadótturinnar. Áfram röltum við og týndum í körfu það sem vantaði heima fyrir.

Þegar ég er svo búin að borga og er að raða í poka, hittum við fyrir lítinn vin þess yngsta. En þeir voru saman hjá dagmömmu. Við mæðurnar förum að tala saman. Þeir voru ósköp feimnir fyrst en feimnin rjátlaðist svo fljótlega af þeim. Þeir (tæplega tveggja ára) fara að taka í körfur hvors annars. Eitt skiptið tekur vinurinn í okkar körfu og minn gólar á hann (þetta var ekki öskur trúið mér). Allt í einu heyri ég að maður segir "öskraðu heima hjá þér". Ég sný mér við og horfi á manninn. Hugsa sem svo að mér hlyti að hafa misheyrst. Svo segir hann aftur mjög hvasst við barnið mitt, hættu þessu. Ég lít við og horfi á hann. Þá byrjar hann að segja þetta enn einu sinni hættu þessu, öskraðu heima hjá þér. Ég segi við hann - alveg orðlaus - ertu ekki að grínast?! Nei segir hann, miklu hvassari og pirraðri en fyrr.

Ég varð svo orðlaus að ég held að það hafi verið nýtt met. Horfði á hina móðurina, sá að fólkið í kringum okkur fór að horfa á okkur. Hann vildi meina þessi maður að börn ættu ekki að öskra í búðum, heldur ættu það að vera heima hjá sér. Ég spurði hann þá hvort hann ætti börn.Og fékk til baka mjög svo pirrað - já ég á börn!

Svo hélt hann áfram að ef ég gæti ekki siðað börnin mín til ætti ég að fá mér hund. Til hvers í ósköpunum veit ég ekki. Þá kallaði stelpan sem var með mér á eftir honum - hvort ætti þá að berja hundinn til. 

Í þessum kafla er ég að gleyma einhverju sem okkur fór á milli.  Mér varð svo mikið um að ég horfði orðlaus á hina móðurina og spurði hana svo, hvort þetta hefði virkilega gerst.

Ég kom heim niðurbrotin og alveg fullviss um að mínir móðurhæfileikar væru minni en engir (þar sem barnið mitt gólaði á annað barn), en þá kom í ljós að betri helmingnum fannst þetta ægilega fyndið.  Ég sagði  við hann að hann hefði átt að vera með mér, svo annað okkar hefði getað svarað þessum leiðinda karli. 

En þegar frá líður, má segja að ég finni til með þessum manni. Mikið hlýtur honum að líða illa. 

Ég verð a.m.k. tilbúin í næstu Bónus ferð - ef ég mæti honumDevil


"Kátt nú brennur"

Þarna er ég sammála Sigurgeiri frænda mínum. Það er sorglegt að horfa upp á húsin við götuna brennd.Og trúi því vel að fyrrum íbúarnir vilji ekki horfa upp á húsin sín brennd. 

Á víkari.is er fyrirsögn kátt nú brennur. Sem á svo sem alveg við. En í mínum huga eru þetta ekki mannlaus hús sem hafa staðið yfirgefin í ár eða áratugi. Heldur hús fólks sem lagði allt sitt í húsin. Fyrir mér eru húsin heimili fólks og barna sem ég umgengst þegar ég var að alast upp.

Þegar ég sé myndirnar af þessum brunaæfingum hugsa ég að þarna séu hús  Sirrýjar, Sigurgeirs,  Steffíar í Bjarnabúð, Möggu Gunnars o.s.frv. 

Því fannst mér fyrirsögnin hálf kaldhæðnisleg.  A.m.k. myndi ég ekki vilja að þetta væri "húsið mitt" sem myndin væri af.


mbl.is Dísarlandið brennur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Manneskja með moppu og fötu óskast!

Nú er það svart.

Eins og þeir sem mig þekkja (og aðeins fleiri) vita, hef ég staðið í stórræðum hér innanhúss í tæpt ár. 

Í gær fór svo að versna í því, þegar gólfið var brotið upp og nú er verið að pússa það sléttara fyrir flotun. 

Það er ALLT í ryki... og þá meina ég ALLT! 

Betri helmingurinn sagði mér á meðan gólfbrotinu stóð að þetta yrði ekki mjög mikið ryk. Svo ég vaknaði upp þegar allt var orðið grátt yfir að líta. 

Gólfpússunin er að klárast og því vantar mig einhverjar manneskjur með mér með moppu og fötu, til að þrífaCrying


Fröken skipulögð.

Var búin að skrifa heljarins færslu, rak mig í takka og allt hvarfDevil.

Alla veganna er ég í sumarfríi. Kennari í fríi - þá fær bloggið frí.

Maí var erfiður hjá mér, miklu erfiðari en ég átti von á. Hélt að þetta væri ekki mikið mál, semja nokkur próf, fara yfir og gefa einkunnir. Ég fór í fríið gengin upp að öxlum. Beina leið hélt ég til Spánar og Frakklands með skólanum í skólaheimsóknir og kom heim ekki mikið minna þreytt. Ferðasagan kemur einhvern rigningardaginn.

Hins vegar höfum við átt erfiðan dag hér í greninu. Við ákváðum í síðustu viku að auglýsa gamla eldhúsið okkar á "virtum" vef þessa lands. Settum inn auglýsinguna seint um kvöld og 18 tímum síðar var hún seld. Aaaaaðeins fyrr en við gerðum ráð fyrir. Því þurfti að spýta í lófana að klára nýja eldhúsið og hefur betri helmingurinn verið nótt og dag að klára það.

Í dag hefur því verið mikið að gera hjá okkur, smiðir til að klára þakkantinn voru hér, ásamt pípara til að tengja nýja eldhúsið og kaupandinn að innréttingunni til að taka hana niður.

Mitt hlutverk var að rýma gamla eldhúsið og flytja dótið yfir í það nýja. Framan af var þetta bara gaman.

Ég komst að því að ég stend mig vel sem innkaupastjóri heimilisins. Ekki mikið sem var útrunnið sem þurfti að henda. Hinsvegar stend ég mig afspyrnu vel í að huga að því að sumir hlutir séu örugglega til. Veit ekki alveg hvað ég hef við 7 dósir af niðursoðnum tómötum að gera, eða 4 dósum af tómatpúrru!

Framan af gekk þetta hratt og  vel. Hins vegar er gamla innréttingin stór og skenkur sem fylgir henni. Því nóg pláss fyrir alls konar dót og drasl til að safnast saman án þess að eftir sé tekið. Því komst ég að í dag!

Samviskusamlega fer ég þrisvar á ári og hendi ofan af háaloftinu. En hef greinilega bara hreinsað "frontinn", því það sem leyndist í skenknum var svo mikið að mér féllust alveg hendur. Og horfði ég máttvana á alla hrúguna og velti fyrir mér hvernig í ósköpunum ég ætti að koma öllu fyrir. Svipurinn á mér var víst svo ráðvilltur að betri helmingurinn hló mikið að mér. 

Þarna voru margir margir blómavasar (ekki hendi ég þeim, Haukur gefur mér blóm einu sinni á ári!).  Kerti í kassavís í öllum regnbogans litum og mis mikið brennd (get reyndar sent það á Sólheima eða tekið mér rúnt). Servíettur í tuga (ef ekki hundraða vís) úr mörgum afmælum, dúkar, hnífaparasett (í fleirtölu), plastdiskar og glös, myndir - sem eiga að fara upp á vegg, alls konar bréfa drasl. Og síðast en ekki síst ein eplasnafs flaska (sem dæmist á Flétturima gengið). Með þessari upptalningu dreg ég aðeins úr hlutunum. Þarf alveg sér færslu í þetta.

Ég var alveg ráðþrota með þetta allt, svo ekki var að bæta það að ekki kom ég fyrir öllum vínglösunum, sparistellinu og skálunum. Því var tekin sú ákvörðun að hrúga inn í okkar herbergi og loka, og setja restina upp á loft. Skammtíma lausn ég veit. En á þessum tímapunkti var ekkert annað í stöðunni. Ég læt þetta bíða morgundagsins og ákveð þá hvað ég geri. Það er hins vegar nokkuð ljós að ég þarf að heimasækja hið sænska IKEA til að kaupa innvols í innréttinguna og því mun ég skoða veggskápa í leiðinniFootinMouth

Við skötuhjú erum þreytt eftir daginn, en við skilum góðu dagsverki, þakkantur búinn, innréttingin farin, nýja komin upp og við hentum teppi á eldhúsið. Því næsta verk er að taka flísar af gólfinu og því má ekki flísaleggja eldhúsið til að fá allt gólfið í sömu hæð. Vonandi gerist það sem fyrst - a.m.k. áður en við missum dampinn.  

Hins vegar er mín uppgötvun á sjálfri mér skuggaleg. Ég hélt að ég væri svo skipulögð!! En það sem var í skápunum felldi hana og það harkalega. Þetta verður örugglega framhaldssaga!

Ég er farin í bóliðHappy 


Þú ert alveg frábær....

Frændi!

Verst að ég er ekki með pungapróf og á ekki lítinn trillubát til að koma í businessSmile.  Mun þó án alls vafa kíkja við á bryggjunni ef ég kem í Víkina fögru.

 


mbl.is Pálmi Gestsson hafnarvörður í Bolungarvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móðir í hjáverkum.

Seinustu vikuna hef ég legið og lesið bókina Móðir í hjáverkum. Las hana fyrir tveimur árum eða svo, þá örugglega í háskólanámi, með einn eins árs og annan á leiðinni. Alveg atvinnulausSmile.

Nú sá ég bókina fyrir rælni á bókasafninu og greip hana með mér.

Mér finnst ég ansi upptekin og vantar stundum klukkutíma í sólarhringinn. En díses kræst!!   Þessi kona er náttúrulega ofvirkCool

Ég upplifði mig vel í bókinni. Er þó aðeins rólegri í tíðinni. Baka t.d. óhikað Betty Crocker ef þannig liggur á og kaupi eitthvað flott brauð eða köku í bakaríi - og set merki bakarísins þannig að allir sjái! Og fer sátt að sofa þó húsið sé á hvolfi.  Þá kemur dagur eftir þennan dag. 

Ég hef oft upplifað það í vetur að vera mætt í vinnuna, á sprettinum eftir ganginum í áttina að stofunni, og hefur verið litið niður á mig. Þá er þar matarleifar yngsta sonarins - svona sirka á miðju læri. Eins snýtufar á öxlinni. Eða kíki á peysuna og sé þar blett.  Þá er ég miður mín allan daginn. Og myndi helst vilja fara heim og skipta um föt (og hef gert það!). 

Dagurinn er oft endalaus sprettur. Maður þarf að koma liðinu út fyrir 7.50. Ná þá í vinnuna fyrir 8.10 (þar bjallan hringir á slaginu). Fara með jakkann á kennarastofuna og skila af sér veskinu. Fara svo í kennslu. Eftir kennslu tekur við undirbúningur, sem snýr að því að skoða verkefni og búa til ef þarf. Ljósrita og lesa sér til. Fara yfir heimavinnu og próf.  Þá hefst spretturinn að ná að klára vinnudaginn fyrir 15.40 til að geta náð í börnin á réttum tíma. Svo þarf að skjótast í búð, á bókasafnið, til læknis o.s.frv.

Tvo daga í viku er ég svo heppin að ég þarf ekki að fara út aftur eftir vinnu. En hina dagana þarf ég að skutla og sækja. Þá daga sem ég þarf að fara aftur út sé ég hvað börnin eru þreytt eftir daginn, því það að koma þeim út er oft kvöl og pína.

Þegar heim er komið þarf að sjá um þvottinn.. Blessaðan þvottinn sem fjölgar sér örugglega í körfunum hjá mér. Ásamt því að hugsa fyrir mat, láta læra, taka til (merkilegt hvað börnin geta verið öflug í að rusla út- en að sama skapi léleg að taka til). Klára að svara og senda tölvupósta tengda vinnunni. Og jafnvel fara yfir heimavinnu ef ekki hefur gefist tími til þess í vinnunni. 

Á kvöldin tekur svo við lokatiltektin. Ganga frá í eldhúsinu og reyna að hreinsa upp bílana sem maður hefur dottið um 20 sinnum síðan maður kom heim. Ásamt því að brjóta saman þvott og  ryksuga yfir húsið.  Eftir að ég kynntist sléttujárnum og hárblárunum er ég farin að taka kvöldin líka í að fara í sturtu og blása hárið. Þá stendur það ekki út í loftið daginn eftir (agalega praktískt!). 

Dagsdaglega reiknast mér til að ég eigi oft akkúrat engan tíma fyrir sjálfa mig - dögum saman. Er heppin ef ég get verið ein í sturtunni (enginn á hurðinni sem vill koma með). Eða hætt aðeins fyrr í vinnunni og farið heim og horft út í loftið ein í þögninni.  

Það sem mér hefur fundist erfiðast í vetur er að þrífa. Taka húsið almennilega í gegn. Ég nenni ekki að skúra kl 22 á kvöldin. Hef hreinlega ekki orkuna í það.

Því hef ég sett mér heit fyrir næsta haust. 

1. Fá hana Sylwiu til að koma í heimsókn aðra hverja viku

2. kaupa mér kort í ræktina og vera þar á meðan hún gerir hreint.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband