Færsluflokkur: Bloggar
20.3.2007 | 14:34
Lyklar og rúntur
Ég er búin að taka þá ákvörðun að fara ekki á þennan rúnt sem B&L buðu mér og makanum í.
Ástæðan er einföld - ég ætla ekki að skipta um bíl strax (vil frekar nýtt eldhús) og því er bara hættulegt að fara í svona rúnt. Svo eiga góðir vinir okkar, fyrrnefnd Maggi og Anna Rún, svona bíl og ég veit að þau eru til í að bjóða mér í ísrúnt eitthvert kvöldið. Svo ég þarf ekki að finna pössun til að ég komist í einhvern pjattrúnt
.
Annars var ég spurð að því í gær hvar húslyklarnir voru. Þeir voru á svo fyrirséðum stað að ég vildi helst ekki upplýsa það!!
Lyklarnir voru undir 10 tonnum af þvotti sem lá á eldhúsborðinu. Bree Van de Kamp var ekki komin lengra með þvottinn þegar sonar tryppið lagði þá á borðið. Þegar Bree tók sig svo til og braut saman þvottinn lágu þeir á borðinu. Ef þetta er ekki ekta Dagný þá veit ég ekki hvað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2007 | 21:06
Undarlegt símtal.
Við fengum merkilegt símtal í dag. Á tímabili hélt ég að þetta væri djók.
Makinn varð hálf undarlegur í framan og vissi greinilega ekki hvaðan á sig stóð veðrið.
Í símanum var manneskja frá B&L og var hún að bjóða okkur á rúntinn næstkomandi miðvikudagskvöld kl 18. Ég hélt að þetta væri svona 2 daga reynsluakstur eins og Ingvar Helgason auglýsir núna.
Þá var þetta rúntur í kringum borgina og endað á Stokkseyri. Þessi rúntur tekur 3 tíma.
Ég hélt að þetta væru vinir okkar Maggi og Anna Rún sem stæðu fyrir þessum hrekk. En Anna Rún sór allt af sér....
Ekki er gert ráð fyrir börnum - svo er einhver til í að passa... Ég hafna ekki rúnti sem þessum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2007 | 21:02
Barnafjölskyldur og ríkið.
Ríkið tók þá ákvörðun að lækka VSK af matvælum 1.mars síðastliðinn. Frábært framtak - a.m.k. hjá þeim búðum og birgjum sem leiddu þessa lækkun í vasa neytenda en ekki sína eigin vasa.
Það er nokkuð merkilegt að bleyjur og blautþurrkur eru ekki þar á meðal. Akkúrat það sem barnafólkið þyrfti á að halda. Ég vil frekar borga meira fyrir nammið mitt en bleyjur barna minna. Einnig voru dömubindi undanskilin. Síðast þegar ég vissi voru konur helmingur mannkyns og alveg merkilegt að þetta sé udanskilið líka. Kæmi mér ekki á óvart að ef karlar væru á svona mánaðarlegum basis yrði lækkun.
Í dag var svo farið og keypt peysa á elsta soninn. Þar þurfti ég að borga tæpar 3000 fyrir peysuna. Allt í góðu að borga fyrir peysuna, barnið þarf jú að eiga föt.
En af hverju ætli ríkið komi ekki til móts við barnafólk með því að fella niður vask af barnafötum og dóti, eins og t.d. Bretar gera. Ef ríkið myndi gera þetta myndu íslenskar húsmæður frekar fara í verslunarferðir í Kringluna og Smáralind en til Glasgow... Eigum við ekki frekar að eyða peningunum okkar hér heima heldur en erlendis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2007 | 21:11
Leyndarmál og hetjur
Þó það hafi marga kosti að alast upp í litlum bæjum þá getur það líka haft sína galla.
Einn gallanna er sá að ekki "má" segja allt upphátt. Þegar ég var að alast upp vestur í Bolungarvík voru nokkrir aðilar sem misnotuðu ungar stelpur, allt frá áreiti í verri hluti. Á þeim tíma heyrði maður af þessum mönnum og var uppálagt að forðast þá.
Þegar maður eltist komst maður að því að angar þeirra lágu víðar, miklu víðar en maður gerði sér grein fyrir. Allir vissu af þessu og enginn gerði neitt. Mönnum var sagt að hætta og sumum gert að flytja úr bænum. Svo þeir gætu áreitt annarra manna börn.
Í dag eiga margar stelpur erfitt vegna þessara manna. Þó hefur ein stelpa staðið sig eins og hetja við að segja sína sögu. Öðrum víti til varnaðar.
Hún á skilið stórt klapp á bakið. Hún er manneskja sem maður má vera stoltur af að þekkja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.3.2007 | 14:44
Sjóslys
Mætur maður sagði í viðtali fyrir 12 árum síðan að það væri bara fyrir vant fólk að búa á Vestfjörðum. Mér fannst þetta vel orðað og hárrétt. Því veðráttan og búsetuskilyrði eru ekki alltaf góð. Eins og við vorum illþyrmilega minnt á í gærkvöldi.
Í æsku minni í Bolungarvík var tvennt sem manni stóð stuggur að, sjóslys og snjóflóð. Í þá daga voru sjóslys tíðari en þau eru í dag en það sem aldrei gleymist er samheldni og sorg alls byggðarlagsins þegar þau gerðust.
Í dag er samheldni Ísfirðinga órofin og byggðarlagið slegið vegna slyssins í gær.
Fjölskyldur mannanna tveggja eiga samúð mína alla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2007 | 21:48
Týnt!
Eins og þeir vita sem mig þekkja þá á ég þrjá syni. Afskaplega vel af guði gerðir og með eindæmum líflegir.
Nú er svo komið að sá í miðið var að skoða húslykla móðurinnar í dag. Hann sást reyna að troða þeim niður um gat í gluggakistu stofugluggans og í gegnum rimla á leikgrindinni. Gallinn er hins vegar sá að lyklarnir hafa ekki fundist síðan.
Sonur góðra vina okkar er nokkrum tímum eldri en umrædda miðju barnið. Sá felur lykla foreldra sinna alltaf á ákveðnum stað, í sparkbíl. Svoleiðis tæki er ekki til hér.
Svo mig vantar hugmyndir að því hvar lyklarnir gætu verið niðurkomnir .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2007 | 22:29
Gærkvöldið
Helgarnar hafa oft verið erfiðar þegar maður á fullt af börnum... allir þreyttir og tættir eftir vikuna - og ástandið eftir því.
Á síðustu helgi fékk makinn þá flugu í höfuðið að fara í Kringluna. Strákarnir voru eins og á rítalíni um allar jarðir. Miðju barnið endaði á að hlaupa á innkaupakerru í Hagkaup og steinliggja á gólfinu.... Mamman var orðin tæp eftir því. Það jákvæða við ferðina var að við hittum ljósuna sem tók á móti bæði miðju og yngsta börnunum. Yndislegt að hitta þá konu, enda þekki ég hana ágætlega fyrir.
Það var því á hreinu þessa helgina að engin Kringluferð yrði farin (eða þetta árið ef út í það er farið!). Ástæðan var einföld gamla settið var að fara á djammið. Í ANNAÐ skiptið á árinu!
Árshátíð Símans var í gær. Húsmóðirin tók þetta með trompi - fór í litun og plokkun,strípur og keypti kjól. Kom börnunum í pössun,skutlaði makanum í fyrirpartý og fór svo heim með yngsta stubbinn og hafði sig til á meðan sá stutti galaði á Söngvaborg. Móður eðlið gerði það að verkum að ekki var farið í fyrirpartý. Þegar búið var að sparsla í hrukkur, hífa upp rassinn í viðeigandi sokkabuxum var kominn tími til að fara með stubbinn í pössun. Pössunin var nú ekki langt undan - bara svona 4 hús!
Barninu var hent inn (í orðsins fyllstu). Hann brosti framan í Dagmar... og sagan segir að hann hafi gert það allt kvöldið. Hafi ekki einu sinni grátið. Sem húsmóðirin skilur ekki alveg, því á fimmtudaginn fór hún í strípur og hann galaði á föðurinn svo til allan tímann.
Alla veganna fór svo skvísan á árshátíð. Og er alveg óhætt að segja að þetta hafi verið bæði flottasta og stærsta árshátíðin sem hún hefur mætt á. Maturinn var æðislegur, borðfélagarnir mjög góðir og ekki var það til að skemma fyrir að tvö vinapör voru á svæðinu. Fólk sem við hittum ekki oft.
Þegar borðhaldi lauk var tjúttað við Todmobile þangað til gerð var tilraun til að skjóta dansfélaganum í gólfið (í orðsins fyllstu) en yours truly greip hana!! Þá hrökk húsmóðirin upp við að klukkan var orðin langt fram yfir háttatíma og því var makinn drifinn heim.
Það hafa því verið þreyttir foreldrar hér í dag. Yngsti stubbur var sóttur í nótt og borinn heim. Hinir eldri komu í morgun með ömmunni.
En það er fyrsta ellimerkið þegar maður fer seinna að sofa en vanalega og er þar með með ónýtan næsta dag. Þar sem húsmóðirin drekkur ekkert sterkara en malt er þynnkan ekki áfenginu að kenna.......
Eins og áður sagði spilaði Todmobile undir dansi.... og LayLow undir borðum - eins og kynnirinn sagði!! Ég fann hana hvergi þegar ég lyfti upp dúknum.
Eyþór Arnalds söng eitt gott lag - I´m still standing.......
Held að það sé mikið til í því - hann virðist vera eins og kötturinn kemur alltaf niður á fæturna.
Ég bíð spennt eftir árshátíð Símans á næsta ári ef Todmobile er standardinn sem þarf að miða við - ætli Sálin verði næst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2007 | 09:41
Samvinnurþróunarstofnun
Það var kostulegt að sjá fréttir í gær þess efnis að Sighvatur Björgvinsson var að lýsa mikilli vanþóknun á starfsemi Utanríkisráðuneytisins.
Þar var verið að auglýsa skýrslu sem innifelur nokkrar leiðir að breyttum hag þessarar stofnunar. Að sögn Sighvats fengu sumir starfsmenn tölvupóst um efnið, aðrir fengu ekkert að vita- þ.á.m. hann!
Svo kom hún frú Valgerður með nefið upp í loft og ekkert nema hrokinn.
Lýsir því í löngu máli að Sighvatur sé hennar undirmaður, þ.e. framkvæmdastjóri þessarar stofnunar sem heyrir undir Utanríkisráðuneytið og hann sé sendiherra. Að hún ætli ekki að munnhöggvast við hann í fjölmiðlum (eins og hún hafi aldrei gert svoleiðis).
En finnst frú Valgerði virkilega það góð vinnubrögð að sumir starfsmenn fái að vita um hlutina en aðrir ekki? Finnst henni það hennar málstað til framdráttar?
Ég ætla bara að vona að hún fari að skilja hrokann eftir heima, því hann fer henni ekki vel
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2007 | 09:36
Landsbyggðin
Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með fréttum og umræðum undanfarinna daga út af því ástandi sem ríkir í atvinnuástandi Ísfirðinga.
Það sem mér hefur fundist athyglisverðast er að sjá þann ágæta mann bæjarstjórann koma fram og lýsa yfir miklum áhyggjum og vill að ríkið flytji störf vestur til að mæta þessum missi starfa.
Vissulega er ástandið grafalvarlegt - ég neita því ekki - en það þýðir lítið hjá bæjarstjóranum að koma fram þegar allt er um garð gengið og vilja fá eitthvað gert. Hann sem formaður Sambands Íslenskra Sveitafélaga ætti að vita að best er að byrja á hinum endanum. Það segir mér enginn að hann hafi ekki haft veður af þessu fyrirfram.
Eitt sem landsbyggðinni vantar - er að fá að vita hvort það sé stefna stjórnvalda að halda henni í byggð. Í raun á það svar að vera bara heiðarlegt - já eða nei.
Ef svarið er nei - á þá fólk að búa að eigin vali á stöðunum og sætta sig við skarðari hlut af hendi ríkisins.
Ef svarið er já - á þá fólkið ekki rétt á því að tækifæri til starfs og búsetu séu jöfnuð. Það er hægt að gera með ýmsum leiðum, t.d. eru nokkur skattþrep í Noregi. Það er lægri skattur úti á landi, enda er fólk úti á landi yfirleitt með lægri laun. Einnig er hægt að fella niður eða lækka flutningskostnað á vörum. Svo er eitt enn - úti á landi eru mjög mörg köld svæði, þ.e. húsin eru rafkynt. Yfir vetrarmánuðina fara margir með hátt í ársnotkun okkar höfuðborgarbúa.
Hvernig væri að Ísfirðingar (og önnur byggðarlög á landsbyggðinni) reyndu að laða til sín fyrirtæki með öllum tiltækum ráðum. Bærinn hefur upp á mikið að bjóða sem er "söluvænt". Hvort sem það er að bjóða fram ódýrt húsnæði fyrir tölvufyrirtæki eða önnur þekkingarfyrirtæki, jafnvel ódýr leikskólagjöld fyrir starfsmenn fyrirtækjanna.
Það er hægt að byggja upp fyrirtæki á landsbyggðinni úr engu sem verða stór. Til þess þarf vilja og kraft.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2007 | 09:20
Klám umræðan
Þessi klám umræða út af bæklingi Smáralindar er algjör snilld - finnst mér.
Mér finnst það segja mest um þessa manneskju sem startaði umræðunni. Ég sá ekkert klámfengið út úr þessari mynd af stelpunni, kannski ef hún hefði verið á nærfötunum. Þá hefði ég kannski mögulega getað séð eitthvað neðan mittis
Er það ekki orðið nokkuð langt gengið ef farið er að horfa á auglýsingar og athuga hvort þú sjáir klám út úr þeim.
Hvernig ætli Frú Kolbeins viði að sér efni, situr hún heima hjá sér á kvöldin og horfir á eina bláa?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)