31.5.2007 | 22:18
Fræga fólkið:)
Ég ætlaði að vera svo ægilega sniðug að setja inn mynd af frægu fólki sem ég líkist. Tölvunördinn stóð sig ekki betur en það að það gekk ekki.
Annars hef ég verið á fullu undanfarna daga að undirbúa mig undir sumarfrí fjölskyldunnar og legið í sólbaði. Er því bara hvít núna - ekki off white.
Í morgun fékk ég þá hugdettu að fara í göngutúr á nýja vinnustaðinn. Hann er hinu meginn í bænum. Af stað örkuðum við mæðginin. Á áfangastað komumst við eftir tæpar 40 mín. Ég ætlaði að taka svo strætó heim en rétt missti af honum. Því ákvað ég að labba til baka. Þegar ég var komin langleiðina langaði mig svo hriiikalega í hamborgara. Að ég VARÐ að láta undan freistingunni. En mikið sé ég eftir því núna..... borðaði á mig allar hitaeiningarnar sem ég brenndi (og er ég ekki að telja þær!). Ég stend mig bara betur næst. Í gærkvöldi tók ég fram hjólið mitt, hef ekki notað það í heilt ár. Lærvöðvarnir hafa greinilega líka verið í ársfríi.... þetta var ekkert grín
Fyrr í kvöld var vorsýning í skólanum hjá syninum. Þar spilaði bekkurinn hans á blokkflautu. Voða flott. En senuþjófarnir voru 6 ára gömul börn sem sungu Heiðulagið úr Eurovision af mikilli innlifun. Þau voru æðisleg.
Þá sjaldan eitthvað er að gerast í social lífinu kemur allt upp á sama dag. Á morgun er okkur boðið á tvo staði - á sama tíma. Það verður voða gaman.
Hún Beggý vinkona mín á afmæli í dag. Nú er hún búin að ná mér..... Við erum ennþá tuttugu og eitthvað. Til hamingju yndislega mín og njóttu kvöldsins.
kv. Húsmóðirin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2007 | 22:09
Hetja fallin
Það eru sorglegar fréttir sem berast um landið að Ásta Lovísa sé fallin frá.
Ég fylgdist, eins og margir, með bloggi hennar og baráttu við þennan vágest sem krabbamein er.
Fjölskyldu hennar, föður, börnum,systkinum og öðrum ættingjum votta ég innilega samúð mína.
![]() |
Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir látin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2007 | 21:33
Afgangur og brúðkaup
Á meðan Haukur var í Bandaríkjunum komu sundstelpurnar til mín eitt kvöld og héldu mér félagsskap.
Ákveðið var að panta pizzu. Húsmóðirin fór í það af miklum eldmóð.
Pantaðar voru 4 pizzur, ein lítil og brauðstangir. Við vorum 7. Það sem sést á myndinni eru bara pizzasneiðarnar sem voru eftir, brauðstangirnar voru á öðrum stað í ísskápnum.
Við komumst að því að við getum ekki lengur borðað hálfa til heila pizzu á mann. Við erum að eldast
Á mánudaginn kemur hópurinn í fjölskyldugrill til mín. Þá kemur hver með sitt, svo ég sit ekki uppi með afganga í heila fermingarveislu þá.
Annars var dagurinn hér rólegur. Kiddi og Haukur fóru með vinnufélaga Hauks sem staddur er á landinu í útsýnisrúnt um Vesturlandið.
Vinnufélaganum fannst MJÖG merkilegt að við Haukur ættum 3 börn og ekki enn gift. Við skötuhjú fórum svo að ræða þennan menningarmun þegar lítil eyru heyrðu til. Hann spurði af hverju við værum ekki gift, hvenær við ætluðum að gifta okkur -á morgun eða í ágúst! Ég sagði honum að ræða þetta við pabba sinn.
Á ekki einhver hnéhlífar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2007 | 22:36
Mölbrotinn, pólitík og fimleikar
Ég var ekki lengi að lesa hann James Frey upp til agna.
Þessi bók er hrein snilld. Hún er mjög hrá, þ.e. textinn er beinskeittur og maður skynjar tilfinningar textans í gegnum bókina. Lýsingarnar eru þannig að í eitt sinn hryllti ég mig.....hef aldrei lent í því áður.
Hann gefur skít í ákveðna hugmyndafræði sem ölkum og fíklum er uppálagt að kynna sér. Og er enn á lífi í dag. Þessi höfundur er víst mjög vinsæll og hafa bækur hans fengið góða dóma. Ein bókin var m.a. valin í bókaklúbb Opruh vinkonu minnar.
Nú er Stella Blómkvist á náttborðinu (eða gólfinu, á ekki náttborð!). Stella er þar að rekja upp einhverja fléttu sem tengist morði í Rockville.
Ég er ekki hissa á viðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þetta var allt makkað í reykmettuðum bakherbergjum - eins og komið er á daginn. Framsóknarmenn sársvekktir. En ættu, að mínu mati, að líta í eigin barm og láta af valdgræðginni. Tjasla sér saman og mæta sterkir eftir 4 ár. Svo er bara kominn tími á sumarfrí í pólitíkinni. Held að þjóðinni veiti ekki af.
Í morgun fór húsmóðirin á einkar ánægjulega fimleika sýningu hér í sveitinni. Sonurinn er að æfa fimleika og í morgun var vorsýning Aftureldingar. Þarna voru fullt af litlum maurabörnum sem fóru í kollhnísa um öll gólf, beint, á ská, skakkt og liggur við afturábak. Hrikalega krúttileg!
Sonurinn er ekki frægur fyrir stórt hjarta. Hann stóð sig eins og hetja (að sjálfsögðu!). Skimaði um alla palla að leita að fólkinu sínu. Svo þegar hann sá okkur veifa þá birti yfir honum og hann fór af stað keikari en þegar hann gekk inn á völlinn. Hann var satt að segja greyið - skelfingu lostinn. Sem er í raun ekki skrítið því þarna voru mörg hundruð manns samankomin. Hann hefur hingað til varla þorað að syngja fyrir framan nokkra foreldra á samkomum í leikskóla og skóla.
Set inn myndir af honum á morgun. Svo fékk hann verðlaun. Ægilega stoltur.
En nú þarf húsmóðirin að fara í rúmið.Er þreytt eftir daginn og á morgun er Mjallhvítar hittingur. Þar er mikið talað og hlegið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2007 | 22:22
Mölbrotinn
Ég er þessa dagana að spæna upp bók sem ég tók á bókasafninu (og ekki rauða serían). Hún kemur svo á óvart að saumaskapurinn fær að dúsa í töskunni
.
Bókin heitir Mölbrotinn eða A million little pieces. Hún er skrifuð af James Frey og er snilldarverk. Að mér skilst er hún sannsöguleg um meðferð hans við fíkniefnadjöfulinn. Ég er kominn á bls 200 og eitthvað og er alveg hooked á henni.
Þegar ég er búin með bókina geri ég henni greinargóð skil. Spurning hvort ég fari að hafa svona sér kafla á blogginu um bækurnar sem ég les.
Kannski gæti ég slegið Ellý Ármanns við með villtum bloggum um samskipti para - þvi ég les mikið úr rauðu seríunni. Best að ég leggi hausinn í bleyti, það er eitt sem er á hreinu, hugmyndaflugið er í lagi hjá mér.
Er farin í rúmið með honum James.... Haukur er ekki heima - þá tek ég þann næsta sem er til taks (þó hann sé úr pappír!).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.5.2007 | 13:29
Pólitíkin í Mosó
Minnir um margt á pólitíkina heima í Víkinni. Hún er ansi óvægin, hörð og á köflum persónuleg með skítkasts ívafi.
Það sem á hefur gengið síðastliðið ár eftir að Varmársamtökin voru stofnuð er oft á tíðum með ólíkindum. Að fullorðið fólk láti svona.
Nú bý ég ekki langt frá þessum fræga stað, Álafosskvosinni. Ég hef skoðað þennan trjárunna sem öll lætin hafa verið út af. Ég hef kynnt mér málstað beggja aðila. Ég stóð heilsugar með þessum samtökum í upphafi - vegna þess að þau voru, að mínu mati, að kynna fyrir okkur hinum hvernig stjórnvaldinu hér í bænum er háttað. Það var þörf á að ræða þessi vinnubrögð ákveðinna aðila í meirihlutanum. EN það gerir fólk ekki með kjafthætt og asnaleg heitum.
Varmársamtökin vilja færa tengibrautina frægu hér uppeftir til mín. Það vil ég ekki sjá. Þeir vegir sem hér eru uppfrá eru á mörkunum að taka á móti þeirri aukningu bíla sem fyrirsjáanleg er. En Vesturlandsvegurinn er hins vegar betur til þess fallinn, auk þess sem bílarnir eru þá komnir strax út á stofnbrautir í stað þess að flækjast í hverfinu.
Nú er svo komið að ég á ekki til orð yfir ákveðna aðila í Varmársamtökunum. Þeirra barátta er komin út í rugl og vitleysu. Þeirra barátta hefur í auknum mæli færst inn á internetið með alls konar skrifum og skítakommentum undir nafnleynd í allar áttir.
Mér finnst Álafoss kvosin minna um margt á Grjótaþorpið. Það sómir sér vel innan um nýrri hús og nýrri hverfi. Þar er gaman að rölta um.
Í guðanna bænum byggið þetta hverfi, föndrum Álafosskvosina þar inn í og leyfum henni að dafna í návígi við íbúðarhverfi og skarkala mannlífsins. Það eykur aðdráttarafl hennar heldur en hitt.
p.s. Ég tek það skýrt fram að ég hef ekki Guðmund um það hverjir spellvirkjarnir eru. Vona að fullorðna fólkið sé saklaust af þeim
![]() |
Skemmdarverk unnin á vinnuvélum í Helgafellshverfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.5.2007 | 15:35
Break up hjónabandsráðgjöf
Í fyrsta sinn í vetur ákvað húsmóðirin að slá "vinnunni" upp í kæruleysi og finna sér mynd til að horfa á.
Fyrir valinu varð mynd sem mig langaði til að sjá en Hauki alls ekki. Break up með Vince Vaughn og Jennifer Aniston.
Þessi mynd er snilld. Hún lýsir svo vel daglegum veruleika í samböndum. Án alls vafa hafa ansi margir farið í hjónabandsráðgjöf með akkúrat þessi vandamál. Hann skilur mig ekki, hendir fötunum sínum út um allt, er með fæturna upp á stofuborðinu og keypti ekki það sem ég bað hann um!
Ég veit hvað tíminn kostar hjá svona ráðgjöfum - myndin á Skjánum kostar 550 kr.
Horfið á hana og ræðið svo saman hvað þið viljið frá hinum aðilanum,kynnið fyrir honum óhreina tauskörfuna eða hvað ykkur langar til að gera.
Reyndar endar myndin á þann veg sem fólk sem fer til ráðgjafa vill kannski ekki - en góð dæmisaga engu að síður.
Ég skemmti mér konunglega - því ég hef sjálf staðið og tuðað um nákvæmlega sömu atriði. Haukur má þó eiga eitt sem hann Vince greyið gerði ekki - hann hlýðir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.5.2007 | 09:13
Eru kjósendur fífl?
Ég sat, eins og margir, og horfði á kosningasjónvarpið á laugardagskvöldið. Þar sögðu bæði Jón og Valgerður að Framsókn hefði ekki að gera í ríkisstjórn með þetta lítið fylgi á bakvið sig.
Í gær var svo allt annar tónn. Þá sagði Jón að þetta gæti alveg gengið, stjórnin hefði ekki fallið (sem er vissulega rétt). Jafnvel mætti ræða um utanþingsráðherra (s.s. hann).
Telja Framsóknarmenn að þeir eigi erindi í ríkisstjórn með þetta mikla fylgistap á bakinu? Er ekki kominn tími á að þeir dragi sig í hlé og vinni að því að efla flokkinn.
Ég var a.m.k. mjög hissa á að heyra í formanninum í gær. Manni sem datt út af þingi og stýrði flokknum í baráttu sem þeir stórtöpuðu í. Hroki var eitt orð sem mér datt í hug.
Vonandi sjá þessir ágætu herramenn að sér og hvíla flokkinn fyrir okkur næstu 4 árin.
Ég segi flokkinn því ég tel meiri líkur en minni að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í stjórn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.5.2007 | 13:33
Erfið kosninganótt
"Farin að sofa. Pabbi úti, ríkisstjórnin fallin. Serbnesk trukkalessa vann Eurovision(tilvitnun í Pál Óskar)".
Svona hljóðaði sms sem ég sendi makanum um kl 23 í gærkvöldi. Hann var á heimleið með stoppi í Boston.
Við sem stöndum að stjórnmálamönnum horfum allt öðruvísi á kosningakvöld en "almenningurinn". Þetta kvöld er því ekki eintóm skemmtun og sæla. Heldur oft stress og hnútur í maga.
Gærkvöldið var sko engin undantekning. Kallinn var alls ekki inni - heldur úti í móa. Eftir tvennar tölur úr villta vestrinu ákvað ég að fara bara að sofa. Hafði ekki taugar í þetta meir. Svefninn lét svo á sér standa - ásamt kikkum á klukkuna mjög reglulega. Þegar sá yngsti lét á sér bæra undir morgun fór ég á netið. Þar var kall úti í móa - ennþá. Um kl 6 var hann kominn í sjónmál en þurfti 1100 atkvæði og rúmlega það. Ég ákvað að bjóða honum starf við barnapössun
Þá fór ég með börnin til Keflavíkur að sækja makann. Það er svo þegar við erum að renna inn í Hafnarfjörð á heimleið sem að síminn hringir. Ég hélt að eitthvað hefði gerst (hugsar maður ekki svoleiðis þegar síminn hringir kl 7 að morgni?). Í símanum var mamma. Hálf æst - pabbi þinn var að detta inn!! Ég get alveg viðurkennt að æsingurinn fluttist í gegnum símalínuna. Ég hélt að hún væri að grínast í mér.
Árið 1995 var hann inn og út af þingi fram undir morgun, þessi nótt var engin undantekning. Hann sannaði sig um kl 9 í morgun.
En mikið mikið mikið er ég fegin. Við vissum auðvitað að þetta gæti brugðið til beggja vona, og hann má eiga það að hann tók þessu öllu af miklu æðruleysi og var með báðar fætur á jörðinni allan tímann. Hann sannaði mál sitt gagnvart Framsókn. Tók af þeim fylgi og þingsæti.
Innilega til hamingju pabbi minn..... þú passar bara eftir 4 ár
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2007 | 20:45
Dagar 4,5 og 6!
jæja nú er vikan bara að verða búin. Tíminn hefur liðið hratt. Það er ekki hægt að segja annað en að húsmóðirin er orðin hálf framlág.
Það er enginn annar til að ryksuga, ganga frá í eldhúsinu, setja á klósettið, í vél og úr, setja á snúrurnar, læra heima með börnunum, sækja og skutla, elda o.s.frv.
Í gær ákvað ég því að slá þessu upp í kæruleysi og setjast niður og horfa á Grey´s.
Þar sem ég er búin að "plögga" í eyrun til að hlusta og horfa, verð ég vör við að útvarpið er enn í gangi.
Ég stend upp og rölti í stofuna til að slökkva á því. Allt í einu finn ég að ég stíg á eitthvað. Þá var það dót sem lá á teppi. Ég man ekki eftir mér fyrr en ég steinligg á gólfinu. Hel aum á báðum lærum UTANverðum og öðru hnénu. Ég giska á að ég hafi stigið á dótið og um bastkörfu sem var á gólfinu. A.m.k. er karfan brotin. Áður en ég kútveltist á gólfinu.
Ég sá í þann mund sem ég hrundi í gólfið að kona var að koma með Fréttablaðið til nágrannans.... hún kom ekki með það til mín.
Kannski vegna þess að hún horfði á aðfarirnar og mig kútveltast þarna um.
Ég fór að hugsa það eftir á að það er mildi að ég meiddist ekki meir eða rotaðist. Því enginn hefði farið að undrast um mig fyrr en kl 16 þegar börnin voru ekki sótt. Ekki eru margir heima hér nálægt - svo enginn hefði heyrt í Tómasi gráta í vagninum.
Nú þarf að koma krílunum í rúmin. Svo ætlar húsmóðirin að taka því rólega.
Munið x-F á morgun....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)