Færsluflokkur: Bloggar

Sólardagur hinn fyrsti

Í víkinni fögru er sólardagurinn hinn fyrsti í dag. Það er þegar sólin hækkar á lofti - það mikið að hún gægist yfir fjalltoppana. Fögur sjón eftir, oft laaaangan og erfiðan vetur.   Á þessum degi fór maður oft í sólarpönnsur til ömmu.

Í dag var líka sólardagur hinn fyrsti hjá mér, því hér í dalnum fer sólin í nóvember og kemur 20. janúar. Ótrúlegt en satt. Á þessum degi finnst mér alltaf eins og vorið sé á næsta leyti. 

Ég er í raun afskaplega fegin að vera laus við þessa gulu. Því haustin og snemma á vorin er oft óþolandi tími hjá mér, þá er þessi gula það lágt á lofti að hún þyrlar upp öllu ryki sem hefur sest að hjá manni í gegnum mánuðina. Því hef ég yfirleitt verið með tuskuna og moppuna á lofti þessar vikur!

Í dag hefði ég alveg verið til í að gera sólarpönnsur. Gallinn hjá mér er sá að ég á spaðann, þ.e. pönnuköku en enga pönnu. Og hef þar fyrir utan aldrei bakað pönnukökurCool

Veit reyndar að þær eru til tilbúnar í pakka í Bónus (Jóhannes sér um sína!).

Takmarkmið mitt á næsta ári er að baka sólarpönnsur - á minni eigin pönnu.... og ná að gera það þannig að þær leki ekki út af pönnunni eða verði að lummumShocking


Amma mín.......

                                                Amma mín var mögnuð kona. Átti átta börn og afaauja ammaSmile.

 Ég gerði hana að langömmu, sem henni fannst "hræðilegt". Var alltof ung fyrir svona stóran titil!!

Hún talaði hátt og mikið.. og var alltaf á ferðinni.

Sem krakki man ég eftir því hvað hún var alltaf mjúk í framan, en hrukkurnar gerðu hana þannig fannst mér.  

Hún kom mér upp á bragðið með að veiða.  En veiðistöngin hefur verið ósnert í 8 ár.

 Hún var gull og grjót. Eins og ritað var um hana.

Henni fannst afskaplega gaman að skemmta sér og vera í kringum fólk.

Hún var sannur Sjálfstæðismaður...................

og var því við hæfi að hún veldi afmælisdag foringjans til að kveðja þetta líf eftir hörð en stutt veikindi.

Söknuðurinn er alltaf til staðar, sérstaklega á þessum tíma, í kringum jól og í janúar.

Hún skildi eftir sig stórt tómarúm og fallegar minningar sem komu, með tímanum, í stað sársaukans. 

 Í dag, á afmælisdegi foringjansWink, fagna ég minningu hennar í mínu lífi og til mig ríkari að hafa átt hana að.

 


kennarinn....

Annars fékk ég athyglisverða spurningu um jólin. Það var verið að ræða skólamál,starfsdaga og frí í skólum. Spurt var hvort kennarar þyrftu nokkuð á mörgum starfsdögum í einu að halda. En svo virðist sem skólar á höfuðborgarsvæðinu byrji almennt á bilinu 7.-8. janúar. Ég varð hálf klumsa við spurningunni og finnst hún lýsa mjög vel því að fólk veit almennt ekki hvað felst í því að vera kennari. Annað en að fara með krökkunum í gegnum bækur og kenna þeim að skrifa og reikna. 

Ég er kennari í 96% starfi. Kenni 24 tíma á viku (26 tímar er full kennsla, en ég fæ eina stund í afslátt þar sem ég er nýliði, svo minnkaði ég við mig um eina stund).  Hver kennslustund telur sem ein klukkustund, þar sem 40 mín er kennslan og 20 mín í undirbúning. Það segir sig sjálft að ef þú ætlar að kenna svo vel sé, duga ekki 20 mínútur til að undirbúa kennslu. Búa til verkefni,próf, fara yfir vinnubækur, finna ítarefni og svo mætti lengi telja. Hvað þá að horfa á fræðslumyndir (sem skynsamlegt er að gera, svo maður geti svarað spurningum nemenda). 

Eftir að kennslu lýkur á daginn er ég sem sagt í því að búa til verkefni, fara yfir próf og vinnubækur o.s.frv. Ásamt því að sitja fundi með öðrum aðilum vegna nemenda, senda tölvupósta og svara. Setja um nemendur inn í Mentor, sem heldur utan um mál nemenda. S.s. mætingu og hegðun í skólanum.

Ég er yfirleitt búin að kenna um kl 13 og hleyp út úr skólanum 15.45 til að ná í börnin á sínar stöðvar. Oftar en ekki fylgir mér poki með heimavinnu og verkefnum sem þarf að fara yfir, þar sem tíminn leyfir ekki að ég fari yfir þá hluti í vinnunni.  

Ég yrði því alsæl ef skóladagatalið hjá mér væri uppsett þannig að ég næði 2 starfsdögum í röð. Þá næði ég að vinna mér í haginn þannig að pokinn góði væri eftir í skólanum í nokkrar vikur. 

Svo fær maður að heyra að maður fái svo gott  sumarfrí. Vissulega fáum við það. Við vinnum það af okkur yfir veturinn, svo ekki erum við að fá það af góðmennskunni einni saman.

Ég er farin að svara þessari sumarfrís spurningu með annarri - Viltu skipta um launWink


Rei rei ekki um jólin

Þar sem ég er alltaf fyrst með fréttirnar (eða þannig)Smile

Ég kíkti á þetta Rei rei lag sem allir tala um. Minnug þess að einn nemandi minn nefndi þetta í tíma og samnemendur töluðu um að mamma hennar hefði verið í sjónvarpinu.

Þetta er snilld - algjör snilld. Svona á að gera grín að sjálfum sér og öðrum!

 

http://www.youtube.com/watch?v=Rd0JmzP0AAQ&NR=


Ekkert mál fyrir Jón Pál!

Horfði á þessa mynd í dag.

Þessi mynd er æðisleg, vel gerð og unnin.

Sýnir manninn Jón Pál, bæði út á við, inn á við og kosti og galla.

Undir það síðasta var hún orðin þriggja vasaklúta. Skil núna það sem ég heyrði eftir að hún var sýnd í í bíó að snökkt heyrðist frá áhorfendum.

Skildi það í raun í dag hvers lags harmdauði maðurinn var sínum nánustu og landsmönnum í rauninni.

Klapp fyrir þér Hjalti (klappa þér á bakið næst þegar ég sé þig) og klapp fyrir fjölskylduna að eiga góðar minningar um svona frábæran mann.  


Jólahátíðin

IMG_7816Nú eru jólin liðin hjá okkur í Greninu. Það er ekki hægt að segja að þau líði í friði og engum látum hér!

Á aðfangadag munaði ekki litlu að elsti sonurinn færi yfir um af stressi og ekki skánaði það þegar sá í miðið tók undir gaulið - en skyldi þetta samt ekki alveg.

Þegar kom að opnun pakka byrjaði sá elsti eins og í akkorðs vinnu við að taka upp pakkana. Við urðum að biðja hann um að slaka aðeins á - svo þetta tæki lengri tíma en 3 mínútur. Sá í miðið var ívið rólegri en þegar líða fór á og athygli foreldranna að dreifast tók hann sig til og tók upp pakka þess yngsta!

Jólin liðu eftir þetta nokkuð rólega, sá yngsti er enn slappur eftir lungnabólguna og fór ég með hann til læknis á aðfangadag og fékk fyrir hann púst. Að vana fékk sá í miðið hita á jóladag.

Gærdagurinn var svo draumadagur (langþráður) þá vorum við á náttfötunum fram að kvöldmat. Það eru draumajól hjá mér.

Það snjóaði mikið hér á jóladag og tók ég fallegar myndir af því. Reyni að koma þeim myndum inn á eftir. Það hefur gengið eitthvað brösulega í síðustu skipti. Tel það frekar mína vankunnáttu Smile

Annars fékk ég nokkra fína hluti í jólagjöf. Spóluskó og loðhúfu, sjónvarp, hanska og trefil og nokkra hluti í matarstellið mitt.

Þegar IKEA kristallinn var orðinn þreyttur drattaðist ég loksins af stað og fann mér matarstell til að safna. Mér fannst hálf asnalegt að vera á gjafalista í búð þegar ekkert brúðkaup er á döfinni. Veit svo sem ekkert með brúðkaupið en fólk getur a.m.k. keypt af honum fyrir okkur í jóla og afmælisgjafir.


Jólafriður!

Það fer lítið fyrir jólastressi hér í Greninu. Þó á eftir að skrifa 3 jólakort, fara með nokkur, pakka inn gjöfum, þrífa húsið, fara í búð og baka 2 sortir af smákökum.

Ég er alveg salí róleg og finnst það æðislegt!

Horfi út um gluggann minn og það er svoooo fallegt veður hér í sveitinni, alveg logn og pínu föl yfir. Reykjalundur skartar sínu fegursta. Og litlu fellin hér í kring svo falleg að sjá.

Góðir vinir okkar eignuðust dóttur í gærkvöldi, til hamingju með það kæru vinir!!

Eins langar mig að biðja ykkur um að hugsa hlýlega til nágrannans sem ég nefndi um daginn. Fjallið hans er orðið mikið hærra en fyrir nokkrum dögum. Hann þarf á hlýjum hugsunum og styrk að halda. 

Ég er farin í bæinn að horfa á fólkið í jólastressinu. Ætla að njóta lífsins, rölta um og skoða mannlífið 


Jólafrí og jólastress og jóla.....

Það er ekki hægt að segja annað en að desember hafi gengið ansi hratt yfir.

Ég er komin í jólafrí, ótrúlegt en satt. Ég man þegar ég sat í ágúst í stofunni minni í skólanum og taldi mánuðina í jólafríið!

Ég er farin að skilja þetta jólastress sem fólk talar um. Þegar ég horfði á Spaugstofuna á laugardaginn minnti Örn mig á sjálfa mig. Allt tilbúið, en samt átti eftir að gera allt!

Þessi undirbúningur er soldið mikill pakki. Maður er í fullri vinnu, með 3 lítil börn, þarf svo að baka, skrifa jólakort, kaupa gjafir, þrífa, pakka inn o.s.frv. Ásamt því að sjá um daglegt heimilishald. 

Hvernig fer fólk að þessu án þess að fara yfir um?! 

Ég hef síðustu viku lært margt sem ég get nýtt mér á næsta ári. Látið gera kortin fyrir mig hjá Hans Petersen, keypt smákökurnar tilbúnar hjá honum Jóhannesi í Bónus, fengið konu til að þrífa. Svo held ég svei mér að það séu til jólagjafa ráðgjafar. Spurning um að fá þær til að redda gjöfunum!

Annars hef ég mikið pælt í vinnunni minni. Hugsað til baka og velt fyrir mér upphafinu og nú í dag. Í ágúst var ég dauð stressuð man ég. Svitnaði eins og svín. Voða fín í pilsi, máluð og í of háum hælum. Þið vitið - maður gengur eins og önd, farinn í mjöðmum og baki!  Gleymdi helmingnum af því sem ég ætlaði að segja krökkunum og gat varla horft á foreldrana, man ekki enn hverjir komu með börnunum sínum!

Svo fór þetta að sjóast. Ég gat farið að mæta í tíma og tíma án undirbúnings, þ.e. öryggið fleytti manni aðeins af stað.

Það sem ég er hins vegar ánægðust með í dag eru foreldrarnir. Þau standa ótrúlega vel með mér, allir svo jákvæðir og samvinnufúsir. Jafnvel þeir sem halda mér á tánnum og vilja allt það besta fyrir börnin sín. Ég get ekki neitað því að ég hef gert margt til að efla þessi tengsl og hef, að ég held, tekist vel upp.

Annars ætla ég ekki að pæla í vinnunni næstu 2 vikurnar. Heldur horfa á verkefnalistann og reyna að vinna á honum...

Eitt veit ég - jólin koma án þess að eldhúsið sé þrifiðGrin


Uppreisn æru.

Ég hef setið undir ámæli á heimili mínu fyrir  að horfa á dr. Phil. Horfi stundum á laugardögum, það er minn hvíldartímiSmile.  Í morgun rak mig svo í rogastans, ég var að lesa viðtal í Fréttablaðinu við Fjölni tattoo. Hann segist stundum horfa á kallinn.

Ég er því ekki ein - og þetta er ekki bara konuþátturWhistling

Ég hef því fengið uppreisn æru gegn betri helmingnum sem hefur oft gert grín að mér.  


Hlýjar hugsanir og styrkur.

Mig langar að biðja ykkur um að hugsa hlýtt til ungs nágranna míns sem er að greinast aftur með krabbamein. Baráttan verður erfið - en við trúum að sjálfsögðu að hann fari í gegnum þetta með stæl.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband