9.8.2008 | 22:13
Líður að hausti.
Nú er verslunarmannahelgin að baki og farið að hausta (ef ekki í veðri þá í huganum).
Þessari helgi eyddum við á Akureyri. Erum svo heppin með vini að eitt par bauð okkur bústað sinn í Vatnsdalnum og annað par bauð okkur húsið sitt á Akureyri. Því vorum við eins og forstjórar á ferðinni. Heitur pottur á einum stað og einbýlishús með trampolíni á öðrum (ég veit að kröfurnar eru ekki miklar!).
Eftir helgina má segja að ég sé að komast í vinnugír. Farin að hlakka til að mæta í vinnuna og hitta grísina mína þar. Eins er ég farin að fá kvíðahnút yfir kennslunni í vetur, námsefnið er í huga mér. Og er nettur hnútur þar. Við erum að skipta aðeins með okkur námsefninu og í minn hlut kom enska og samfélagsfræði. Hef ekki litið á enskubækurnar, en skoðað hina bókina í Kennó og er alveg grunlaus um það hvernig ég á að kenna hana. Mun velta því fyrir mér alla vikuna og þá næstu líka.
Tók forskot á "sæluna" og kíkti í vinnuna á fimmtudaginn. Það var voða notalegt að rölta um tóma ganga skólans, vitandi það að eftir 2 vikur munu þeir fyllast (og meira en það) af börnum.
Ég hef fengið nokkur skot með sumarfrí kennara, sum á þá leið að ég sé alltaf í fríi, sumarfríið vari í marga mánuði og að fríið sé of langt. Eftir síðasta vetur sé ég að þetta frí er nauðsyn. Kennarastarfið í dag er orðið það andlega lýjandi,streituvaldandi og mikið áreiti að fólk þarf þennan tíma til að hlaða batteríin.
Í vor var ég orðin það þreytt að það kom fyrir að ég leitaði dauðaleit að skónum mínum - fann þá ekki, fór heim á inniskónum og svo var skóparið sem ég var að leita að heima. Þá fór ég í öðrum skóm, en spáði ekkert í því pari í skóhillunni. Þann 4.júní átti ég ekkert eftir af minni orku. Þegar krakkarnir mínir gengu út í sumarið má segja að ég hafi nánast lyppast niður. En það var í raun ekki í boði því 2 dögum seinna fórum við í skólanum í námsferð til Frakklands.
Í Frakklandi var gaman að sjá og fá að bera saman mun á menntakerfunum.
Þar er sumarfrí kennara og nemenda 2 mánuðir, hjá okkur eru það nokkrum vikum lengur. Frakkarnir eru í fríi frá 2.júlí til 2.september. Ástæðan er sú að það er of heitt á þessum tíma til að vera innan dyra.
Hér erum við kennarar í að kenna, athuga með forföll, láta hringja í heim (gera það jafnvel sjálf), reka úr tíma og fylgjast með að gemlingarnir skili sér á skrifstofuna (sem þeir gera ekki alltaf) o.s.frv. Í skólanum sem ég fór í í Frakklandi var sér deild í því að athuga með krakkana, kennarinn kenndi. Aðrir sáu um að tala við þá sem t.d. voru reknir úr tímum, aðrir athuguðu með þá sem ekki mættu í tíma o.s.frv.
Eins var aðstaða kennara, t.d. á kennarastofu mikið betri hér á landi. Reyndar var ýmislegt sem við hefðum getað tekið til okkar, t.d. súkkulaði veggur, en þá komu kennarar með bréf utan af súkkulaði sem þau borðuðu og hengdu á vegg. Eins var ísskápur með fullt af öðru en mjólk(og giskið nú!).
Skólalóðin í skólanum úti var afgirt, annað en við þurfum hér. Skóladagurinn er öðruvísi, siesta um miðjan daginn hjá þeim. Kennt til 16.30 í stað 13-14 hér.
Þetta var, fyrir mig, upplifun að sjá.
En í vinnugírinn er ég að komast. Batteríin að verða fullhlaðin. Vikan verður þó annasöm. Að venju þarf að reita,tæta og lita hár. Aðlaga barn á leikskóla. Og svo er hin venjubundna hreiðurgerð. Þrífa og taka til í skápum, laga til á háalofti og annað "nauðsynlegt" sem til fellur.
Í skólann fer ég á föstudaginn.. og veit að eftir 10 mánuði verð ég orðin afar þreytt aftur og tilbúin í sumarfrí
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.