Færsluflokkur: Bloggar
4.5.2008 | 18:42
Myndbirtingar af slysum.
Í dag fór ég á Vísi.is. Þar var frétt um að alvarlegt slys hefði orðið í Kömbunum. Með fréttinni var svo mynd af slysstað af bílnum og fólki að stumra yfir ökumanninum.
Nokkrum mínútum síðar kemur inn á vísi að um banaslys væri að ræða.
Hvað er í gangi í íslenskri blaðamennsku. Er "fyrstir með fréttirnar" ekki að verða einum of??
Aðstandendur eiga ekki að sjá svona myndir, jafnvel áður en þeir frétta af andláti ættingja. Viljum við ekki öll að ef okkar nánasti lendir í slysi séu það prestar eða aðrir sem færi okkur fréttirnar. Ekki vefmiðlar??
Um leið og ég votta fjölskyldu þessa manns samúð mína segi ég skammist ykkar vísis menn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2008 | 13:14
samningar og bæjarmálin
Það er merkilegt hvað tíminn líður. Maí er kominn, og ágúst nýfarinn.
Það er ýmislegt sem mig langar að setja á "blað".
Nýjir samningar kennara koma sér vel fyrir mig. Ég er það ung og nýbyrjuð að ég fæ launahækkun. Svo það stefnir í að ég geti lifað af laununum mínum næsta árið. Þá verður samið uppá nýtt og fróðlegt að sjá hvað gerist þá. Eins hefur mér fundist gaman að sjá hversu jákvætt fólk er (svona almennt). Bjóst við einhverjum neikvæðum tóni. En vonandi verða samningarnir til þess að allar 513 (eða hvað þær eru margar) kennarastöðurnar sem vantar, í fyrir næsta haust, fyllist.
Mér er farið að finnast atburðarásin í bæjarmálunum í Víkinni fögru hálf sorgleg á að horfa. Víkarar hafa oft á tíðum verið þekktir fyrir að tjá sig mikið um málefni sem á þeim brenna. Og virðist sem lítið lát ætli að verða á því. Loksins þegar manni virðist sem þetta fjaðrafok ætli að fjara út, dettur maður um nýjar greinar og pistla þar sem haldið er áfram.
Þær síður sem ég sá fyrst í stað snerust meira um umræður um slitin sjálf, minna um fólkið (nema ef vera skildi að Anna fengi sneiðar). Núna finnst mér umræðurnar vera að komast yfir á annað plan. Þar sem fólk er farið að senda pílur í allar áttir. Og umræðan og athugasemdirnar farnar að vera á lægra plani en var í upphafi.
Ekki misskilja mig - mér finnst sjálfsagt mál að allir komi fram með sína hlið mála. En finnst að sem fullorðið fólk eigum við að geta sagt hvað okkur finnst án þess að ata aðra auri.
Eins og allir sem frá Víkinni koma er mér annt um hana. Ég er sammála þeim sem segja að umræðan hafi skaðað bæinn. Mér hefur líka fundist gaman að sjá hvað fólki finnst um bæinn. Það hafa komið fram margar skoðanir sem lýsa bjartsýni í bænum, margt hafi verið gert eftir margra ára kyrrstöðu. Sem hefur komið bjartsýni af stað hjá fólki.
Vonandi farnast nýja meirihlutanum vel. Vonandi tekur meriihlutinn fjármálin fastari tökum en annar flokkurinn gerði í öll þau ár sem hann var einn í meirihluta. Og vonandi tekst þeim að koma á friði í Víkinni fögru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2008 | 22:22
Bæjarmálin í Víkinni fögru
Ég veit eiginlega ekki alveg hvað ég á að halda um bæjarmálin í Bolungarvíkinni.
Mér finnst það heldur kljén afsökun hjá, annars hinni ágætu, Önnu að umsvifin séu orðin of mikil. Ég get alveg verið sammála þeirri skoðun að með umsvifum eykst hættan á hagsmuna árekstrum.
Hins vegar hefur tíðkast í bæjarstjórn Bolungarvíkur í gegnum árin (og á fleiri stöðum á landinu) að fólk í rekstri sitji í bæjar eða sveitastjórnum. Anna sat m.a. í meirihluta í Víkinni þar sem fleiri en einn og tveir voru í rekstri. Og engum smá rekstri, heldur sáu um að reka stærsta vinnustað bæjarins. Og höfðu þarafleiðandi ítök beggja megin borðsins. Það veit Anna.
Að mér skilst, er þetta ekki breytt í dag, mikill meirihluti manna í bæjarstjórninni eiga fyrirtæki, og svo virðist líka vera um varamenn. Miðað við listann inn á bolungarvik.is.
Gaman væri að fá lista um aðal og varamenn síðan 1974 og sjá hverjir hafa átt fyrirtæki og hverjir ekki.
Margt virðist hafa verið gert á síðustu tveimur árum til að rífa bæinn upp úr þeirri lágdeyðu sem hann var í. Ekki veitti af. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort skuldsettur bær - fyrir - sé meira skuldsettur á eftir. Eftir því sem að mér heyrist og hef séð á vefmiðlum var ekki alltaf til peningur fyrir framkvæmdum.
Eins má líka benda á að í bæjarstjórinn hefur verið oft og mikið í fjölmiðlum, sem er ekki alslæmt. En svo virðist sem ekki hafi alltaf verið ljóst hvort hann tali í krafti síns embættis eða sem íbúi staðarins. Sbr. nýlegan Kompás þátt, sem eitthvað virtist fara fyrir brjóstið á þeim heima.
Ég vona að íbúar fái haldbærar skýringar. Það eiga þau svo sannarlega skilið.
Ég get alveg séð fyrir mér ástandið í Víkinni núna. Hún í raun logar stafnanna á milli.
Ég man ekki eftir öðru sem barn en að faðir minn hafi verið í bæjarstjórn. Og ekki var alltaf friður í kringum hann. Þegar ég lít til baka - fannst mér verst hvað við systkinin fengum að líða fyrir hans skoðanir.
Því vona ég að í þessu ástandi ,sem nú tröllríður bænum fái börn ,þessa fólks sem í hlut á,að vera í friði og verði ekki fyrir aðkasti vegna sinna ættartengsla.
Bloggar | Breytt 26.4.2008 kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.4.2008 | 18:02
Tengdadóttir
Sonur minn fór í afmæli í dag. Sem er svo sem ekki frásögu færandi. Nema hvað að hann kom út með stjörnur í augum. Hann á kærustu! Og er svo ástfanginn að það hálfa væri nóg.
Um blessaða stelpuna hefur verið rætt síðan þá, þau ætla að leika saman eftir skóla á mánudag og í skólanum líka. Hún var víst pínu skotin í öðrum en hætti því svo bara þegar minn mætti á svæðið.
Hann ropaði því svo út úr sér að hann hefði átt kærustu í gamla bekknum. En sú var svo ákveðin að hann nennti ekki þessu veseni á henni (bein tilvitnun). Hún varð svo skotin í öðrum en er svo ekki skotin í neinum núna.
Hann klikkti svo út með því að segja að þau (kærastan) ætluðu að vera saman þangað til þau yrðu fullorðin. En það væri smá spurning með börnin, þau yrðu örugglega ættleidd.
Ég átti orðið heldur bágt með mig undir þessari ræðu. Og sagði undir það síðasta að það væri nú heldur snemmt að hugsa um börn. Hann leit á mig hálf hneykslaður......
En svo það sé á hreinu - hann er 8 ára.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2008 | 21:12
Fertugsaldurinn....
Er kominn til mín.
Honum var tekið fagnandi, með smá þjófstarti, á laugardagskvöldið. Ég sagði vinum mínum að ég væri örugglega sú eina sem byði hann velkominn og væri bara spennt. Hins vegar fann ég daginn eftir að aldurinn væri að færast yfir, því ég var svo þreytt í gær að það hálfa væri nóg. Og LÍKA í dag... hefði þurft frí í vinnunni til að jafna mig.
Ég hef tröllatrú á fertugsaldrinum. Trúi því að það besta sé að byrja. Ég er farin að sjá út úr smábarna pakkanum sem hefur fylgt mér síðustu 4 ár, stanslaust. Og meira og minna síðustu 9 ár. Það þýðir að ég hef meiri tíma fyrir mig sjálfa og get leyft mér að draga fram saumadótið að nýju.... Eða byrjað að hreyfa mig reglubundið..... hmmm... Hef alltaf talið mér trú um að ég hafi ekki tíma í það.
Ég hef ákveðið að setja mér markmið sem ég ætla að ná á næstum 10 árum (um að gera að hafa þau opinber!). Nota bene eru þetta markmið næstu 10 ára og því munu þau koma HÆGT í framkvæmd .
Ég ætla að fara í líkamsrækt og byrja að hreyfa mig reglubundið. Ná af mér fæðingarskvapi.. og styrkja magavöðvana svo ég geti verið í flegnum bolum og stuttum pilsum (eru það ekki örugglega í tísku hjá konum á fertugsaldri!!).
Ég ætla að hugsa meira um útlitið. Er farin að færa mig upp á skaftið í þeim efnum. Fer reglulega í klippingu og litun og á snyrtistofur. En þarf að huga að fatnaðinum meira, vil vera skvísulegri til fara (erum við ekki skvísur á fertugsaldrinum!)..... Og kveðja þreytta húsmóður útlitið, íþróttabuxurnar og taglið í hárinu, ásamt morgunmat barnanna á peysunni.
Ég ætla að hugsa um sjálfa mig andlega líka. Styrkja sjálfið og hlú að innri hliðinni. Það fyrsta sem ég get gert þar er að gefa sjálfri mér tíma og hætta að ergja mig á smámunum. Ásamt ákveðnu prógrammi sem ég ætla að stunda.
Það mun örugglega bætast meir á þennan lista. En svona lítur hann út í dag.
Ég vil þó taka það fram að ég hef engin grá hár fundið........ Og fyrir nokkrum vikum síðan sá ég nauðsyn þess að eiga sléttujárn! Hef verið síðustu vikur í æfingarbúðum hárblásara og sléttujárna. Er orðin voða flink.. öðru megin. En hin hliðin hlýtur að koma fyrir rest.
Annars segi ég bara við vini mína og fjölskyldu, takk fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2008 | 17:56
Bónus ferð!
Eftir vinnuvikuna var ég afspyrnu andlaus og þreytt. Hefði helst viljað fara heim að leggja mig. Enda framundan erfið helgi. Allt að þrífa, Skoppa og Skrítla á morgun, ásamt afmæli húsmóðurinnar. En á sunnudag fyllir hún einn tug og tekur á móti öðrum.
Þess vegna var á dagskrá dagsins að fara í Bónus á leið heim úr vinnu. Þegar ég gat ekki haldið augunum opnum lengur yfir verkefnum vinnunnar dreif ég mig af stað.
Galvösk (eða svona næstum) mæti ég í Bónus með lengsta innkaupamiða sem sögur fara af. Tek með mér kerru og byrja að raða í hana. Sýrður rjómi, beikon ostur, rifinn ostur, mjólk, jógúrt o.s.frv. var sett í af miklum móð. Þegar ég er loksins komin að gosinu sé ég að það kemst ekki í kerruna.... Ókei hugsa ég - kaupi það á morgun. Áfram hélt ég, snakkið, servíettur (því einhverju verður fólk að þurrka sér á), smá nammi, tortillur og fleira bættist í hópinn. Þegar kúfurinn á körfunni var orðinn það hár að fólk í námunda við mig tók smá sveig og horfði á kerruna ákvað ég að þetta væri orðið gott. Því næsti hausverkur var að koma þessu á bandið,borga og bera út í bíl.
Þegar ég ýti (helvíti þungri) kerrunni að bandinu og er byrjuð að raða upp á bandið sé ég að systir mín stendur við hliðina á mér og horfir stórum augum á hrúguna.
Fegin fæ ég hana til að raða á bandið svo ég geti sett í kassa (já kassa!) og poka. Svo ég teppi ekki kassann fram á kvöld. Eftir langa mæðu (fannst mér!) var allt komið framhjá afgreiðsludömunni og tími til kominn að borga. Stelpan sýnir mér gluggann (kann örugglega ekki svona stórar tölur) og brosir hálf vandræðalega. Mér verður svo mikið um að ég fer að hlæja. Hún horfir þá stórum augum á mig og spyr - max max?! Sem útleggst sem það mesta sem þú hefur borgað. Hlæjandi kinka ég kolli og segi já..... En upphæðin hljóp á tugum þúsunda.
Þegar búið er að púsla vörunum í kassa, poka og tvær kerrur er komið að því að drífa góssið út í bíl. Systirin fékk það hlutverk að ýta annarri kerrunni. Og saman dröslum við matnum í skottið. Þá var tvennt í stöðunni. Átti ég að fara aftur inn og klára..... eða átti ég að fara heim að pissa.
Mér fannst mikilvægara að fara heim og pissa..... því gosið, pestóið og brauðið verður líka til staðar á morgun.
En mikið svakalega var þetta gaman. Svo hér með tek ég að mér stórar Bónusferðir - ef þú borgar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2008 | 17:18
Kennarar!
Nú hef ég heyrt þá sögu frá nokkrum aðilum að stærsta sveitarfélag landsins stoppi það af að hægt sé að ljúka við nýja kjarasamninga kennara.
Hvað finnst kennurum um það?!
A.m.k. er ég ekki sátt við svoleiðis framkomu þegar allir aðrir aðilar, sem að samningsgerðinni koma, eru búnir að koma sér saman um grundvöll til að semja á.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 22:08
Dagarnir....
Hef ýmislegt sem mig langar að segja og tjá mig um. M.a. þær fréttir í síðustu viku að grunnskólakennarar væru lægst launaða kennarastéttin á landinu.
Einnig langaði mig að nefna að vorið væri komið, þrátt fyrir að ég hefði vaknað upp við hvíta jörð nokkra daga í síðustu viku.
Hins vegar hverfa svona langanir þegar maður fær vondar fréttir. Svoleiðis frétt fékk ég í dag.
Þá fer maður að hugsa um hvað það er sem skiptir mestu máli í lífinu og hvernig maður hlúir að þeim sem manni þykir vænst um. Þá er eins og lífið stoppi eitt augnablik, og maður heldur áfram með hugann annars staðar. Maður myndi vilja vera á ákveðnum stað og taka utan um fólkið sem þar er.
Kæra fjölskylda, ég hugsa hlýlega til ykkar og mun veita ykkur allan þann stuðning og styrk sem ég get.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 21:42
Röng hilla!
Gleymdi einu...
Ég komst að því í fyrradag að ég er á rangri hillu í lífinu.
Ég hefði átt að gerast tannlæknir!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 21:41
Annasamir dagar
Það hefur margt á daga mína drifið síðan ég kíkti hér við síðast.
Um páskana fórum við vestur á firði. Þar var hátíðin Aldrei fór ég suður, skíðavikan og víkin fagra sem heilluðu. Í fyrsta sinn í 10 ár fór ég á skíði og komst að því að formið á bodíinu er ekki gott. Lærin á mér hreinlega brunnu í fyrstu ferðinni...... Ég skil ekki alveg hvernig stendur á þessu slappa ástandi. Ég labba upp og niður svona 15 tröppur OFT á dag.... drekk mitt kók og fæ mér stundum súkkulaði með. Labba út í bíl og keyri um bæinn að sækja börnin, fara í búð, fatahreinsun,bókasafnið og annað sem þarf að skutlast. Svo ég skil þetta hreinlega ekki.
Víkin fagra var falleg heim að sækja... nema á skírdag, þá sáum við ekki á milli ljósastaura á leiðinni úteftir.
En aðal málið er hátíðin aldrei fór ég suður. Frábært framtak hjá þeim feðgum. Það var gaman að troðast í skemmunni og drepast úr hávaða, færast með mannfjöldanum, og rekast á vini og vandamenn sem maður hefur ekki séð í ár og öld. Hápunkturinn hjá mér var sjálfur Mugison og hljómsveitin Hraun. Þar fór góðvinur okkar Jón Geir hreinlega á kostum. Eins og hann er rólegur maður að eðlisfari - þá greinilega umbreytist hann á sviðinu. Svo hitti ég að sjálfsögðu nemendur mína, sem voru að upplifa alvöru rokktónleika!
Hins vegar var svolítið önnur ásýnd á bænum en hefur verið á meðan skíðavikan ein var til staðar. Ef maður rölti út á laugardögum mætti maður fjölskyldufólki á leið í bakaríið og svo á skíði. Núna mættum við draugþunnum (eða ennþá fullum) hátíðargestum. Sem annað hvort voru ekki sofnuð eða rétt að vakna eftir stuttan svefn.
Vinnan kom of snemma.... hefði viljað fá einn dag í viðbót. En það þýðir ekki að tala um það. Nú er loka spretturinn og France er í augnsýn. Alls konar próf og fundir í gangi núna.
Vorið er að koma í Greninu. Ég þarf að fara að drífa mig út að hreinsa beðin og gera vorverkin.
Ég var búin að heita mér alls konar dugnaði með vorinu, hreyfa mig meira, vera betri við börnin (og manninn!)..... en eitthvað stendur á þessu. Ég er nú sæmileg við börnin held ég (og jafnvel manninn líka) en þetta með hreyfinguna er eitthvað erfitt í framkvæmd. Ég er þó komin í gönguhóp Mosfellsbæjar, og rölti ég með Höllu Heimis upp um fjöll og dali..... þegar ég kemst
Alla veganna ætla ég að standa við eitt. Að drífa mig í sund eftir vinnu - svo ég verði ekki hvítust í Frakklandi!
Farin í bólið....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)