Færsluflokkur: Bloggar
11.5.2007 | 20:38
"Áfram sem forsætisráðherra"
Síðastliðna daga hafa dunið yfir mann auglýsingar sem aldrei fyrr vegna kosninganna á morgun.
Það er eitt sem hefur vakið athygli mína í auglýsingu frá Sjálfstæðisflokknum. Þar biður Geir Haarde um umboð til að starfa áfram sem forsætisráðherra.
Er í kosningunum verið að kjósa forsætisráðherra? Er ekki verið að kjósa þingmenn og flokka. SVO fá flokkarnir umboð til að mynda ríkisstjórn?
Er búið að skipuleggja málin á bakvið tjöldin?
Mér er spurn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2007 | 21:53
Þriðji dagurinn
Nú er þriðji dagurinn að kvöldi og kominn og nýbúið að reka síðustu "rolluna" í rúmið.
Dagurinn byrjaði snemma. Minnsta vekjaraklukkan ákvað að þjófstarta kl 6.40, takk fyrir. Fyrir húsmóðurina er það heldur snemmt.
Það gekk stórslysalaust að koma grísunum á fætur. Það var reyndar stress í mömmunni því hún ætlaði með Arnar í bæinn, en það datt upp fyrir þegar hún mundi að í leikskólanum var sveitaferð. Bæjarferðin bíður því til morguns.
Dagurinn hefur gengið nokkuð vel fyrir sig. Að vanda á mánudögum var Mjallhvítar hittingur.
Seinnipartinn fórum við mæðginin í göngutúr með nýju kerruna. Arnar tilkynnti mér í bílskúrnum " ekki heim takk!". Þetta endurtók hann nokkrum sinnum og æstist þeim mun meira þegar á leið heim var heitið.
Áðan fékk ég mynd senda á símann minn. Sú mynd hefði getað farið með góða skapið út á hafsauga. En í staðinn ætla ég að fá mér ís makanum til samlætis og horfa á kvöldsólina. Hún hlýtur að ná sólinni í San Fransisco svona 30%....
Ég viðurkenni að ég er frekar þreytt eftir daginn. En ég skil ekki eitt - hvernig skipuleggja einstæðar mæður sig, þær þurfa að hugsa um börnin, svo þarf að hugsa um heimilið. Það á ég algerlega eftir . Kannski fæ ég stelpurnar til að taka til á miðvikudaginn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2007 | 22:23
Borgarafundur
Mikið er ég glöð með framtak Gumma Golla heima í Víkinni. Hann á skilið stórt klapp á bakið fyrir að taka af skarið og ræða málin.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem atvinnumálin hafa verið í uppnámi í Víkinni. Og augljóslega er engin einföld lausn til.
Fólk horfir mikið á fiskinn, sem er svo sem ekki skrítið því Víkin liggur vel við miðunum.
Eitt sinn er atvinnuástandið var erfitt fór Ómar Ragnarsson vestur og talaði við fólk. Þar talaði hann við mæta konu sem sagði - við björgum okkur Bolvíkingar... svo kom í næstu setningu - við bíðum eftir að það komi einhver og bjargi okkur. Ég er hrædd við þennan hugsunarhátt. Það hefur sýnt sig á landsbyggðinni að einkaframtakið virðist skipta miklu máli - eigi eitthvað að gera. Sbr. 3X Stál á Ísafirði. Þar komu saman 3 góðir menn sem vildu búa fyrir vestan og urðu að skapa sér framtíðina.
Það má skilja mig þannig að allt sé í eymd og volæði, þannig er það alls ekki. Það er margt gott sem er verið að gera fyrir vestan, t.d. sjóstangveiðin á Suðureyri. Ásamt uppbyggingu á ferðaþjónustu.
Fólk þarf hins vegar að taka af skarið og bjarga sér. Ríkið hefur fyrir löngu sýnt fram á að það ætli ekki að aðstoða.
Það verður því athyglisvert að fylgjast með næstu fréttum af heimahögunum. Ég vona innilega að þær verði góðar.
![]() |
Atvinnumál Bolungarvíkur rædd á borgarafundi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.5.2007 | 22:12
"Einstæð móðir"
Nú er húsmóðirin þreytt. Meira að segja hrikalega þreytt. Ástæðan er einföld. Makinn er floginn burt og nýtur lífsins þessa stundina í San Fransisco. Er akkúrat núna í skoðunarferð um borgina, væntanlega á Golden Gate brúnni. Mig langaði EKKI með (not!) en þegar maður á fullt af börnum þarf einhver að passa. Ég býð engum upp á að passa þá, a.m.k. ekki núna. Maður velur vel þann atburð sem krefst pössunar allra krílanna.
Nú eru liðnir tveir dagar af þessu einstæðings dæmi. 6 dagar eftir. Það er í stuttu máli hægt að segja að geðheilsan er ekki upp á sitt besta núna. Húsmóðirin er úrvinda á sál og líkama. Komin með bólgur á raddböndin af því að siða til börnin og dauðlangar upp í rúm. Það er hins vegar ekki hægt strax því þvottavélin þarf að klára sitt.....
Maður sér hvað munar mikið um þennan auka aðila sem hugsar um börnin með manni (þó manni fnnist hann ekki alltaf standa sig sem best!). Ég er ein að gefa að borða, skipta á bleyjum, passa þann minnsta fyrir miðju barninu, taka til, þvo þvotta, setja á klósettið og þar fram eftir götunum. Þegar ég hugsa til baka held ég að ég hafi hreinlega gleymt að borða. Eitt dæmi um daginn er svona: Húsmóðirin sat í sófanum og gaf þeim yngsta sopann sinn. Þá byrjaði nr 2 að gala - ég þarf að pissa. Brjóstinu var slúttað með það sama. Mæðginin hlupu inn á bað. Þar komst mamman að því að hún gat ekki athafnað sig með barnið í fanginu, svo sækja varð stól. Á meðan gólaði nr 2 á klósettinu. Nr 3 settur í stólinn og byrjaði að góla þar á meðan nr 2 var sinnt. Þarna var klukkan bara 3. HVERNIG FARA EINSTÆÐAR MÆÐUR AÐ???
Mamma segir að þetta heiti skipulag. Á morgun eða þriðjudag verði þetta strax léttara. Ég ætla bara rétt að vona að það sé málið. Annars bý ég um Kidda rúm og leyfi henni að aðstoða mig.
Það er svo nóg sem liggur fyrir í vikuni. Það þarf að fara á marga marga staði. Byrjar strax í fyrramálið. Ég ætla að reyna að taka einn stað á dag - eða svo. Svo ég nái að hlaða batteríin á þeim tíma sem strákarnir eru á sínum stöðvum.
Eitt ægilega sniðugt gerði ég þó í dag (það eina fyrir utan heimilið). Ég keypti tvíburakerru fyrir strákana. Nú eftir kvöldmatinn var kerran prófuð. Annar strákurinn malaði allan tímann og heilsaði öllum. Hinn hló framan í heiminn og fannst þetta æðislegt. Þá er vitað mál hvað við gerum seinnipart dags alla vikuna.
Annars var þetta stór dagur fyrir Tómas litla, því hann tók sig til og byrjaði að sitja. Ægilega rogginn með sig. Maður verður samt að passa sig að geifla sig ekki of mikið, því jafnvægið er ekki beisið.
Best að athuga með þvottavélina svo ég komist í rúmið.... get ekki beðið.
Þetta verður framhaldssaga vikunnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2007 | 13:48
Hvað á að kjósa?
Inni á síðunni xhvad.bifrost.is er að finna spurningar sem eiga að hjálpa manni til að gera upp hug sinn fyrir kosningarnar á laugardaginn. Að sjálfsögðu tók ég þátt og þetta eru niðurstöðurnar:
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 31.25%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 10%
Stuðningur við Samfylkinguna: 37.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 43.75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 62%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 70%
Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Íslandshreyfingarinnar!

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.5.2007 | 12:36
Úti á landi.
Ég er utan að landi eins og margir vita, frá hinni frægu Bolungarvík.
Á Vestfjörðum er fréttavefurinn bb.is sem sér okkur brottfluttu fyrir fréttum af svæðinu.
Á rúnti mínum á netinu áðan verð ég að viðurkenna að hakan seig örlítið.
Það var frétt þess efnis að byrjað er að birta myndir, á vef sjúkrahússins á staðnum, af nýburum og segja frá foreldrum þess og hæð og þyngd. Ljósmóðirin sagði að fólk væri forvitið um þessa hluti.
HALLÓ! Á virkilega að fara að setja á netið ákveðinn hluta af því sem gerist á sjúkrahúsum til að "fræða lýðinn".
Ég veit fullkomlega hvernig hlutirnir ganga fyrir sig úti á landi. Fólk er forvitið um nágrannann og vill allt vita. Nýjasta dæmið eru sögur sem gengið hafa í heimabænum, þess efnis að ákveðin hjón væru skilin - þar sem hún hefur verið í prófum í Reykjavík.
Er þetta ekki svolítið langt gengið.
Bjarni Ben gæti tekið sér þetta til fyrirmyndar og aflétt þagnarskyldunni af Jónínu málinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 12:58
Og ríkissaksóknari verður......
Jæja nú er búið að dæma blessaða Baugsmennina í skilorðsbundið fangelsi.
Þetta kemur degi eftir að tilkynnt er um umsækjendur starfs ríkissaksóknara. Þar er meðal umsækjenda Jón H.B. Snorrason sem hefur unnið mikið við þetta Baugsmál. Verður honum verðlaunuð hollustan með því að verða ráðinn..........
En nú er mér spurn. Það er búið að eyða hellings peningum í þetta mál. Ætlar skatturinn að fara af stað og rannsaka hvert einasta fyrirtæki í landinu? Er það ekki eðlilegt framhald - fyrst byrjað er á einu. Það verður fróðlegt að sjá.
Innan skólakerfisins myndi svona uppákomur kallast einelti - ef einn er tekinn út fyrir hópinn og honum refsað. Eiga ekki öll fyrirtæki landsins að sitja við sama borð?
![]() |
Jón Ásgeir og Tryggvi dæmdir í skilorðsbundið fangelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2007 | 10:40
Kosningaþátturinn
Í gær settist ég fyrir framan imbann til að horfa á kosningaþátt sjónvarpsins.
Mér fannst nú ekki koma mikið nýtt fram í þessum þætti, það virtust allir vera sammála.
Það var hins vegar eitt sem ég hnaut um. Það var umræðan um menntamál. Að hafa samfellu á milli skólanna, þ.e. að leikskólinn yrði fyrsta skólastigið, stytta menntaskólann til að koma fólki fyrr út að vinna.
Af hverju á leikskólinn að vera fyrsta skólastigið?
Ég er foreldri og vil að börnin mín fái að leika sér á leikskólanum. Sem foreldri (og kennari) veit ég að mikil fræðsla fer fram á leikskólanum. Sonur minn syngur hér öll kvöld um litina, telur upp á 20, bendir á nebban á litla bróðurnum ásamt því að hann aðstoðar við að leggja á borð (á góðum degi!). Mér finnst þessi fræðsla alveg nóg fyrir lítið barn. Hins vegar er hér við leikskólann Reykjakot leikskóladeild, þar sem 5 ára börn eru í deild í Varmárskóla. Þetta er undirbúningur undir skólagönguna. Ég er á þeirri skoðun að það eigi að styrkja þau tengsl og kynna skólann vel fyrir börnunum, svo aðlögun þeirra á milli skólastiga gangi sem best fyrir sig.
Ef að leikskóli verður fyrsta skólastigið þýðir það að leikskóli verður gjaldfrjáls. Það vil ég alls ekki. Þetta er dýr þjónusta fyrir sveitarfélögin, og verði reksturinn alfarið á hendi sveitarfélaga munu þau eðlilega leitast við að fá peninga fyrir rekstrinum, t.d. með hærra útsvari eða annarri skattheimtu. Sveitarfélögin munu fá framlag frá ríkinu en oft dugir það ekki til.
Ég vil borga fyrir þá þjónustu sem ég þarf að nota frá hendi sveitarfélagsins.
Ef leikskólinn verður fyrsta skólastigið þarf að fá leikskólakennara til starfa í leikskólunum. Ég hef átt börn á tveimur leikskólum. Á þeim báðum voru deildirnar 4-5. Að meðaltali starfa 4-5 aðilar inni á hverri deild. Yfirleitt er 1 af þeim leikskólakennari. Það er því verið að reka þessa leikskóla þannig að 75% starfsmanna eru ófaglærðir starfsmenn. Hvernig á að halda uppi skólastarfi þegar fagmennirnir eru svo fáir?
Þá kemur önnur spurning af hverju eru svo fáir leikskólakennarar við störf? Einhvern veginn tel ég að launin spili þar inn í.
Því má segja að niðurstaða mín í þessu máli sé sú að ekki eigi að reka leikskóla sem fyrsta skólastig. Annars vegar vegna þess að börn eiga að fá að vera börn. Og svo hins vegar að á meðan fagfólk fæst ekki til starfa er ekki hægt að halda úti því starfi sem þarf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2007 | 10:26
Ryðgaður bær
Eins og ég nefndi hér í gær fóru feðgarnir vestur á firði um helgina. Á sunnudaginn lá leiðinni í Víkina mína. Þegar þeir keyrðu inn í bæinn heyrðist í þeim stutta - pabbi af hverju er allt svona ryðgað hérna? Þá sá hann ryðgað hús, ryðgaðan bíl o.s.frv. Fannst allt í niðurníðslu.
Mér fannst hálf sorglegt að heyra þessa sögu, því þetta er bærinn minn. Ef þú sem ferðamaður kemur í bæinn er það fyrsta "lookið" sem skiptir mestu máli.
Ef þau sem stjórna detta hér inn - þá vil ég beina því til þeirra að huga að umhverfinu og hreinsa til fyrir sumarvertíðina.
Kannski ég sendi þeim bara póst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2007 | 15:08
Árinu eldri
Haukur kvartaði undan því í gærkvöldi að ég hefði ekki bloggað í marga daga. Svo hann hafi eitthvað að gera á kvöldin - annað en að knúsa mig - verð ég að hlýða... Af því að ég þyki svo einstaklega góð í taumi. Not.
Síðasta vika var hreint ágæt. Á föstudaginn varð húsmóðirin árinu eldri. Makinn hélt upp á það með því að fara vestur á Ísafjörð með eldri synina tvo, ég var heima með minnsta stubbinn. Ég naut þess voða vel að vera í þögninni með þeirri vitneskju að þegar ég tók til var hreint - í 2 daga!
Ég hef aðeins verið að fylgjast með kosningabaráttunni, eiginlega í fyrsta skiptið. Er held ég orðin það gömul að ég fari að mynda mér skoðanir! Það er merkilegt að fylgjast með þessum þáttum í sjónvarpinu. Fyrsti þátturinn var, að mér fannst, hálfgerð hörmung. Því allir töluðu hver í kapp við annan svo úr varð Hornbjarg á góðum degi. Þáttur nr 2 var skárri. Þá fékk fólk að tala í friði (að mestu leyti) og var það virkilega skemmtilegur þáttur, málefnalegur og góður. Hann var haldinn á Ísafirði, þar sem aðalmálin eru samgöngumál og atvinnumál. Það kom mér á óvart hvað Sturla fékk harða andstöðu og virtist ekki með vinsælustu mönnunum á staðnum. Ég er svo sem brottflutt fyrir nokkrum árum og er því ekki alveg inni í samgöngumálunum, viðurkenni það. Finnst hann reyndar frekar "linur" sem ráðherra. Ekki standa nógu fast á sínu og ekki með góð rök í sínu máli (hvort sem það snýr að vestfjörðum eða öðrum). Það var alveg frábært að sjá hversu margir mættu á fundinn,miðað við fundinn á Selfossi.
Grétar Mar var ekki að gera sig fannst mér, ég efa það ekki að hann viti mjög margt um kvótakerfið, en það eru fleiri mál sem fólk vill ræða. Ég sá hann svo aftur í þætti í sjónvarpinu sl. sunnudag og þá byrjaði hann á kvótakerfis ræðunni sinni með hávaða og látum. Það trekkir ekki að.
Jón vinstri grænn var heldur ekki að vinna á. Það kom mér á óvart, því miðað við fylgis aukningu þeirra í kjördæminu hélt ég að þarna væri kominn algjör nagli. Bæði hann og svo Atli Gíslason í Suður kjördæmi virðast aðallega byrja sitt mál á því að tala um Sjálfstæðisflokkinn og hvað hann hefur gert slæmt í sinni stjórnartíð. Áður en þeir tala um það sem Vinstri grænir ætla að gera.
Vinstri grænir og Íslandshreyfingin eiga það sameiginlegt að vilja tala mikið um umhverfismál sem allir eru orðnir hundleiðir á. Þessi kona, Ásta eitthvaðdóttir. Var góð í þættinum sl. sunnudag. Því þar verið að ræða mál sem eru innan sviðs hennar vinnu, minnir að hún sé vistfræðingur. Þannig að hún kom vel út úr umræðum um höfn í Bakkafjöru, göngum til Eyja o.s.frv.
Mér fannst kallinn standa sig eiginlega best í þessum Vestfjarðaþætti sjónvarpsins. Var málefnalegur og rökfastur. Lét ekki draga sig inn í einhvert orðaskak. Ég er ekki alveg hlutlaus. Sjáum svo hvernig hann verður í sjónvarpinu í kvöld.
Ég sakna að sjá umræðu um málefni barna fjölskyldna og unga fólksins.
Hvernig á að fara með tannlæknakostnað barna, læknakostnað barna. Skólakerfið. Menntun kennara og leikskóla kennara, launamál þeirra. Og fleiri mál sem snúa að barna fólkinu.
Nú er sá yngsti farinn að gala... svo meira síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)