26.7.2008 | 14:46
Uppákoma morgunsins!
Í morgun fór ég í Bónus og með í för voru yngsti og elsti. Við röltum gegnum búðina, hittum "tengdadótturina",kanínuungann hennar og svo móður tengdadótturinnar. Áfram röltum við og týndum í körfu það sem vantaði heima fyrir.
Þegar ég er svo búin að borga og er að raða í poka, hittum við fyrir lítinn vin þess yngsta. En þeir voru saman hjá dagmömmu. Við mæðurnar förum að tala saman. Þeir voru ósköp feimnir fyrst en feimnin rjátlaðist svo fljótlega af þeim. Þeir (tæplega tveggja ára) fara að taka í körfur hvors annars. Eitt skiptið tekur vinurinn í okkar körfu og minn gólar á hann (þetta var ekki öskur trúið mér). Allt í einu heyri ég að maður segir "öskraðu heima hjá þér". Ég sný mér við og horfi á manninn. Hugsa sem svo að mér hlyti að hafa misheyrst. Svo segir hann aftur mjög hvasst við barnið mitt, hættu þessu. Ég lít við og horfi á hann. Þá byrjar hann að segja þetta enn einu sinni hættu þessu, öskraðu heima hjá þér. Ég segi við hann - alveg orðlaus - ertu ekki að grínast?! Nei segir hann, miklu hvassari og pirraðri en fyrr.
Ég varð svo orðlaus að ég held að það hafi verið nýtt met. Horfði á hina móðurina, sá að fólkið í kringum okkur fór að horfa á okkur. Hann vildi meina þessi maður að börn ættu ekki að öskra í búðum, heldur ættu það að vera heima hjá sér. Ég spurði hann þá hvort hann ætti börn.Og fékk til baka mjög svo pirrað - já ég á börn!
Svo hélt hann áfram að ef ég gæti ekki siðað börnin mín til ætti ég að fá mér hund. Til hvers í ósköpunum veit ég ekki. Þá kallaði stelpan sem var með mér á eftir honum - hvort ætti þá að berja hundinn til.
Í þessum kafla er ég að gleyma einhverju sem okkur fór á milli. Mér varð svo mikið um að ég horfði orðlaus á hina móðurina og spurði hana svo, hvort þetta hefði virkilega gerst.
Ég kom heim niðurbrotin og alveg fullviss um að mínir móðurhæfileikar væru minni en engir (þar sem barnið mitt gólaði á annað barn), en þá kom í ljós að betri helmingnum fannst þetta ægilega fyndið. Ég sagði við hann að hann hefði átt að vera með mér, svo annað okkar hefði getað svarað þessum leiðinda karli.
En þegar frá líður, má segja að ég finni til með þessum manni. Mikið hlýtur honum að líða illa.
Ég verð a.m.k. tilbúin í næstu Bónus ferð - ef ég mæti honum
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.