Útivinnandi húsmóðir

Nú er aðal vikan hafin og hálfnuð. Það er vikan sem ég fer út að vinna. Kallinn kominn í fæðingarorlof og er eins og Bree Van De Kamp á heimilinu. Tekur þetta alveg með trompi. Ég varð reyndar pínu pirruð í kvöld þegar við vorum að setjast við borðið, það var ekki til smjör! Ég gerði lista fyrir hann með nokkrum atriðum og eitt af þeim var að fylgjast með hvort eitthvað væri að klárast..... Held að það atriði sé eitthvað sem þurfi að skoða betur - því hann ryksugar,þvær þvotta, brýtur saman og allt það. Kannski smá atriði hjá mérSmile

Annars ákvað ég á mánudaginn að taka dekurdag. Panta tíma í klippingu á tíma sem mér hentar - ekki öðrum o.s.frv. Það endaði reyndar ekki vel því í klippingunni veiktist ég svona heiftarlega að ég varð að fara heim með litað hár en ekki klippt. Undir sængur fór ég með hitapoka. Náði að sofna og dældi í mig verkjalyfjum. Var orðin þokkaleg seinnipart dags svo ég dreif mig á snyrtistofuna. Lagðist svo aftur þegar lyfin hættu að virka. 

Í gær var fyrsti "vinnu" dagurinn, þ.e. námskeið, ekki formleg vinna. Ég komst ekki út úr rúmi fyrr en ég var orðin ansi sein. En lét mig hafa það - ekki smá lítill mórall að melda sig veika fyrsta daginn. Fór svo til læknis í gær og er kominn á sterkan sýklalyfjakúr.

Í dag var ég öllu brattari og fór bara hress í vinnuna (díses..... "fullorðinslegt" orð). Var ekki með hnút í maga en leið eins og feimnu barni í afmæli. Þekkti ekki neinn og vissi ekki alveg hvað ég átti af mér að gera. svo fór það skánandi þegar ég hitti aðra sem var líka byrja og þar með þekktum við báðar eina manneskju!! Alls konar fundahöld voru í dag og ég fékk stofuna. Líst bara rosalega vel á. Stofan er fín, með skjávarpa og klósetti (sem er munaður!). Samstarfsfólkið virðist rosalega fínt. Svo ég er bara mjög glöð og hamingjusöm með þetta.  

Ég er alveg ekta "karlmaður" þegar ég kem heim úr vinnu, í hreint hús, þvottur á snúrunum og hendi mér í sófann og horfi á Dr. PhilGrin......  

þangað til næst

húsmóðirin (ég þyrfti kannski að finna nýja undirskrift). 

 

 


Síðasta vikan

Nú er sumarfríi miðjubarnsins að ljúka. Hann er líflegur með eindæmum og á það til að ergja þreytta móður sína með uppátækjum sínum. Ef mamman er ekki þreytt þá má endilega reyna á hjartastöðvarnarTounge.

Einn hlutur gerðist nú í vikunni sem reyndi á þessa stöð. Við fórum út að borða og á veitingastaðnum datt hann og fékk gat á hausinn. Fyrsta gat á haus hjá okkar börnum. Ótrúlegt en satt. En kemur ekki á óvart að hann sjái fyrir þvíCool. Það er rétt ár síðan við fórum með hann á heilsugæsluna eftir að hann flýti sér aðeins of mikið í tröppunum hér og skallaði þær. Hlaut að launum þessa fínu kúlu á ennið(ef hnullunginn skyldi kalla kúlu). 

Þessi pjakkur minn er stundum líkur honum Emil í Kattholti. Það sem mér sýnist verra er að yngri bróðir hans ætlar að verða eins. Þeir hafa verið góðir hérna í vikunni að rífast og slást og arga hver á annan. Goggunarröðin er einföld, miðjubarnið er borið út úr herbergi þess elsta. Á meðan sá yngsti er borinn út úr herbergi miðjubarnsinsSmile.  

Hann á það til að gala eitthvað á bræður sína og reka svo upp hrossahlátur. Ótrúlega háan miðað við stærð búksins!

Nú er þessi gormur minn að veiða með bróður sínum og pabba. Ég ætlaði að vera voða dugleg og reyna að taka til á meðan. Hef séð það nú í fríinu að það er eiginlega ekki gerandi að taka alltaf til eftir börnin, þeir rusla þá helmingi hraðar út. Ég hef því farið yfirferð á kvöldin......

Það hefur ýmislegt vakið athygli mína þessa vikuna.

Það fyrsta er þetta viðtal við fjármálaráðherra. Hvurslagt hrokagikkur er þetta? Eiga ríki og sveitafélög ekki að vinna saman? Síðan hvenær eru þetta tvær andstæðar fylkingar sem eigast við? Ég hef greinilega misst eitthvað af í þeim umræðum. Mér finnst bæjarstjórinn í Víkinni fögru bara snillingur að færa þetta fram í umræðuna og gerði það vel. 

Eins fannst mér hugmynd eins föðurbróður míns stór sniðug - hvort ekki væri hægt að fá fólkið til að borga þjónustugjöld. Þessir einstaklingar sem eiga ehf. hlutafélög nýta sér þá smugu sem ríkið býður upp á. En, eins og Grímur benti á, nota þjónustu sveitafélagana, t.d. skóla, heilsugæslu og annað sem til staðar er. Þessi hugmynd um þjónustu gjöld finnst mér afar athyglisverð. Hvernig svo hægt er að útfæra hana.

Húsmóðirin fór af bæ eitt kvöld í vikunni. Það var afskaplega gott. Fór og hitti nokkrar mjallhvítar. Það er mikil hvíld að sleppa við að svæfa, skera niður perur og taka til eitt kvöld.

Það sem kom mér mest á óvart í vikunni var símtal sem ég fékk þegar ég stóð yfir grjónagrautnum eitt kvöldið. Það var afar ánægjulegt og kom virkilega á óvart. Þar var í símanum manneskja sem hafði dottið hér inn og vildi fá afnot af þessum penna á nýjum vettvangi- alveg nýjum! Ég átti ekki til orð og var smástund að ná áttum eftir það. Að sjálfsögðu samþykkti ég beiðnina og er spennt að vinna í þeim málum núna. Hvað þetta er segi ég nánar frá síðarSmile

Við hér í Greninu erum heimapúkar þessa helgina. Höfum ekki farið af bæ þessa helgi í nokkur ár. Fórum í gær í Smáralind og héldum að fáir yrðu þar. Það var mikill misskilningur!! 

Nú er sá yngsti farinn að kvaka úti í vagni. Því segi ég yfir og út

Húsmóðirin - heimapúki. 


Blaðamannafundurinn

Ég kveikti á sjónvarpinu fyrir tilviljun í gær. Þá var að hefjast blaðamannafundur lögreglunnar. 

Þessi fundur var ekki blaðamönnum til framdráttar. Til að byrja með spurðu þau sömu spurninga aftur og aftur - EFTIR að lesin var upp tilkynning sem sagði allt sem segja þurfti. Í skólakerfinu myndi maður segja nemendum að hlusta betur. 

Sumar spurningar voru alveg út í hróa og ekki við hæfi (miðað við eðli málsins).

Mín tillaga er því sú að annað hvort lesi lögreglan upp tilkynningu og þar með sé fundinum lokið. Eða þá að blaðamenn fái að spyrja spurninga sem þeir hafi fyrirfram komið sér saman um að spyrja. Sú þriðja og síðasta er sú að sleppa hreinlega að senda svona fundi út í beinni útsendingu.

 

 


Við skiptum ekki á bleyjum!

Nú er miðju barnið í sumarfríi. Síðasta vikan takk fyrir... held að við verðum öll fegin þegar þessu fríi lýkurSmile. Sérstaklega hann. 4 vikur í einu er svolítið mikið fyrir lítil börn (sérstaklega þegar þau hafa tekið 2 vikur í upphafi sumars). 

Í síðustu viku ákvað ég að drífa barnið á róló. Ég þurfti svo í bæinn að erindast.

Korteri eftir að ég skil barnið eftir á róló er hringt í mig. Samtalið var sirka svona:

D (ég): Halló

St (starsfmaður): Já sæl ég hringi hérna frá gæsluvellinum.

D: Já....

St: Sko hann Arnar er búinn að kúka.

D; Já.... (og hugsaði af hverju er hún að hringja í mig til að segja mér það!).

St: Já sko við skiptum ekki á bleyjum.

D: HAAA

St: Já.. gleymdist að segja þér það?

D: JÁ! Ég hef ekkert heyrt um þetta. Ég er komin niður í bæ og kemst ekki uppeftir fyrr en eftir korter í fyrsta lagi.

St: Já..... smá þögn.

D: ég bara verð að redda þessu þá. En ég kemst ekki strax. 

St: Já ok.

D: Já bless.

 Ég stóð og góndi á makann ORÐLAUS. Hann horfði til baka með spurn... skildi ekki mikið í þessu símtali. 

4 mínútum seinna hringdi síminn aftur.  Þá varð símtalið svona:

D: Halló.

St: já sæl þetta er hér frá gæsluvellinum aftur. Heyrðu ég ætla að gera ÞÉR þann greiða að skipta á honum núna fyrst þú vissir ekki af þessu.

D: Já þakka þér fyrir það!

Svo var kvatt.

Mér er því spurn. Ég borga fyrir að barnið mitt sé í gæslu á vellinum. Er það virkilega svoleiðis almennt í dag að einhverjum "verkum" er ekki sinnt?  Snýst þetta um það að þar sem þetta er ekki fagfólk þá sé ákveðið að þau sinni þessu ekki?

Ef ég væri í vinnu, þá væri það ekki að gera sig að ég væri með barnið í gæslu og þyrfti svo að hlaupa til þegar barnið gerði sína hluti.

Stráksi hefur farið nokkrum sinnum á róló síðan þá og alltaf komið heim með fulla bleyju.

Ég vil taka það fram að hann er afskaplega hamingjusamur á róló.... en það fyrsta sem hann segir þegar ég kem er að það þurfi að taka bleyjunaWoundering


Harmleikur

Fréttir dagsins eru sorglegri en orð fá lýst.

Eftir sitja fjölskyldur og vinir í rjúkandi rúst. 

Megi allar góðar vættir halda utan um þau og styðja á allan hátt.


mbl.is Árásarmaðurinn svipti sig lífi; fannst látinn á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tívolí og sumarfrí

Í tívolíNú er sumarfrí fjölskyldumeðlima farið að styttast í annan endann. Sá fyrsti fer til vinnu á mánudaginn. Næsti í vikunni þar á eftir. Svo fer húsmóðirin 14. ágúst.

Í dag ákváðu foreldrarnir að fara í tívolí með rollingana. Leyfa þeim greyjunum að eiga sína stund.

Ég sá mikið eftir þessari ákvörðun!

Við mætum á staðinn og það fyrsta sem við sáum var að það voru ekki tekin kort. Heldur var bent á hraðbanka í Smáralind (sem er nú spottakorn í burtu). Á meðan betri helmingurinn hljóp í Lindina beið ég með stóðið í tívolíinu.  

Þá tók ég eftir því að planið var ekki malbikað. Það voru grófir steinar um allt planið. Svo var vindur svo rykið dreif yfir mann í hverri hviðu. Það hefði nú mátt rykbinda og aðeins létt hefla yfir planið. Þó það væri ekki nema til að barnakerrur kæmust vel yfir. Ég hafði miklar áhyggjur af barninu í kerrunni svo mikill var hristingurinn.

Hávaðinn í tívolíinu var yfirgengilegur. Eins og á góðum dansleik. Ég skyldi núna af hverju fólk í SPK er ekki að hoppa hæð sína af gleði þessa dagana.  

Síðar þegar makinn var kominn til baka úr bankanum var komið að því að fara og prófa herlegheitin.  Miðinn kostaði 100 kall. Í góðu lagi, en að sjálfsögðu kostaði marga miða í hvert tæki (eins og maður gerði ráð fyrir). Því spændust upp peningarnir á meðan þessari stuttu heimsókn stóð. 

Heildartíminn sem tók að fara í gegnum þau tæki sem lítil hjörtu réðu við hefur verið korter - 20 mín til að vera sanngjörn!

Vissulega er gaman að gera eitthvað með börnunum sínum en ég held að í framtíðinni miði ég við að gera eitthvað sem skilur meira eftir sig og er dýrmætari minning í fjölskyldualbúminu.  

___________ 

Það var svo eitt sem ég tók eftir þegar ég sat í þessu tæki sem myndin er af. 

Er einhver sem sér um að taka út öryggi tækjanna? Vinnueftirlitið t.d. Í þessu tæki sem ég fór í tók ég eftir því að örygginu virtist ekki vera sett hátt undir höfði. Rörin sem tækið flaut áfram á var ekki traustvekjandi, á jörðinni, fyrir neðan mann, lágu stauranir upp í loftið. Svo ef svo óheppilega hefði viljað til að tækinu hefði hvolft hefðum við dottið beint á staurana og stórslasast. Engin áhöld voru til að festa tækið. 2 trékubbar voru notaðir til að balansera tækið. 2 gaskútar stóðu þarna í rólegheitunum hjá stjórntækjunum. Svo stendur starfsfólkið og reykir nánast við hliðina á þeim. 

Svo líka hvernig er með þetta tívolí apparat. Þau taka ekki kort, bara pening. Hvernig er með bókhaldslega hlið málanna. Þurfa þau að sýna fram á eitthvað hér á landi? 

Ég geri ráð fyrir að tívolíið sem slíkt taki ákveðinn pening fyrir að koma til landsins. En allur aðgangseyrir fari í þeirra hlut. Það er þá ekki gefið upp til skatts hérlendis (og leyfi ég mér að efa erlendis líka). Eigum við sem vinnum okkar vinnu og borgum okkar hlut til ríkisins að sætta okkur við að erlendir "farandsalar" og tívolí starfsfólk komi til landsins vinni hér og fari burt með peninginn?

Svo er verið að handtaka eitthvað grey fólk sem gengur í hús að selja myndir og annað dót.  


Gott hjá þér!

Ég er afskaplega ánægð með ákvörðun Stjána Möllers. Gott hjá þér Stjáni minnGrin

Bara það að taka ákvörðun og standa við hana er mikið afrek. Miðað við hvernig ríkisstjórnin er að höndla kvótamálin.

Ekki sér maður neitt af þessum mótvægisaðgerðar tillögum sem áttu að koma fram þegar niðurskurðurinn á kvótanum var tilkynntur. 

Ríkisstjórnin ætti  að taka sér þetta frumkvæði til fyrirmyndar og gefa út hvort hún vill halda landinu í byggð eða ekki.  


mbl.is Engin jarðgöng til Vestmannaeyja en ferðum Herjólfs fjölgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vikan

Þessi vika hefur liðið ljúflega... Ef hægt er að segja svo.

Fjölskyldan skellti sér í enn eina útileguna með vinum okkar. Það var mikið stuð. Það rigndi á okkur á fimmtudeginum, það var hriiiikalega kalt þá nótt (aðfaranótt miðvikudags) og það ásamt regninu studdi þá ósk feðganna að fara heim. Ég hefði alveg verið til í að vera lengur. EN hafði ekki mikið um það að segja. Það sem bjargaði fyrrihluta dagsins var að vinirnir voru að vígja nýja fellihýsið sitt og þar var heitt og þurrt. Húsmóðirin er því að skoða svona gripi núnaSmile

_______

Ég skil ekki alveg þetta mál með hundspottið Lúkas. Þegar þetta mál byrjaði var ég úti á Spáni og þegar við komum heim var allt logandi út af einhverjum hundi.   Mér fannst alltaf eitthvað skrítið við þetta mál, og fannst strákgreyið vera hafður fyrir rangri sök - eða a.m.k. ósannaðri.

Hvernig getur fólk, nafnlaust,  tekið mannorðið og æruna af fólki, nafngreint það á netinu, sem orsakar hótanir um líflát og líkamsmeiðingar.  Hvar á að leggja línu við skrif á netinu?

Ég skrifaði hér fyrr í vikunni hvort hann yrði beðinn afsökunar af því fólki sem hefur veist að honum. Það kom gott komment að það fólk væri örugglega gufað upp. Held að það sé mikið rétt. Fólk veður uppi í skjóli nafnleyndar með alls konar skítakomment og vesen og þarf ekki að sjá að sér með neitt.

Þetta finnst mér vera a.m.k. mál sem ætti að skoða. Jafnvel með tilliti til lagasetningar. Net löggan sem var svo umdeild í vor er kannski ekki svo vitlaus núna. Þegar búið er að sýna fram á að fólk virðist ekki hafa nein mörk sem það lætur útúr sér.

__________

Nú eru 3 vikur í að húsmóðirin fari að vinna. Þá er lokið þeim kafla í lífinu sem snýr að því að vera heimavinnandi húsmóðir í fullu starfi. Ef betri helmingurinn hefur einhvern tímann haldið að þetta væri hlutastarf þá held ég að hann hafi alveg sannfærst í gær um að það væri bull!

Ég lá í rúminu og hann varð að sinna húsi og börnum (sem voru öll heima). Hann var orðinn sveittur. Það þurfti að gefa að borða, klæða, skipta á bleyjum, setja einn á klósettið, stilla friðar í slagsmálum, gefa aftur að borða, setja út í vagn, passa að sá yngsti færi sér ekki að voða á gólfinu og taka aðeins til. Og er þá bara fátt eitt upptalið af verkefnum gærdagsins hjá honum! Þetta gerði hann og stóð sig vel. Hins vegar má alveg fylgja sögunni að heimilisverk voru ekki unnin svo heitið geti og ekkert var sett í vélWhistling

 


Saklaus uns sekt er sönnuð

Ætli þeir sem hótuðu unga manninum líkamsmeiðingum og lífláti sendi afsökunarbréf?!

 


mbl.is Hundurinn Lúkas á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samúðarkveðja

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar. 

 


mbl.is Einar Oddur Kristjánsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband