Kosningaþátturinn

Í gær settist ég fyrir framan imbann til að horfa á kosningaþátt sjónvarpsins.

Mér fannst nú ekki koma mikið nýtt fram í þessum þætti, það virtust allir vera sammála.  

Það var hins vegar eitt sem ég hnaut um. Það var umræðan um menntamál. Að hafa samfellu á milli skólanna, þ.e. að leikskólinn yrði fyrsta skólastigið, stytta menntaskólann til að koma fólki fyrr út að vinna.

Af hverju á leikskólinn að vera fyrsta skólastigið?

Ég er foreldri og vil að börnin mín fái að leika sér á leikskólanum. Sem foreldri (og kennari) veit ég að mikil fræðsla fer fram á leikskólanum. Sonur minn syngur hér öll kvöld um litina, telur upp á 20, bendir á nebban á litla bróðurnum ásamt því að hann aðstoðar við að leggja á borð (á góðum degi!).  Mér finnst þessi fræðsla alveg nóg fyrir lítið barn. Hins vegar er hér við leikskólann Reykjakot leikskóladeild, þar sem 5 ára börn eru í deild í Varmárskóla. Þetta er undirbúningur undir skólagönguna. Ég er á þeirri skoðun að það eigi að styrkja þau tengsl og kynna skólann vel fyrir börnunum, svo aðlögun þeirra á milli skólastiga gangi sem best fyrir sig. 

Ef að leikskóli verður fyrsta skólastigið þýðir það að leikskóli verður gjaldfrjáls. Það vil ég alls ekki. Þetta er dýr þjónusta fyrir sveitarfélögin, og verði reksturinn alfarið á hendi sveitarfélaga munu þau eðlilega leitast við að fá peninga fyrir rekstrinum, t.d. með hærra útsvari eða annarri skattheimtu. Sveitarfélögin munu fá framlag frá ríkinu en oft dugir það ekki til. 

Ég vil borga fyrir þá þjónustu sem ég þarf að nota frá hendi sveitarfélagsins.

Ef leikskólinn verður fyrsta skólastigið þarf að fá leikskólakennara til starfa í leikskólunum. Ég hef átt börn á tveimur leikskólum. Á þeim báðum voru deildirnar 4-5. Að meðaltali starfa 4-5 aðilar inni á hverri deild. Yfirleitt er 1 af þeim leikskólakennari. Það er því verið að reka þessa leikskóla þannig að 75% starfsmanna eru ófaglærðir starfsmenn. Hvernig á að halda uppi skólastarfi þegar fagmennirnir eru svo fáir?

Þá kemur önnur spurning af hverju eru svo fáir leikskólakennarar við störf? Einhvern veginn tel ég að launin spili þar inn í.

Því má segja að niðurstaða mín í þessu máli sé sú að ekki eigi að reka  leikskóla sem fyrsta skólastig. Annars vegar vegna þess að börn eiga að fá að vera börn. Og svo hins vegar að  á meðan fagfólk fæst ekki til starfa er ekki hægt að halda úti því starfi sem þarf.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst að leikskólinn eigi að vera fyrsta skólastigið og að mestu leyti gjaldfrjáls. Það þýðir samt ekki að hann eigi að vera kvöl og pína fyrir börnin, leikurinn skiptir mestu í náminu hjá þeim og það er margt hægt að læra í gegnum hann. En auðvitað þarf að breyta miklu í rekstrarumhverfi leikskólanna til að þetta sé hægt og hækka laun leikskólakennara svo að þeir sem útskrifist skili sér til starfa. Svo verður að líta heildstætt á skólakerfið frá leikskóla og upp úr.

Annars bendir margt til þess að sama staða komi upp í grunnskólunum verði ekkert að gert, þe. að meirihluti starfsfólks verði ófaglærður. Ég veit ekki hvort að samfélagið gerir sér grein fyrir þeirri ólgu sem er á meðal margra kennara. Það eru ansi margir búnir að fá nóg.

Erla (IP-tala skráð) 25.4.2007 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband