Færsluflokkur: Bloggar
28.10.2007 | 21:24
Vetrarfrí
Þessa dagana er ég í vetrarfríi. Munaður kennarans? Ég veit ekki. A.m.k. er þetta ósk meirihluta foreldra í Mosfellsbæ, svo skólarnir hlíta því. Ég er samt fegin að fá þessa þrjá daga. Veitti ekki af. Hef notið þess í botn að hugsa ekki um vinnuna, náði að vinna allt upp svo ég gæti verið í fríi. Kíki helst ekki á vinnupóstinn og spái lítið í skólamálum. Hitti nú reyndar ungana mína alls staðar í bænum, einn skaut næstum fótbolta í mig fyrir utan íþróttahúsið á föstudaginn, aðrir tveir voru á pizzastaðnum sem ég fór á og tveir eru með öðrum syninum í fimleikum. En það er bara gaman að hitta þau fyrir utan skólann. Held að það sé meðmæli með manni að þau heilsi manni.
Það hefur ýmislegt verið gert þessa frídaga, ég hef farið í IKEA (í fyrsta sinn á þessu ári). Hitti þar sjaldséðan hvítan hrafn. Afskaplega gaman að hitta hann (þú veist hver þú ert!). Við spjölluðum lengi og mikið. Svo er búið að taka til í fötum fjölskyldunnar og leyfa fátækum í útlöndum að njóta þess sem við viljum ekki nota lengur. Einnig hef ég aðeins kíkt á eldhús innréttingar, en nú fer að styttast í að við verðum að taka ákvörðun um svoleiðis. Þrifin hafa líka fengið sinn skerf, en aðal skerfurinn af því verður á morgun.
Eitt barnið er svo tillitssamt að vera með hita og verður því heima á morgun. Um að gera - þá þarf ekki að nota veikindadag barns. Hann fær, greyið,reyndar hita einu sinni í mánuði, svo við erum hætt að kippa okkur upp við þetta.
Annars fékk ég senda yndislega mynd af mér, sennilegast tekin haustið ´94. Held svei mér þá að ég lít betur út núna en þá!!
Sá að ég er í rauðu dúnúlpunni sem ég átti. Þessi rauði litur fylgir mér eins og skugginn. Einn daginn mætti ég í vinnuna í einhverjum öðrum lit. Einn strákurinn leit á mig og sagði " hvað ertu ekki í rauðu, þú ert alltaf í rauðu"! Ég varð hálf hvumsa og vissi ekki alveg hvernig ég átti að svara þessu. Fannst þetta yndislegt.
kv. húsmóðirin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2007 | 22:09
Langur tími er liðinn og margt gerst
Það eru nokkrar vikur síðan ég leit hér við síðast. Kennarastarfið tekur mest af orkunni og börnin mín rest. Því hef ég ekki orku til að setjast niður og semja einhverja pistla um daginn og veginn. Mér hefur þó oft dottið ýmislegt skondið og skemmtilegt í hug sem er að sjálfsögðu gleymt og grafið núna.
Það styttist í vetrarfríið, en það hefst næstk. fimmtudag. Það verður kærkomið frí. Ég verð heima fyrir með elsta stubbinn, en hann er í fríi líka. Ég þykist ætla að skúra,skrúbba og bóna ásamt því að rölta Laugaveginn og fara í laaaanga göngutúra. Ég hefði aldrei trúað því hvað maður saknar þess að hreyfa sig, labba úti í góðu veðri hér í dalnum og skoða fellin.
Yngsti stubburinn fagnaði eins árs afmælinu 3.október. Þetta ár hefur liðið ansi hratt. Ég var hálf klökk og bjóst nánast við gráum hárum þann daginn. Honum er alveg sama, var feiminn við gestina - en vildi fá að borða af þeirra diskum. Hann er matmaður með eindæmum.
Fyrir viku síðan ákvað ég að fara í sjónmælingu. Er búin að vera í allt haust illt í augunum, pínu í hausnum og fannst alltaf eins og ég væri þreytt. Svaf og svaf en samt breyttist þessi tilfinning í augunum ekki. Ég datt inn með yngsta stubb í fanginu, mæld í hvelli. Maðurinn leit á mig ósköp rólega og spurði hvort ég sæi ekki illa. Ég leit á hann og bara júúúu´, sko eiginlega. En er alltaf þreytt í augunum, skil þetta ekki alveg. Hann sagði það ekki skrítið, því ég væri fjarsýn með mismunandi styrk á augunum og sjónskekkju. Augun voru því alla daga að reyna að stilla sig inn á góða sjónvídd. Ég dreif mig og mína í þessa búð svo á síðustu helgi og labbaði út hálftíma síðar með gleraugu. Ferlega skrítið. Þessar brillur mínar hafa vakið mikla athygli, ungarnir mínir í skólanum þurftu að fá söguna í smáatriðum á mánudaginn. Og töluðu reglulega um það að það væri skrítið að sjá mig við kennaraborðið með gleraugu.
Það er einn galli að fá svona dót, ég gleymi þeim heima þegar ég er komin í vinnu. Þegar rignir sér maður allt í einu ekki út, ég get ekki opnað pottana lengur, nema taka þau af. Þá sé ég akkúrat ekki neitt og maturinn brennur við. Svo er aðal gallinn sá að þetta er ekki ókeypis og kennaralaunin duga varla fyrir svona gripum. Ég ætla ekki út í kjaraumræður og kennaralaun. Er búin að ákveða að vera jákvæð (eftir MIKLA niðursveiflu um síðustu mánaðamót), fyrirvinnan mín borgaði hins vegar brúsann.
Byrjað er að byggja viðbygginguna hér í Greninu. Sökklar og platan komin, timbur mætt á svæðið í veggi og loft. Vonandi verður komið upp fokhelt hús hér eftir viku eða tvær.
Ég þarf að passa mig núna þegar ég kem úr sturtu því karl eða tveir gætu verið á glugganum að smíða.....
Í dag þurfti kennarinn að fara aðeins í Rúmfatalagerinn (alltaf í vinnunni)... ákveðið var að fara í Smárann. Snilldar hugmynd - not! Held að allir Reykvíkingar og nærsveitamenn hafi fengið þessa sömu hugmynd. Ástæðan var einföld - Toys ´R´Us! Sá elsti var súr og til að múta honum buðu foreldrarnir smá heimsókn í þetta fyrirbæri. Það voru mikil mistök, þarna fór út geðheilsa foreldranna næstu tvær vikurnar...... mannmergðin og hávaðinn var yfirgengilegur. Helst hefði ég viljað labba út, en þegar við sáum (á leiðinni út) að röðin var ekki til &%$%&/(/ þá fengu pjakkarnir að kaupa einn bíl á mann. Þarna fer ég ekki ótilneydd aftur nema kl 10 á virkum degi!!
Þó það hafi verið rólegt í Rúmfó var geðheilsan farin og ekki skánaði skapið þegar jólasveinar mættu okkur þar!! Er ekki alveg örugglega 20.október. Held að ég hafi farið öfugu megin fram úr rúminu í morgun.
Annars mun ég gera afspyrnu skemmtilegan hlut í nóvember. Ætla ekki að segja um hann fyrr en ég er búin að láta vita á ákveðnum stöðum, en það tengist ekki blaðaskrifum eða svoleiðis!
Nú er ég orðin ansi framlág, búin að skoða námsefni á netinu í allt kvöld. Á vaktina í fyrramálið (örugglega afspyrnu snemma) og ætla að skríða í rúmið með eina rauða sögu......
kv. húsmóður kennarinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2007 | 21:38
Kostir kennarastarfsins:)
Það er ýmislegt sem dettur upp úr nemendum í tíma. Í morgun vorum við að ræða um hjartað. Ein stelpan fer að segja frá því að amma hennar hafi fengið fyrir hjartað - í hnénu....Greinilega ekki verið að hlusta á það sem fram fór.
Einn strákurinn var ekki lengi að grípa þetta, leit yfir bekkinn og sagði hátt að sú gamla hefði greinilega verið með hjartað í buxunum.... Þessi setning vakti mikla kátínu meðal bekkjarfélaganna.
Svo þegar maður kemur heim tekur ekki betra við.... í kvöld hef ég verið með hlustarverk. Ástæðan er sú að kennarar í skóla sonar míns kenna honum á blokkflautu og hann hefur verið að æfa sig.
Við skulum orða það þannig að hljóðin hafa ekki alltaf verið fögur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2007 | 14:31
Bendi á....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2007 | 22:24
Furðuleg uppákoma!
Ég lenti í heldur furðulegri uppákomu í vinnunni í morgun. Þegar ég geysist inn á kennarastofuna með sjónvarp og vídeó í eftirdragi segir ein samstarfskona mín, eitthvað í þá veruna að ég sé fræg. Ég horfi á hana - afskaplega ljóshærð- og bara nei ég er ekkert fræg. Hún segir til baka jú jú, þú ert bara í Mogganum í dag. Ég var enn ljóshærðari, kannaðist ekki við nein skrif í Moggann eða þaðan af einhver viðtöl. Ég horfði á hana og skildi ekki neitt í neinu. Þá kemur upp úr kafinu að þessi ágæta kona er áskrifandi að Mogganum og á síðu 6 (eða þar um bil) var mynd af undirritaðri og tilvísun í bloggið mitt.
Ég horfði enn á konuna og var ekki alveg að ná því sem hún var að segja, þangað til rann upp fyrir mér ljós. Ég skrifaði hér inn í fyrrakvöld um Kastljósið. Moggamenn hafa greinilega dottið hér inn og ég er bara í Mogganum í dag....Undir einhverjum lið sem heitir blogg.
Ég komst am.k. að því hverjir kaupa Moggann sem vinna með mér, því ég fékk pikk í bakið nokkrum sinnum og tölvupóst sem hófst á orðunum hæ bloggari!
Ég held að ég hafi alveg gleymt áhrifamætti og útbreiðslu netsins þegar ég fór að skrifa hér inn.
Alla veganna styttist í aðra frétt af mér (sem ég veit af!). En á næstum dögum mun koma út lítil grein eftir mig í tímariti, en ástæðan fyrir þeim skrifum er líka þessi heimasíða.
Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þessa athygli....... ég er svona meira fyrir að vera á bak við tjöldin. Kannski ég bara skelli mér í framlínuna og taki við af Stellu Blómkvist.... skrifi um desperate housewives Mosfellsbæjar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2007 | 20:18
Kastljósviðtal
Ég sá afar athyglisvert viðtal í Kastljósinu áðan.
Þar var mættur Einar Ágúst Víðisson sem sagði frá ferð sinni nánast til helvítis og til baka aftur.
Hann sat þarna pollrólegur og sagði frá því sem á daga hans hefur drifið síðastliðin ár. Æðruleysið uppmálað. Sama hverju hann var spurður að, það kom svar og ekkert svona "greyið ég" dæmi.
Hvet ykkur til að kíkja á þetta á plúsnum eða á netinu.
Held að það megi klappa þessum manni á bakið fyrir sinn bata og sína sögu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2007 | 20:25
Kennarastarfið
Nú eru liðnar nokkrar vikur af kennslunni. Mér finnst þær hafa liðið hratt. Ekki er hægt að segja að lífið sé einfalt hjá Grenis fjölskyldunni.
Mamman er komin í fullt starf utan heimilis, drattast heim seinnipart dags með 3 börn í bíl (smalar saman hist og her um bæinn). Andlega búin á því. Þá tekur við þvottur, heimalærdómur og að ala upp sín eigin börn. Þótt hún hafi alið upp krakkana sína í skólanum allan daginn. Á kvöldin byrjar undirbúningur fyrir næsta dag og þegar ekki er langt liðið á það er hún sofnuð á koddanum - eins og aflóga gamalmenni.
Byrjunin er mikið strembnari en ég átti von á. Andlega er ég alveg búin á því. Kennarastarfið er líkamlega ekki erfitt en andlega orkan fer mikið fyrr.
Ég virðist vera að fá heilmikla eldskírn í vinnunni, að mér skilst, það sem fylgir nemendum er stór pakki - mikið stærri en ég átti von á. Mér var tilkynnt það einn daginn að ég gæti alveg staðið undir þessu. Og er ég að reyna að gera það.
Að mörgu leyti eru krakkarnir í skólanum virkilega skemmtilegir. Ég sé að ég gæti ekki verið að kenna mikið yngri börnum. Mínir krakkar eru að sjálfsögðu best.
Strákarnir eru ánægðir á sínum stöðvum. Sem er mikil blessun og gerir manni auðveldara fyrir að vita af börnunum ánægðum og sáttum. Þá eru allir glaðir:)
kv. húsmóðirin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2007 | 18:53
Þuríður Sundafyllir
Var landsnámskona Bolungarvíkur, a.k.a. Víkurinnar fögru.
Það er til netsíða sem einn athafnasamaður í víkinni stendur fyrir,vikari.is. Þar er nú kominn nýr liður, Þuríður sundafyllir - eða eitthvað í þá áttina. Hún hefur birt 3 greinar. Hver annarri betri.
Ég hef a.m.k. skemmt mér alveg konunglega yfir pennahæfileikum hennar. Hún er augljóslega búsett í víkinni, eða nýflutt þaðan. Eitthvað er hennar síðasta grein að fara fyrir brjóstið á fólki því ég hef séð 2 færslur frá ágætum konum í víkinni þar sem þær sverja af sér að vera þessi Þuríður.
Ég fór því inn á síðuna og las greinina. Ekki skil ég alveg hvað fer fyrir brjóstið á fólki. Grunar reyndar að það sé að hún nafngreinir menn sem hafa verið nefndir í umræðunni um þá einstaklinga sem borga ekki til samfélagsins en borga bara sitt útsvar (eða fjármagnstekjuskatt). Þið afsakið fáfræðina í skattamálum.
Þessi færsla hefur beðið birtingar í nokkra daga en ég náði ekki að klára hana vegna anna. Í gær fór ég inn á víkari.is, og svo virðist sem búið sé að taka hana Þuríði af dagskrá þar. Það finnst mér merkilegt, en þá hefur greinin farið meira fyrir brjóstið á fólki en ég gerði mér grein fyrir.
En góð var þessi Þuríður og hvet ég Baldur til að finna annan svona penna til að skrifa skemmtilegar pælingar og sögur.
Hann Baldur kannski útskýrir þetta fyrir ljóskunni mér ef hann á leið hér um
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2007 | 21:56
Í túninu heima
Nú stendur yfir heljarinar afmælishátíð hér í bæ.
Svakalega skemmtilegt. Það er búið að skreyta götuna bláa og á morgun ætlum við a.m.k. hér í kring að grilla saman. Nú er brekkusöngur við íþróttahúsið og á morgun eru alls konar uppákomur.
Bæjaryfirvöld eiga að sjálfsögðu þakkir skildar fyrir þetta framtak sitt. Þó verð ég að vera pínu leiðinleg og benda á nokkur smáatriði sem væri ágætt að hafa í huga á næsta ári.
Mér finnst að bærinn eigi að ganga á undan með góðu fordæmi, en engar stofnanir bæjarins eru skreyttar.
Það fyrsta er að senda lítið dreifibréf til íbúa og kynna framtakið 1-2 vikum áður, það lesa nefnilegast ekki allir Fréttablaðið.Það gefur íbúum færi á að undirbúa sig og búðunum tækifæri til að birgja sig upp af alls konar dóti, gulu,rauðu, grænu og bláu. Einnig væri hægt að hafa samband við 1-2 aðila í hverri götu til að vera í forsvari eða að koma hlutunum af stað. Maður sér að þetta er hálf óskipulagt kaos hjá fólki að koma sér af stað. Hef þó heyrt af einni götu sem var mjög ákveðin og var skreytt þar kl 18 í gær.
Eitt í viðbót - ég gekk á milli allra búða bæjarins á föstudaginn (nema mjólkurbúðarinnar). Engin búð átti neitt í gulum, rauðum, grænum eða bláum. Einfaldlega vegna þess að búðaeigendur voru ekki látnir vita. Því var afar merkilegt að sjá skipuleggjanda hátíðarinnar halda því fram að búið væri að láta tvo rekstraraðila búða hér í bæ vita, því annar þeirra sagði við mig á föstudaginn (hálf fúll) að hann hefði lesið þetta í blöðunum eins og við hin.
Þó nú mígrigni á Mosfellinga í brekkusöng er ég komin heim skraufaþurr.
Ég hvet alla til að kíkja í sveitina á morgun - bara líf og fjör
Bloggar | Breytt 26.8.2007 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2007 | 21:51
Frú kennari
Nú eru "krakkarnir" mínir komnir til starfa. Þau mættu á miðvikudag á skólasetningu ásamt foreldrum og til starfa á fimmtudag. Við vorum búin að ákveða, í árgangnum, að hafa ekki mikla kennslu fyrir helgi. Það væri alveg nóg að ná þeim niður á jörðina.
Ég held að ég sé bara heppin með bekk, að sjálfsögðu eru þau best. 19 stykki, örlítið að kíkja á gelgjuna. En samt yndisleg og svo hrein og bein.
Ég get sagt það hér (því hvorki þau né foreldrar þeirra kunna að gúggla) að ég var að deyja úr stressi. Man ekki helminginn sem ég sagði við foreldrana og gleymdi hinum helmingnum. Þau voru a.m.k. fljót út! Ég var reyndar fegin að það væri komið helgarfrí, en jafnframt frekar stressuð yfir næstu viku. Stefni því á að kíkja í vinnu um helgina.
Það var mjöög skrítin tilfinning að skilja bækurnar og dótið eftir í skólanum og fara bara heim. Ég er vön úr æfingakennslunni að taka með mér heim og stúdera fram á kvöld.
Makinn hefur verið í 2 vikna fæðingarorlofi. Hann hefur tekið að sér heimilið, að mestu, aðlagað barnið hjá dagmömmu og slasað sig. Að sjálfsögðu tók hann karlmennið á hlutverk sitt og fór að taka til í bílskúrnum sem endaði með heimsókn á heilsugæsluna og saman saumi.
Hann verður mjög feginn að komast í vinnu á mánudaginn, enda er hann farinn að sjá að það getur verið afskaplega einmanalegt að vera heima við og ekki svoo spennandi.
Nú er sá yngsti farinn i bólið og hinir að rigna niður á brekkusöng Mosfellinga. Ætla því að henda mér í sófann.
kv. húsmóðirin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)