10.10.2008 | 19:56
Dýra bensínið.
Það má orða það þannig að þessi vika hefur verið erfið fyrir okkur hér í Greninu. Ástæðan er sú að betri helmingurinn vinnur í Landsbankanum. Need I say no more?
Hefði aldrei trúað því hvers konar rússíbanareið nagandi óvissa hefur. Gærdagurinn var laaaang verstur. Litli Landsbankamaðurinn minn sagði þetta hafa verið versta dag sem hann hefur lifað. Og þó dó enginn.
Hann var ekki skárri hjá mér, þó ég hafi verið örugg með mína vinnu! Það var eftir kl 16 sem hann hringdi loksins og sagðist fá að vera með. Þvílíkur léttir. En fyrir hann komu svo aðrar tilfinningar sem snúa að því að kveðja þá sem fengu ekki að vera með. Þessi dagur er því á toppnum yfir slæma daga.
Vegna alls þessa hef ég ekki verið í ástandi til að segja frá samskiptum okkar, Landsbankamannsins og mín, sem áttu sér stað síðastliðinn þriðjudagsmorgunn.
Hann hringdi í mig um kl 9.30 og sagði mér að fara og taka bensín, því verðið væri að hækka. Hlýðin konan fer af stað (aldrei þessu vant). Í beljandi roki og rigningu.
Úti við Atlantsolíu stóð ég og ringdi niður á meðan ég fyllti bílinn. Þegar ég svo sest inn er ég svo blaut að ég varð að fara heim og skipta um föt.
Þegar ég er svo að labba upp stigann í skólanum hringir hann aftur. Og spyr hvort ég hafi nokkuð verið búin að taka bensín..... Jú segi ég, þá segir hann af hverju?! Því bensínið er að fara að lækka um tíkall!!
Ég varð svo reið að það var eins gott að ég náði ekki í hann. En fólkinu mínu í skólanum fannst þetta ægilega fyndið. Og kom annar skólastjórinn og knúsaði mig stuttu seinna og spurði hvort ég væri búin að jafna mig.
Ég keyri því þessa dagna á ægilega dýru bensíni... og bíð eftir að komast á Atlantsolíu aftur til að taka bensín á lægra verði......
Athugasemdir
Gott að heyra að óvissu hafi verið létt. Hrikaleg staða sem enginn vill vera í. Hugur minn er hjá þeim sem ganga í gegnum þessar hrmmingar í ofanálag við allt annað sem er að gerast.
Góða helgi mín kæra, njóttu þess að aka um á lúxus bensíninu. Það geta ekki allir
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 11.10.2008 kl. 01:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.